BÍL hélt fund í Norræna húsinu þann 30. september 2006, þegar minnst var 40 ára afmælis íslensks sjónvarps.

 

Ágúst Guðmundsson, forseti BÍL, ávarpaði fundarmenn:

 

Einn stjórnarmaður bandalagsins sagði mér litla sögu í gær. Það var þegar miklar umræður voru í Frakklandi um fóstureyðingar, hvort þær skyldi leyfa. Útifundir voru haldnir og mikil ólga – og svo samþykkti þingið allt í einu löggjöf sem leyfði fóstureyðingar, öllum að óvörum. Og þá á Simone de Beauvoir að hafa sagt: Og ég sem var búin að skrifa grein!

Einhvern veginn þannig leið okkur í fyrradag, eftir að tilkynning kom um þjónustusamning á milli ríkis og ríkisútvarps. Undanfarnar vikur höfum við verið að undirbúa átak til að auglýsa eftir íslensku sjónvarpi – og svo virðist það allt í einu fundið, áður en leitin er hafin.

Það fer ekki á milli mála að í þjónustusamningnum felst mikilvægt skref í rétta átt. Auka skal hlutfall innlends efni upp í 65 %, úr 44 % af útsendu efni, en það er sú tala sem Ríkisútvarpið gefur upp. Við þurfum að vísu að spyrja hvernig sú prósentutala sé fengin, en samt er vissulega ánægjuefni að hlutfall þetta eigi að breytast á næstunni, innlendri dagskrá í hag. Á tímum fjölbreytni í sjónvarpsrekstri er innlend dagskrá reyndar eina ástæðan fyrir tilvist Ríkissjónvarps, og það virðist vera að daga upp á stjórnendur stofnunarinnar.

Ekki er síður mikilvægt að stofnunin skuldbindur sig til að kaupa meira efni af innlendum framleiðendum en nú er gert. Hingað til hefur eina breytanlega stærðin í fjárhagsáætlunum RÚV verið það fé sem fer til innlendrar dagskrárgerðar. Þarna er þó bundin ákveðin lágmarksupphæð og hún skal fara í innkaup frá aðilum utan stofnunarinnar. Þetta er sömuleiðis í samræmi við heilbrigða skynsemi, því að yfirleitt tekst sjálfstæðum fyrirtækjum að framleiða efnið með hagkvæmari hætti en stofnunin sjálf.

En þó að hækkunin verði veruleg í prósentum séð næstu fimm árin, má reyndar spyrja að því hvort upphæðirnar séu nægilega háar til að valda verulegum breytingum í dagskrárstefnunni. Hvaða byltingu er hægt að gera í þessum efnum fyrir 150 milljónir á næsta ári? Þegar Þorgerður Katrín tók við Menntamálaráðuneytinu, kallaði hún eftir breytingum á Ríkisútvarpinu. Ég fékk það á tilfinninguna að hún hefði horft á töluna sem fæst fyrir afnotagjöldin – árið 2004 var það 2.4 milljarðar – og spurt: Í hvað fer þetta?

Það virðist stundum vera meginhlutverk Ríkisútvarpsins að viðhalda sjálfu sér. Nú þarf það að horfast í augu við ofangreinda spurningu af alvöru. Í hvað fer þetta? Ótrúlegasta fólk stingur niður penna til að kvarta undan ástandinu. Jafnvel hófsamir jafnaðarmenn vilja leggja stofnunina niður, og það ætti að hringja viðvörunarbjöllum alveg upp á efstu hæð í Efstaleiti. Þegar þeir sem helst ættu að veita stofnuninni lið eru farnir að tala um að hafa í staðinn sjónvarpssjóð sem allar stöðvar gætu sótt í til að framleiða gott innlent efni, þá ætti stofnunin – sem eðli málsins samkvæmt er helst umhugað um eigin velferð – að fara að skoða sinn gang.

Enn eitt fannst mér sérstaklega athyglisvert í þjónustusamningnum. “Ríkisútvarpið skal hafa frumkvæði að því að miðla íslenskri menningu, listum og menningararfi. Félagið skal leitast við að virkja aðra til samstarfs með það að markmiði að efla slíka miðlun.”

Það er gott að þetta með frumkvæðið skuli vera nefnt, vegna þess að okkur hefur fundist talsvert á það vanta upp á síðkastið. Það er mikil gróska í íslensku leikhúsi, það er líka mikil gróska í kvikmyndagerðinni, en það sama verður ekki sagt um íslenskt sjónvarp. Ríkisútvarpinu hefur staðið til boða að vera þátttakandi í þessari grósku, en áhugann til þess hefur vantað hjá forráðamönnum þess. Þeim finnst mikilvægara að sinna öðrum málum – og gera margt vel, á því er enginn vafi. Fréttir eru vel unnar og kastljósi varpað á fréttatengt efni dag hvern. Ennfremur gerist fátt í íþróttaheiminum sem fer framhjá Ríkisútvarpinu. Samt er langt frá því að Ríkisútvarpið sinni lögbundnu hlutverki sínu sem menningarstofnun.

Þessi stofnun fær tæpan tvo og hálfan milljarð á ári hverju frá notendum sínum í eins konar forgjöf á keppinauta sína á markaði, en notar ekki þá peninga til að hafa lögbundið menningarlegt forskot á þessa sömu keppinauta.

Sú var tíð að Ríkisútvarpið var eitt stærsta leikhús landsins. Sú tíð er liðin. Samt halda íslenskir rithöfundar áfram að skrifa fyrir sjónvarp, framleiðendur halda áfram að leggja handritin fyrir dagskrárstjóra og leikstjórar halda áfram að lýsa fjálglega fyrirætlunum sínum með viðkomandi verkefni. En þó er eins og enginn sé að hlusta. Ég veit um fimm sjónvarpsseríur sem liggja í handriti hjá Sjónvarpinu – og þær eru vafalaust fleiri. Þá eru ótalin styttri verk. Þetta getur ekki allt verið svo vont að ekki sé ástæða til að framleiða eitthvað af því.

Sá sem hér talar vill sjá Ríkisútvarpið blómstra. Þess vegna tekur hann þátt í þessari umræðu. Hann vill vel. Því sá er vinur er til vamms segir.