Minisblað fyrir fund fulltrúa stjórnar BÍL með Jóni Gunnarssyni samgöngu- og sveitastjórnarráðherra 24. maí 2017

BÍL fagnar áherslu ríkisstjórnarinnar á uppbyggingu innviða samfélagsins m.a. í þágu kraftmikils atvinnulífs um land allt, en vekur jafnframt athygli á því að óljóst er hvort listirnar séu taldar með í menginu „skapandi greinar“.

Málefni lista og menningar heyra undir 4 ráðuneyti auk fjármálaráðuneytis. Undir sveitarstjórnarráðherra heyrir fjármögnun verkefna á vettvangi lista og menningar utan höfuðborgarinnar, uppbygging starfa í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og sóknaráætlanir landshlutanna. Minnt er á að menningarsamningarnir sem stofnað var til í upphafi sóknaráætlana hafa nú verið lagðir inn í uppbyggingasamninga og vísbendingar eru um að fjármunirnir sem úthlutað er til list- og menningartengdra verkefna séu í raun ferðaþjónustuverkefni.

Tilvitnun í skýrslu stýrihóps stjórnarráðsins, nóv. 2016:
Það sem vekur helst athygli í töflu 8 er fjöldi verkefna, bæði umsókna og styrkja, sem flokkast sem „menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi“. Undir þann atvinnugreinaflokk falla meðal annars skapandi listir og afþreying, starfsemi safna og önnur menningarstarfsemi. Ekki liggur fyrir fullnægjandi sundurliðun á verkefnunum fyrir árið 2015, en ætla má að mörg verkefni tengd ferðaþjónustu séu í þessum flokki.

BÍL á aðild að Austurbrú, sameinaðri stoðstofnun á vettvangi sveitarstjórnarmála á Austurlandi. Það samstarf hefur reynst farsælt og stendur hugur listamanna til að eiga svipaða aðild að uppbyggingarstarfi í öðrum landshlutum. Á döfinni er málþing um uppbyggingu starfa í skapandi greinum sem haldið verður í samstarfi við leiklistarhátíðina ACT ALONE á Suðureyri við Súgandafjörð 11. ágúst nk. Ráðherrann og embættismenn ráðuneytisins eru velkomnir.

Gera þarf átak í skráningu tölfræði lista og menningar um land allt. Í því sambandi þurfa stjórnvöld að beita sér fyrir því að sveitarfélögin og landshlutasamtökin samræmi skráningu sína. Einnig að Hagstofa Íslands fái skilgreint hlutverk við samantekt tölfræði skapandi greina og að tryggð sé úrvinnsla talnaefnis t.d. með því að fela rannsóknarsetri skapandi greina við hagfræðideild Háskóla Íslands slíkt verkefni.

Menningarstefnan sem Alþingi samþykkti 2013 er góð og gild, en nauðsynlegt er að vinna aðgerðaáætlun til að innleiða alla þá uppbyggingu sem hún tilgreinir. BÍL hefur ýmislegt fram að færa í þeim efnum, t.d. reynsluna af stefnumótunarvinnu hjá menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkur, og vill gjarnan taka þátt í slíkri vinnu með stjórnvöldum.