STJÓRNAR-, SAMBANDSRÁÐS- OG RÁÐSTEFNUR SÍM
Stjórn SÍM frá síðasta aðalfundi 14. apríl 2016:
Jóna Hlíf Halldórsdóttir formaður, Eirún Sigurðardóttir varaformaður, Erla Þórarinsdóttir ritari, Steingrímur Eyfjörð og Sindri Leifsson meðstjórnendur, Helga Óskarsdóttir og Klængur Gunnarsson varamenn. Stjórnarfundir voru 10 talsins, þar með taldir tveir sambandsráðsfundir. Jafnframt voru haldnar tvær ráðstefnur og staðið fyrir opnu húsi vegna 10 ára afmælis Listamannahússins á Seljavegi 32.

Á þessum aðalfundi lýkur kjörtímabili Erlu Þórarinsdóttur, Sindra Leifssonar og Helgu Óskarsdóttur og er þeim þakkað fyrir vel unnin störf í þágu SÍM.

Þrír aðilar buðu sig fram til stjórnarsetu fyrir árið 2017 – 2019. Það eru Anna Eyjólfsdóttir, Starkaður Sigurðarson og Erla Þórarinsdóttir í sæti varamanns. Þar sem ekki bárust fleiri framboð, telst stjórnin sjálfkjörin og bjóðum við þau velkomin til starfa.

Meginverkefni stjórnar SÍM er að vera málsvari myndlistarmanna, vinna að bættum kjörum listamanna og efla þannig myndlist sem faggrein, auk þess að sinna öðrum hagsmunamálum, þ.m.t. rekstri vinnustofa. Á yfirstandandi starfsári hefur stjórn SÍM lagt áherslu á ráðstefnu í tengslum við herferðina “VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM”. Tilgangur ráðstefnunnar og herferðarinnar er að efla starfsvettvang myndlistarinnar og bæta kjör og stöðu myndlistarmanna.

Félagsmenn SÍM eru nú 797 og hefur þeim fjölgað um 22 frá síðasta aðalfundi.

Á starfsárinu 2016-2017 hefur stjórn SÍM unnið að eftirfarandi verkefnum:

VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM
Herferðin “VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM” var formlega sett af stað 20. nóvember 2015 í Norræna húsinu. Tilgangur hennar er að efla starfsvettvang myndlistarinnar og bæta kjör og stöðu myndlistarmanna. Þungamiðja herferðarinnar er samningur um þátttöku og framlag listamanna til sýningarhalds.

KYNNING Á FRAMLAGSSAMNINGNUM
Formaður SÍM hélt á árinu kynningar fyrir þau sveitarfélög sem reka listasöfn, þar sem m.a. var farið yfir drögin að Framlagssamningnum, fyrirmyndir og reiknireglur. Það gekk nokkuð treglega að fá svör frá sveitarfélögunum framan af, en eftir að fundir með bæjarstjórum Hafnarfjarðar og Kópavogsbæjar komust á dagskrá, komst hreyfing á málin. Í kjölfar fundar með bæjarstjóra Hafnarfjarðar fékk formaður SÍM formlegt boð um að kynna drög að Framlagssamningnum fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar, þann 11. ágúst 2016. Sú kynning gekk vonum framar og átti sinn þátt í því að Hafnarborg fékk auka milljón í fjárveitingu til að greiða myndlistarmönnum. Eftir fundinn fékk SÍM sent álit frá bæjarráði Hafnarfjarðar um að ráðið teldi að næstu skref varðandi greiðslur safna til myndlistarma-nna beri að stíga á sameiginlegum vettvangi sveitarfélaganna og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar sendi erindi þess efnis í ágúst 2016 til Sambands íslenskra sveitarfélaga, en því erindi hefur enn ekki verið svarað.

Fundur með bæjarstjóra Kópavogs gekk síður vel en í kjölfar hans fékk formaður SÍM tækifæri til að kynna drög að Framlagssamningnum fyrir Lista- og menningarráði Kópa-

vogs, þann 12. ágúst 2016. Eftir þá kynningu óskaði ráðið eftir því að listrænn stjórnandi Gerðarsafns, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, skilaði greinargerð varðandi hennar sýn á tillögur SÍM. Formaður SÍM hefur óskað eftir að fá afrit af greinargerðinni en ekki fengið.

Þann 8. september 2016 var haldin kynning á drögum að Framlagssamningi fyrir Akur-eyrarstofu. Kynningin gekk vonum framar og voru allir sammála um að greiða þurfi myndlistarmönnum strax og leist þeim mjög vel á Framlagssamninginn og töldu hann mjög sanngjarnan. Því miður fékk Listasafnið á Akureyri þó ekki auka fjárveitingu til að byrja að greiða eftir samningnum fyrir sýningardagskrána 2017. Mögulega hefði þurft að fylgja

málinu betur eftir með formlegri beiðni frá Listasafninu á Akureyri um auka fjárveitingu til þess að byrja að greiða myndlistarmönnum.

Formaður SÍM hefur einnig boðið sveitarfélögunum sem reka Listasafn Árnesinga og bæjarstjórn Reykjanesbæjar ásamt Valgerði Guðmundsdóttur, menningarfulltrúa Reykjanesbæjar, upp á kynningu á drögum að Framlagssamningnum en ekki fengið svör við þeim boðum.

REIKNIVÉL
Stjórn SÍM réð Þránd Arnþórsson, kerfisfræðing, til að setja upp reiknivél á heimasíðu SÍM til að reikna út þóknun til listamanna ef greitt væri eftir Framlagssamningnum. Er það von stjórnar SÍM að hagsmunaaðilar og myndlistarmenn nýti sér reiknivélina í undirbúningi fyrir sýningarhald, þrátt fyrir að Framlagssamningurinn hafi formlega ekki tekið gildi.

UNDIRSKRIFTARSÖFNUN
Í tengslum við Dag myndlistar setti SÍM af stað undirskriftasöfnun í október 2016, þar sem SÍM skoraði á tilvonandi ríkisstjórn og Samband íslenskra sveitarfélaga að veita aukið fjármagn til listasafna á Íslandi sem fjármögnuð væru af opinberum aðilum. Aukið fjármagn er undirstaða þess að söfnin sjái sér fært að greiða þóknun til listamanna skv. Framlagssamningnum. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir formanns SÍM til mennta- og menningarmálaráðuneytisins um fund, bæði í gegnum tölvupóst og síma, hefur enn ekki tekist að koma á fundi til að afhenda listann.

FUNDIR MEÐ HELSTU SAFNSTJÓRUM LANDSINS
Formaður SÍM boðaði til fundar með þeim safnstjórum sem unnu að Framlagsssamningum með SÍM, þann 31. ágúst 2016, til þess að ræða næstu skref og óska eftir samvinnu. Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur og Ágústa Kristófersdóttir, safnstjóri Hafnarborgar, hafa látið í ljós óánægju með Framlagssamninginn. Niðurstaða fundarins var að safnstjórarnir myndu funda og koma síðan skriflegum athugasemdum við Framlagssamninginn til stjórnar SÍM. Í kjölfar þess og eftir að tekið hefði verið tillit til þeirra athugasemda yrðu næst skref að söfnin myndu óska eftir auka fjárveitingu til þess að greiða eftir Framlagssamningnum fyrir sýningardagskrá 2017. Formlegar athugasemdir hafa þó enn ekki borist frá Safnstjórunum. Eina safnið sem á síðasta ári óskaði eftir aukafjárveitingu vegna greiðslu þóknana samkvæmt Framlagsssamningnum var Nýlistasafnið.

Þann 30. janúar 2017 barst formanni SÍM fundarboð frá Hlyni Hallssyni, safnstjóra Listasafnsins á Akureyri og Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur, safnstjóra Listasafns Reykjavíkur, til að ræða næstu skref og tillögur um breytingar á Framlagssamningnum. Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM, sat fundinn ásamt Eirúnu Sigurðardóttur, varaformanni SÍM og Erlu Þórarinsdóttur. Ásdísi Spanó var fundarritari. Formaður SÍM lýsti yfir vonbrigðum sínum með að ekkert listasafn fyrir utan Nýlistasafnið hefði óskað eftir aukafjárveitingu 2017 til þess að greiða eftir Framlagssamningnum. Niðurstaða fundarins var að safnstjórarnir fundi saman og sendi frá sér breytingartillögur vegna Framlagssamningsins fyrir 15. mars 2017. Stjórn SÍM hefur ekki fengið svarbréf frá safnstjórunum, þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um.

MENNINGAR- OG FERÐAMÁLASVIÐ REYKJAVÍKURBORGAR – FRAMLAGSSAMNINGURINN
Stjórn SÍM barst bréf frá Borgarráði Reykjavíkurborgar þann 12. febrúar 2016 þar sem óskað er eftir fundi með Menningar- og ferðamálasviði og SÍM til að finna sanngjarna þóknun til listamanna. Formaður SÍM átti í kjölfarið fund með Svanhildi Konráðsdóttur, sviðsstjóra Menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar og Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur, safnstjóra Listasafns Reykjavíkur, þann 8. desember 2016. Niðurstaða fundarins var að Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, sendi SÍM formlegar athugasemdir við drögin að Framlagssamningnum og Svanhildur Konráðsdóttir hugðist í kjölfar þess óska eftir fundi með ráðherra. Svanhildur hefur jafnframt bent á að til að ná árangri í málinu þurfi að liggja fyrir samningur sem allir eru sáttir við. Þann 11. janúar 2017 bárust formlegar athugasemdir frá Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur. Hennar athugasemdir fólust í eftirfarandi atriðum:

  • Hún telur að grunnur útreikninga á þóknun skuli vera umfang sýninga en ekki tímalengd þeirra.
  • Hún bendir á að það gætu myndast miklar sveiflur á milli ára, þar sem þóknunin fer eftir sýningardagskrá hvers árs. Vegna þess þurfi söfnin að hafa aðgengi að einhverskonar sjóði eða annarri fjármögnun.
  • Hún telur að lykilatriðið til að ná árangri sé að mennta- og menningarmálaráðuneytið og Listasafn Íslands, sem höfuðsafn myndlistar í landinu, komi með markvissum hætti að úrlausn viðfangsefnisins og að skoðað verði til hlítar hvort ráðuneytið hyggist standa að stofnun miðlægs þóknunarsjóðs sem söfnin geti sótt í eftir þörfum og komið til móts við sjálfsagða kröfu listmanna um sanngjarna þóknun.
  • Hún tekur fram að til þess að finna raunhæfan grunn þóknunar sé mikilvægt að umræðu um innihald samningsins verði fundinn skýr farvegur og að ráðuneyti menningarmála setji af stað formlegt samtal sem hafi það markmið að finna leið, sem bæði er ásættanleg fyrir listamenn og jafnframt þannig að þeir sem ábyrgir eru fyrir rekstri safnanna geti skuldbundið söfnin til framtíðar. Þannig mætti sjá fyrir sér að eigendur safnanna ábyrgist að greiða vinnulaun fyrir uppsetningartímann en að þóknunarsjóður fjármagni þann þátt.

Stjórn SÍM tekur undir þau atriði sem snúa að stofnun miðlægs þóknunarsjóðs til að draga úr sveiflum á útreikningi þóknana á milli ára. Stjórn SÍM telur einnig heppilegt að ráðuneyti menningarmála leiði samtalið milli myndlistarmanna annars vegar og ríkis og sveitarfélaga hins vegar. Stjórn SÍM hefur hins vegar bent á að Framlagssamningurinn takmarkar ekki að greitt sé fyrir sýningarhald eftir umfangi sýninga. Framlagssamningurinn felur í sér útreikning á lágmarks þóknunum vegna vinnu við sýningarhald. Þar sem umfang sýninga er mismikið er ekki óeðlilegt að tekið sé tillit til þess í ofanálag við útreikning á þóknunum vegna sýninga.

Stjórn SÍM hefur ekki svarað formlega ofangreindum athugasemdum, m.a. vegna fyrrnefnds fundar með safnstjórum þann 30. janúar 2017 og umræðna um breytingartillögur safnstjóra sem liggja áttu fyrir 15. mars 2017. Ofangreindum athugasemdum verður því svarað í maí næstkomandi.

ÞÓKNUNARSJÓÐUR
BÍL, Bandalag íslenskra listamanna, óskaði eftir því við fjárlaganefnd Alþingis í umsögn sinni við fjárlagafrumvarp vegna ársins 2017, að í samræmi við átakið “Við borgum myndlistarmönnum” verði framlagið til þeirra safna og sýningarýma sem reka söfn, aukið um 100 milljónir kr. Önnur leið væri að stofna sérstakan þóknunarsjóð myndlistarmanna með sjálfstæðri úthlutunarnefnd. Til viðbótar við þetta er nauðsynlegt að framlag til Myndlistarsjóðs verði hækkað í 100 milljónir króna.

SKREF Í RÉTTA ÁTT
Skaftfell, Myndlistarmiðstöð Austurlands, hefur sent boðsbréf til nokkurra félagsmanna SÍM vegna sýningarhalds og er í þeim sérstaklega tekið fram að borgað verði eftir Framlagssamningnum. Einnig hefur Listasafn ASÍ kallað eftir tillögum frá myndlistarmönnum sem vilja koma til greina við val á verkum til innkaupa fyrir safnið og vegna sýningarhalds. Listasafn ASÍ tekur fram í auglýsingum vegna þessa að greiðslur verða byggðar á Framlagssamningi SÍM.

Út frá upplýsingum frá Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Listasafninu á Akureyri, Listasafni Árnesinga, Listasafni Reykjanesbæjar, Hafnarborg og Gerðarsafni, er jafnframt ljóst að kostnaður vegna launa til listamanna eykst árið 2017, miðað við síðasta ár. Óskað var eftir upplýsingum frá söfnunum um hver kostnaður yrði ef farið væri eftir Framlagssamningnum, miðað við sýningardagskrá 2017, auk upplýsinga um hvað áætlað er að greiða listamönnum sem sýna á árinu. Fram kom að áætlað er að greiða samtals kr. 12.038.400. á árinu, sem yrði rúmlega 25% hækkun milli ára. Slíkar breytingar eru jákvæðar og skref í rétta átt. Ef launakostnaður safnanna hækkar áfram með sama hætti milli ára, yrðu greiddar þóknanir frá söfnunum í samræmi við Framlagssamninginn eftir fimm ár. Við myndlistarmenn verðum að trúa að hægt sé að reka smiðshöggið og ná þessum breytingum í gegn.

UMFJÖLLUN VEGNA HERFERÐARINNAR „VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM“
Formaður SÍM fór í allmörg viðtöl á árinu 2016 vegna kjarabaráttu myndlistarmanna. Fréttablaðið birti heilsíðuviðtal 15. október 2016 um stöðu myndlistarmanna og herferðina „Við borgum myndlistarmönnum“. Víðsjá var með heilan þátt tileinkaðan kjaramálum myndlistarmanna. Einnig birtust viðtöl í Hús & Hillbilly og tímaritinu BILDPUNKT sem IG Bildende Kunst í Vín gefur út. Eftir að viðtalið birtist í Hús & Hillbilly hafði Svandís Svavarsdóttir, alþingismaður, samband við formann SÍM, sem síðar leiddi til þess að Svandís sendi fyrirspurn á Alþingi til Kristjáns Þórs Júlíussonar, mennta- og menningarmálaráðherra varðandi herferðina „Við borgum myndlistarmönnum“

RÁÐSTEFNAN „SVONA VERÐUR FRAMTÍÐIN, HVERNIG KOMUMST VIÐ ÞANGAÐ?“
Stjórn SÍM hóf undirbúning ráðstefnunnar „Svona verður framtíðin, hvernig komumst við þangað?“ haustið 2016. Ráðstefnan fór fram 21. apríl sl. í Rúgbrauðsgerðinni. Á ráðstefnunni var farið yfir stöðu myndlistarmanna á Íslandi, mannréttindi í tengslum við kjarabaráttu myndlistarmanna og litið var til nágrannaríkjanna til samanburðar við stöðuna hér á landi. Fundarstjóri var Vilhelm Anton Jónsson og fyrir utan formann SÍM héldu Katrín Oddsdóttir, mannréttindalögfræðingur, Hilde Tordal, formaður NBK og Hege Imerslun, framkvæmdastjóri hjá Bildende Kunstneres, erindi. Styrmir Örn Guðmundsson og Ásta Fanney Sigurðardóttir, myndlistarmenn, héldu gjörning. Ráðstefnan endaði á námskeiði í grunnatriðum í samningatækni, leiðbeinandi var Ingvar Sverrisson, en hann hefur rekið sjálfstætt ráðgjafarfyrirtæki um langt skeið og aðstoðað fjölda fyrirtækja og félagasamtaka í samningaviðræðum. Auður Aðalsteinsdóttir mun rita „fundargerð“ eða þanka sína um umræðurnar og mun SÍM deila þeim til félagsmanna. Ráðstefnan var vel sótt og er það von stjórnar SÍM að ráðstefnan hafi aukið þekkingu félagsmanna á kjarabaráttu okkar og aukið sjálfstraust þeirra til samningagerða.

FUNDUR FÓLKSINS
Annað árið í röð var Fundur fólksins haldinn í Vatnsmýrinni. Sú nýlunda var þetta árið að samtökin Almannaheill – samtök þriðja geirans önnuðust framkvæmd fundarins í samstarfi við Norræna húsið, með stuðningi velferðarráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Tilgangur fundarins var sem áður að skapa vandaðan vettvang þar sem boðið er til samtals milli almennings, stjórnmálamanna og frjálsra félagasamtaka, með það að markmiði að auka traust og skilning á milli ólíkra afla sem bera uppi og móta samfélagið.

Þegar undirbúningur hófst snemma vors vissu menn ekki um væntanlegar vendingar í pólitíkinni, en þegar ljóst var að kosningabarátta flokkanna vegna Alþingiskosninga væri að hefjast um líkt leyti, má segja að upplegg fundarins hafi farið að snúast um þær. Þá áttuðu frambjóðendur sig á mikilvægi þess að þeir tækju virkan þátt í fundarstörfum í Vatnsmýrinni þessa helgi 2. og 3. september og er mögulegt að það hafi átt sinn þátt í því hversu almenn þátttaka þeirra var í málstofum fundarins.

SÍM tók virkan þátt í samstarfi við BÍL vegna fundarins, en BÍL skipulagði fjórar málstofur, auk þess að taka þátt í tveimur málstofum með höfundarréttarsamtökum. Málstofur BÍL voru þessar; Listamenn eru líka „aðilar vinnumarkaðarins“, Hvar er menningarstefna stjórnmálaflokkana?, Sýnileiki lista í fjölmiðlum og Samspil lista og ferðaþjónustu. Og í samvinnu við höfundarréttarsamtök voru málstofurnar Kassettugjaldið – Framtíð höfundaréttar og Lifað af listinni – Samtal um höfundarrétt. Málstofurnar voru allar vel sóttar og fjörugar umræður spruttu um málefnin.

RÁÐSTEFNAN „HVERNIG METUM VIÐ HIÐ ÓMETANLEGA? TRÚ OG LÍFSSKOÐANIR“
Guðbrandsstofnun, í samstarfi við Samband íslenskra myndlistarmanna, Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, Siðmennt, Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga og Sálfræðingafélag, standa fyrir ráðstefnu um gildi trúar og lífsskoðana. Ráðstefnan verður haldin á Hólum dagana 4. til 6. maí 2017, en undirbúningur hefur staðið yfir frá hausti 2016. Formaður SÍM fór á fjóra undirbúningsfundi ásamt því að funda með listamönnunum sem taka þátt í ráðstefnunni fyrir hönd SÍM. Stjórn SÍM bað Ósk Vilhjálmsdóttur, Unndór Egil Jónsson, Eirúnu Sigurðardóttur og Karlottu Blöndal að taka þátt í ráðstefnunni. SÍM greiðir þóknun fyrir flutt erindi en ferðakostnaður og uppihald fyrir þátttakendur eru greidd af skipuleggjendum.

STARA / VEFRIT & ÚTGÁFA SÍM
STARA er rit Sambands íslenskra myndlistarmanna og leitast við að efla umræðu og þekkingu á myndlist ásamt því að segja frá starfsemi SÍM. STARA, sem er birt bæði á íslensku og ensku á heimasíðu SÍM, höfðar jafnt til fagfólks sem og áhugafólks um myndlist. Útgáfur STARA voru tvær á árinu, 6. tbl. kom út 22. október 2016 á opnu húsi á Seljaveginum og 7. tbl. kom út 29. apríl 2017 á aðalfundi SÍM. Íslenski hlutinn var prentaður út í 500 eintökum og dreift frítt. Hægt er að nálgast STARA á heimasíðu SÍM og timarit.is.

Ritnefnd STARA skipa Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM, Elísabet Brynhildardóttir, hönnuður og myndlistarmaður, Jón B. K. Ransu, myndlistarmaður, Auður Aðalsteinsdóttir, doktor í bókmenntafræði, og Margrét Elísabet Ólafsdóttir, doktor í list- og fagurfræði og lektor við Háskólann á Akureyri. STARA er að hluta til fjármagnað af auglýsingatekjum og er það von stjórnar SÍM að í framtíðinni muni auglýsingatekjur aukast og bera hluta af kostnað blaðsins.

DAGUR MYNDLISTAR 2016
Dagur myndlistar var árið 2016 ívið lengri en verið hefur, enda náði dagskrá hans yfir heilan mánuð. Tekin var sú ákvörðun í upphafi árs að teygja úr deginum og Dagur myndlistar varð því árið 2016 að verkefninu Dagur myndlistar – allan október. Berglind Helgadóttir, verkefnastjóri, var með sambærilegar áherslur og fyrir árið 2016 en þó í pólitískari kantinum, enda voru kosningar í lok október. Helstu áherslur hennar voru þó að efla vitund almennings á fagstarfi myndlistarmannsins og auka aðgengi að upplýsingum um myndlist til að bæta þekkingu á faginu. Með Degi myndlistar er leitast við að efla myndlistarhugsun og stuðla að dreifingu og aðgengi myndlistar svo almenningur geti bæði skilið og nýtt sér hana til að auðga líf sitt með ýmsum hætti. Skapandi og gagnrýnin hugsun eru hornsteinar listar og umfram allt jákvæðir eiginleikar í samfélagi manna.

Í tilefni daganna opnuðu listamenn vinnustofur sínar, skólakynningar voru haldnar í skólum víðsvegar um landið, greinar sem varða myndlistarvettvanginn skrifaðar, listamenn greindu frá sínum hversdegi á samfélagsmiðlinum Snapchat. Borgarbókasafnið vakti athygli á Artóteki og myndlistarbókum í safnkosti sínum.

Hápunktur Dags myndlistar var 10 ára afmæli listamannahússins á Seljavegi, sem var haldinn hátíðlegur þann 22. október. Veitingarnar voru töfraðar fram af Brynhildi Þorgeirsdóttur og Steinunn Eldflaug þeytti skífum. Heilmargar vinnustofur voru opnar á öllum hæðum hússins og fjölmargir lögðu leið sína í húsið til að skoða og njóta. Stjórn SÍM þakkar listamönnunum fyrir þátttökuna og fyrir að gera daginn ógleymanlegan.

Í heildina tókst vel til með Dag myndlistar árið 2016. Verkefnið var stækkað með breytingum á tímalengd þess og þannig fengu hefðbundnir dagskrárliðir meira andrými. Tilraun þessi staðfesti að með því að leggja heilan mánuð undir Dag myndlistar, í stað eins dags, er hægt að ná meiri árangri í að vekja athygli á starfi myndlistarmannsins og myndlist sem faggrein.

Stjórn SÍM þakkar öllum þeim sem tóku þátt í Dögum myndlistar og Berglindi Helgadóttur verkefnastjóra fyrir vel unnin störf seinustu tvö ár en hennar tímabili sem verkefnisstjóra er lokið.

ARTÓTEK
Artótekið, sem er samstarfsverkefni SÍM og Borgarbókasafnsins, var stofnað 2004. Nýlega tók SÍM yfir rekstur og bókhald Artóteksins en Borgarbókasafnið sér um, eftir sem áður, hýsingu, kynningu og sýningarhald.

Í Artótekinu er til leigu og sölu myndlist eftir félagsmenn SÍM. Markmiðið með Artótekinu er að kynna notendum Borgarbókasafns og öðrum íslenska samtímalist og gefa þeim kost á að leigja eða eignast listaverk á einfaldan hátt.

Borgarbókasafnið og SÍM vinna nú að því í sameiningu að efla starfsemi Artóteksins, fjölga lánþegum/kaupendum með markvissri kynningu og tryggja gott úrval og eðlilega endurnýjun verka. Ný vefsíða Artóteksins, www.artotek.is, var sett í loftið á síðasta ári og eru félagsmenn hvattir til að vera virkir á facebooksíðu Artóteksins og nota myllumerkin #artotekid og #borgarbokasafnid.

UMM / ARKÍV.IS
SÍM hefur umsjón með og rekur umm.is – Upplýsingavef um myndlist og myndhöfunda á Íslandi – en vefurinn er byggður á gögnum frá Upplýsingamiðstöð myndlistar sem starfrækt var um 10 ára skeið með stuðningi íslenska ríkisins. Gagnagrunnurinn er gríðarlega stór og margþættur og hefur reynst ómissandi fyrir ýmsar menningarstofnanir, myndlistarmenn, fræðimenn, kennara og erlenda sýningarstjóra.

UMM hefur ekki verið uppfærð í mörg ár og var kefið (Dísill) úrelt. Stjórn SÍM reyndi að fá styrki frá ríkinu 2015 og samfélagssjóði Landsbankans 2016 en því miður var umræddum umsóknum báðum svarað neitandi. Stjórn SÍM hefur tekið þá ákvörðun að ráðast í það stóra verkefni að uppfæra gagnagrunninn árið 2017 og mun hann síðan fá nýtt nafn „ARKÍV“. Stefnt er því að kynna nýju síðuna í október 2017 eða á Degi myndlistar, ásamt útgáfu á kynningarbæklingi. Stjórn SÍM hefur ráðið Þránd Arnþórsson, kerfisfræðing, til þess að uppfæra gagnagrunninn og Elísabetu Brynhildardóttur, myndlistarmann, til að sjá um útlit síðunnar og hönnun á kynningarbæklingi. Einnig hefur SÍM fengið starfsmann í sex mánuði í gegnum átak Vinnumálastofnunar til að vinna í gagnagrunninum.

DÓMSMÁL VEGNA LAUNAKRAFNA FYRRVERANDI FORMANNS SÍM
Þann 24. júlí 2014 fékk SÍM bréf frá VR þar sem þess er krafist að SÍM borgi fráfarandi formanni félagsins, Hrafnhildi Sigurðardóttur, full laun fyrir aprílmánuð 2014 að frádregnum launum sem hún hafði þegar fengið greidd vegna sama mánaðar, auk fullra launa vegna maí-, júní- og júlí vegna uppsagnarfrests, auk orlofs og desemberuppbóta skv. kjarasamningi VR. Til frádráttar komi greiðslur sem þegar höfðu verið greiddar vegna launa, orlofs og uppbóta. VR gerði þá kröfu að SÍM greiði Hrafnhildi kr. 1.674.481 fyrir utan dráttarvexti og kostnað vegna málsins. Stjórn SÍM hélt félagsfund þann 22. ágúst 2014 vegna kröfu fyrrverandi formanns. Á fundinum var stjórn falið að ráða lögmann til þess að svara kröfu VR. Stjórn SÍM réð Ástráð Haraldsson, hæstaréttarlögmann hjá Mandat lögmannsstofu og sérfræðing í vinnurétti, starfsmannarétti og félagarétti. VR stefndi SÍM fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur fyrir hönd Hrafnhildar og var málið þingfest 30.júní 2016. Aðalmeðferð málsins var síðan rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 23. apríl 2017. Ástráður Haraldsson fékk Jónu Hlíf Halldórsdóttur, formann SÍM, Ingibjörgu Gunnlaugsdóttur, framkvæmdastjóra SÍM, Hlyn Hallsson og Áslaugu Thorlacius, fyrrverandi formenn SÍM, til að bera vitni í málinu. Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur mun liggja fyrir á næstu dögum og er það áhyggjuefni stjórnar SÍM að ef málið tapast þá mun það hafa verulegar afleiðingar fyrir fjárhag sambandsins, sem mögulega þarf að mæta með hækkun félagsgjalda og hækkun á leigu vinnustofa. Krafan gæti endað í 6 milljónum með dráttarvöxtum og málskostnaði.

AÐALFUNDUR IAA
Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM, og Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri SÍM, fóru á aðalfund IAA (Alþjóðasamtaka myndlistarmanna) sem var haldinn í Berlín dagana 4. til 6. nóvember 2016. Flest aðildarfélög IAA standa í ströngu vegna sömu hagsmunabaráttu og SÍM, að listamenn fái laun vegna vinnu við eigin sýningar og vakti barátta SIM verðskuldaða athygli fundargesta.

SKRIFSTOFA SÍM
Á skrifstofu SÍM starfa nú 5 starfsmenn í þremur stöðugildum. Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri, Hildur Ása Henrýsdóttir, skrifstofustjóri, Fríða Britt Bergsdóttir, bókari, Birta Rós Brynjólfsdóttir, umsjónarmaður gestavinnustofa og Friðrik Weisshappel, umsjónarmaður fasteigna.

VINNUSTOFUR SÍM
SÍM er með sex vinnustofuhús á leigu og framleigir til félagsmanna sinna, í þessum húsum eru samtals 153 vinnustofur og 2 verkstæði, annað er rekið af Textilfélaginu og hitt af Leirlistarfélaginu. Vinnustofuhús SÍM eru við Seljaveg 32, Nýlendugötu 14 og á Korpúlfsstöðum í Reykjavík, að Lyngási 7 í Garðabæ og Auðbrekku 1 og Auðbrekku 14 í Kópavogi. Í Auðbrekku 1 eru auk þess geymslur fyrir félagsmenn. Því miður missum við Nýlendugötu 14 í maí á næsta ári og okkur hefur ekki tekist að finna hentugt húsnæði fyrir vinnustofur í miðbænum.

Vinnustofurnar eru alltaf allar í útleigu og langur biðlisti ef eitthvað losnar. Félagsmenn geta farið á biðlista og ganga þá fyrir ef vinnustofa losnar.

SÍM SALURINN
SÍM salurinn, sem staðsettur er í höfuðstöðvum SÍM í Hafnarstræti 16, stendur félags-

mönnum til boða til sýningarhalds og annarra viðburða. Auglýst er eftir umsóknum um sýningar félagsmanna í Salnum einu sinni á ári og standa sýningarnar yfir í um þrjár vikur, en í lok hvers mánaðar eru samsýningar gestalistamanna SÍM.

Sýningarnar hafa verið vel sóttar og hægt er að fylgjast með því hvað er á dagskrá bæði á heimasíðu SÍM og Facebook-síðu félagsins.

Árið 2016 voru eftirtaldir félagsmenn með sýningu í SÍM Salnum:

Halla Birgisdóttir, Ragnheiður Maísól Sturludóttir, Sigrún Hlín Sigurðardóttir, Katrín

Eyjólfsdóttir, Una Björg Magnúsdóttir, Sölvi Dúnn Snæbjörnsson, Beate Körner, Inga Huld Tryggvadóttir, Baldur Geir Bragason, Hallgerður Hallgrímsdóttir, Helga Sif Guðmundsdóttir, Arnar Ómarsson, Kristín Rúnarsdóttir og Valgarður Gunnarsson.

Aðventusýningin Kanill, með verkum félagsmanna, var svo haldin í desember við góðar undirtektir.

GESTAVINNUSTOFUR SÍM í REYKJAVÍK
Alls dvöldu 144 erlendir listamenn í gestavinnustofum SÍM árið 2016. Á Seljaveginum eru 11 herbergi fyrir listamenn ásamt úrvali af vinnustofum, en bætt var við tveimur herbergjum ásamt sameiginlegri vinnustofu í júlí 2016. Á Korpúlfsstöðum eru 3 herbergi ásamt góðum vinnustofum. Listamenn geta dvalið frá einum mánuði upp í þrjá og hefur það færst í vöxt að listamenn dvelji lengur en í einn mánuð í Reykjavík. Í byrjun hvers mánaðar er hópurinn með listamannaspjall í SÍM salnum og eru allir velkomnir. Í lok hvers mánaðar býðst gestalistamönnunum að vera með samsýningu í SÍM salnum og standa þessar sýningar í tvo daga. Gestum á þessar sýningar fer fjölgandi ár frá ári enda hafa þær verið mjög fjölbreyttar og oft nýstárlegar.

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar leitaði eftir samstarfi við SÍM í lok síðasta árs við að bjóða erlendum sýningarstjórum að koma og dvelja í gestavinnustofu hér á landi í allt að tvær vikur. Stjórn SÍM tók því fagnandi og er áætlað að bjóða tveimur sýningarstjórum til landsins á þessu ári. KÍM sér um að koma viðkomandi til landsins og SÍM leggur til húsnæði. Sýningarstjórarnir fara í vinnustofuheimsóknir til listamanna og halda fyrirlestur í SÍM salnum þar sem þeir kynna sig og sín störf. Þýsk-ameríski sýningarstjórinn Annabelle von Girsewald var sú sem reið á vaðið í þessu samstarfsverkefni KÍM og SÍM og dvaldi hún á Íslandi í tvær vikur í janúar og fór á þeim tíma í vinnustofuheimsóknir til tuttugu listamanna og undirbjó verkefni sem hún mun vinna með hópi listamanna hér á landi og öðrum erlendis á næstu misserum. Er það von stjórnar SÍM að félagsmenn hafi átt gott samtal við Annabelle og að þetta opni fyrir þeim tækifæri að nýjum og spennandi verkefnum.

SÍM átti í vinnustofuskiptum við Vaanta í Finnlandi og fór Hildur Ýr Jónsdóttir á vegum SÍM til Finnlands í september 2016.

GESTAVINNUSTOFUR SÍM Í BERLÍN
SÍM hefur rekið gestaíbúð í Berlín fyrir félagsmenn sína frá árinu 2010. Gestaherbergin eru tvö, Askja og Hekla og þeim fylgir sameiginlegt eldhús og bað. Félagsmenn geta sótt um að dvelja í íbúðinni í einn mánuð í senn. Gestaíbúðin er staðsett í Friedrichshain sem tilheyrði áður gömlu Austur-Berlín. Í hverfinu býr fjöldi listamanna og hönnuða og það er iðandi af mannlífi, skemmtilegum hönnunarbúðum, kaffihúsum og veitingastöðum.

Stjórn SÍM ákvað að setja af stað tilraunaverkefni til tveggja ára og bjóða tveimur ungum félagsmönnum að dvelja frítt í gestavinnustofu SÍM í Berlín á hverju ári. Stjórn SÍM óskar Heiðdísi Hólm og Loga Leó Gunnarssyni til hamingju með mánaðar dvalarstyrk í gestavinnustofu SÍM í Berlín. Heiðdís og Logi munu segja frá dvöl sinni í STARA ásamt því að gefa lesendum innsýn í listsköpun sína.

Félagsmönnum BÍL gefst kostur á að sækja um dvöl í gestaíbúðinni þegar pláss leyfir. Tekið er á móti umsóknum í vinnustofurnar allt árið.

Starfsárið 2016 – 2017 var bæði viðburðaríkt og krefjandi. Þess má geta að formaður SÍM tók sæti í stjórn Listahátíðar til tveggja ára, kosin af fulltrúaráði Listahátíðar. Stjórn SÍM þakkar öllum nefndarmönnum sem hafa unnið gott starf fyrir SÍM á árinu og öllum þeim sem hafa komið að þeim mikilvægu verkefnum sem SÍM hefur unnið að.

Fyrir hönd stjórnar,
Jóna Hlíf Halldórsdóttir