BÍL hélt almennan fund í Norræna húsinu um íslenskt sjónvarp. Tilefnið var 40 ára afmæli íslenskra sjónvarpsútsendinga. Í auglýsingu sem birt var í Fréttablaðinu gat að líta yfirlýsingu sem stjórn BÍL hafði samþykkt á stjórnarfundi.
Eflum íslenskt sjónvarp!
Varla blandast neinum hugur um að sjónvarpið er áhrifamesti miðill okkar tíma. Það sem er, er í sjónvarpinu, það sem er ekki í sjónvarpinu á erfitt uppdráttar.
Áður skipuðu aðrir miðlar þennan sess, bækur með prentverkinu, útvarp með útvarpstækninni, filmur með hreyfimyndatækninni og nú um hálfrar aldar skeið sá miðill sem sameinar þetta þrennt: útvarp, kvikmynd og texta – sjónvarpið.
Þegar þetta er haft í huga blasir við hve óheyrilegt það er að Íslendingar skuli eftir 40 ára sjónvarpsrekstur ekki enn hafa náð á sannfærandi hátt að miðla þjóðlífi sínu og menningu í sjónvarpi. Eða geta menn ímyndað sér ástandið ef íslenskir höfundar hefðu ekki treyst sér til að fjalla um íslensk efni, nema að takmörkuðu leyti? Og útvarpið hefði ekki talið sig hafa bolmagn til að sinna íslenskum málum, nema í framhjáhlaupi? Hætt er við að þjóðin hefði fyrir löngu flosnað upp frá sjálfri sér og vafamál að hér byggi einusinni þjóð.
Um leið og Bandalag íslenskra listamanna fagnar framkomnum samstarfssamningi um að auka hlut íslensks efnis í sjónvarpi, leggur það áherslu á að menn hætti að líta á sjónvarpið sem léttvægan afþreyingarmiðil og veiti til þess fjármagni sem dugi til dagskrárgerðar sem geri skil draumum okkar jafnt sem daglegu lífi. Þetta er þeim mun brýnna sem sjónvarp er einmitt sá miðill sem beinast skírskotar til barna og unglinga og því ekki að litlu leyti ábyrgt fyrir andlegu byggingarefni sem þeim er lagt til. Og varðar að sjálfsögðu heill landsmanna allra.
Fundur í Norræna húsinu laugardaginn 30. september kl. 14:00
Vitundarvakning um innlenda dagskrá í sjónvarpi
Ágúst Guðmundsson, forseti BÍL, setur fundinn
Kristín Jóhannesdóttir: Áratugum síðar.
Sigurjón Kjartansson: Ég horfi aldrei á sjónvarp.
Ómar og Óskar Guðjónssynir leika nokkur kynningarstef úr bandarískum sjónvarpsþáttum.
Sigurbjörg Þrastardóttir: Fjörtíu tommu plasma
Ólafur Haukur Símonarson: Seríumorð
Kona deyr við skjáinn. Þorsteinn Guðmundsson les úr Roklandi eftir Hallgrím Helgason
Kristín Helga Gunnarsdóttir: Barnasjónvarp í skúffum
Táknmynd nútímans í íslensku sjónvarpi? Auglýsingastef nokkurra íslenska stórfyrirtækja í flutningi Jóns Jóseps Snæbjörnssonar og Jakobs Frímanns Magnússonar
Dagur Kári Pétursson: Staða Sjónvarpsins.
Páll Magnússon: Sjónvarpið og samstarfssamningurinn
Fundarstjóri: Margrét Bóasdóttir, ritari BÍL