Stjórn FÍLD skipa:
Guðmundur Helgason, formaður
Ásgerður Gunnarsdóttir, gjaldkeri
Elva Rut Guðlaugsdóttir, ritari
Ásgeir Helgi Magnússon, meðstjórnandi
Ásta Björnsdóttir, meðstjórnandi
Varamenn stjórnar: Helena Jónsdóttir og Irma Gunnarsdóttir

FÍLD á fulltrúa í eftirtöldum félögum og stofnunum:
Bandalag íslenskra listamanna, Guðmundur Helgason
Íslenski dansflokkurinn, Hany Hadaya
Launasjóður sviðslistamanna, Ingibjörg Björnsdóttir
Úthlutunarnefnd Leiklistarráð, Sveinbjörg Þórhallsdóttir (í gegnum LSÍ)
Leiklistarsamband Íslands, Guðmundur Helgason
Leikminjasafn Íslands, Ásgerður Gunnarsdóttir
Fulltrúaráð Listahátíðar í Reykjavík, Guðmundur Helgason
Grímunni – íslensku leiklistarverðlaununum, 2 fulltrúar leynilegir…

Félagsmenn voru í lok ársins 2011 samtals 108

Aðalfundur FÍLD var haldinn 30.janúar 2011 og þar kvöddu þrír stjórnarmenn eftir langt og óeigingjarnt starf í þágu félagsins. Núverandi stjórn þakkar þeim Irmu Gunnarsdóttur, Karen Maríu Jónsdóttur og Steinunni Ketilsdóttur kærlega fyrir þeirra störf í þágu félagsins. Ný í stjórn voru kosin; Guðmundur Helgason, formaður, Elva Rut Guðlaugsdóttir, ritari og Ásgeir Helgi Magnússon, meðstjórnandi. Auk þess voru kosnir tveir varamenn stjórnar samkvæmt ný samþykktum lagabreytingum. Þeir eru Helena Jónsdóttir og Irma Gunnarsdóttir og hefur stjórn getað leitað til þeirra ef aðrir stjórnarmenn hafa ekki komist á fundi á vettvangi félagsins eða þar sem FÍLD þarf að hafa sinn fulltrúa.

Stjórn hefur haldið 12 stjórnarfundi á þessu starfsári, að jafnaði einu sinni í mánuði. Auk þess hefur stjórn komið sér upp vinnusvæði á Facebook þar sem hún skiptist á hugmyndum og upplýsingum milli funda. Við látum ekki dvöl stjórnarmanna erlendis trufla okkur og höfum þá haft viðkomandi með okkur á fundi með hljóði og mynd í gegnum samskiptaforritið Skype á netinu.

Þá sækja stjórnarmenn, þó mest formaður, ýmsa aðra fundi í nafni félagsins eins og t.d. mánaðarlega fundi Bandalags íslenskra listamanna og reglulega fundi fulltrúaráðs Leiklistarsambands Íslands. Aðrir fundir eru sjaldnar. Þau eru mýmörg verkefnin sem berast inn á borð stjórnarinnar hverju sinni og hérna verður aðeins tæpt á því helsta sem stjórn hefur unnið að á þessu ári. Dansstefnan hefur reynst stjórn vel og mjög víða er minnst á hana í umræðum við ýmsa aðila og vitnað til hennar. Hún verður áfram ákveðið grundvallarplagg fyrir stjórn að vinna eftir við stefnumótun til framtíðar.

Formaður fór í lok febrúar ásamt Helenu Jónsdóttur á fund embættismanna í Mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem málefni dansins voru rædd og þá sérstaklega sú ósk danslistamanna að hafa manneskju með fagmenntun í dansi í úthlutunarnefndum sviðslistanna. Ingibjörg Björnsdóttir hefur verið í úthlutunarnefnd launasjóðsins en enginn dansmenntaður aðili í úthlutunarnefnd Leiklistarráðs. Dansinn fékk frekar lítinn hluta af því fjármagni sem var úthlutað á árinu en það er í miklu ósamræmi við þá grósku sem hefur verið í danslistinni að undanförnu. Fulltrúar ráðuneytisins bentu á að við ættum að herja á þá sem tilnefna í úthlutunarnefndir til þess að fá okkar fagmenntaða aðila inn. Það hefur reynst mjög erfitt að sækja það þar sem einungis eru 3 einstaklingar í hverri úthlutunarnefnd. Formaður vakti aftur máls á þessu á árlegum samráðsfundi BÍL með menntamálaráðherra í mars og benti á það sanngirnissjónarmið að fá faglega umfjöllun um umsóknir danslistamanna. Málið fékk svo mjög farsælan endi á haustmánuðum þegar forseti Leiklistarsambands Íslands, Ása Richards lagði til að Sveinbjörg Þórhallsdóttir færi inn í úthlutunarnefnd Leiklistarráðs (styrkir til starfsemi atvinnuleikhópa). Dansinn á sterkan bandamann í Ásu og kunnum við henni bestu þakkir fyrir þetta frumkvæði. Við megum samt ekki sofna á verðinum, heldur halda áfram að tala fyrir þessu sjónarmiði um fagmenntaðan einstakling í úthlutunarnefndir svo umsóknir danslistafólks hljóti faglega umfjöllun á forsendum dansins. (1)

FÍLD stóð fyrir SOLO, keppni í klassískum listdansi 1.mars í Gamla Bíó. Þar tóku þátt 26 listdansnemar frá þremur skólum, Ballettskóla Guðbjargar Björgvins, Klassíska Listdansskólanum og Listdansskóla Íslands. Þessi keppni er undankeppni fyrir norræna/baltneska ballettkeppni Stora Daldansen, sem haldin er í Svíþjóð ár hvert og þangað koma bestu listdansnemar norðurlanda og baltnesku landanna. Á SOLO voru þrír valdir til þess að vera fulltrúar Íslands í keppninni úti en það voru þau Ellen Margrét Bæhrenz, Gunnhildur Eva G. Gunnarsdóttir og Karl Friðrik Hjaltason öll nemendur við Listdansskóla Íslands. Þau stóðu sig með prýði í Svíþjóð þó ekkert þeirra hafi hlotið verðlaunasæti að þessu sinni. Samkvæmt reglum Stora Daldansen ber að halda undankeppni í hverju landi fyrir sig og hefur FÍLD tekið það hlutverk að sér sem fagfélag dansins með tengingu við alla listdansskóla á landinu.

Irma Gunnarsdóttir fór sem fulltrúi FÍLD á samráðsfund BÍL og borgarinnar þar sem formaður komst ekki frá vinnu. Þessir samráðsfundir BÍL bæði við menntamálaráðherra/ráðuneyti og borgaryfirvöld eru mikilvægir til þess að koma á framfæri ábendingum okkar um það sem betur má fara. Það getur oft á tíðum verið erfitt að koma sínu að þegar fulltrúar 14 félaga innan BÍL hafa öll eitthvað fram að færa en hinsvegar er stuðningurinn sem fæst frá hinum félögunum í þessum málum mjög mikilvægur. Röddin er miklu sterkari þegar BÍL talar heldur en þegar FÍLD talar eitt og sér.

Alþjóðadansdagurinn var haldinn hátíðlegur um heim allan 29.apríl og af því tilefni stóð FÍLD fyrir ýmsum uppákomum. Í Tjarnarbíó var svokallað “pop-up” danssafn þar sem ýmsir listdansskólar, Íslenski dansflokkurinn, Reykjavík dance festival og fleiri kynntu starfsemi sína og sögu. Fengnir voru að láni gamlir búningar sem minna okkur á listdanssöguna hér á landi. Á sviðinu í Tjarnarbíó sýndu nokkrir skólar atriði auk þess sem gamlar upptökur frá RÚV voru sýndar á tjaldi. Í Bíó Paradís voru svo sýndar 10 íslenskar dansstuttmyndir sem hafa allar vakið mikla athygli og unnið til verðlauna víðsvegar um heiminn. Dagurinn þótti mjög vel heppnaður og kann stjórn FÍLD, Helenu Jónsdóttur bestu þakkir fyrir hennar stóra þátt í skipulagningu dagsins. Einnig viljum við þakka þeim fjölmörgu sem lögðu til efni og vinnu til þess að hugmyndin yrði að veruleika. Stjórn hefur fullan hug á að endurtaka leikinn núna í ár og þróa þessa hugmynd áfram ekki síst í ljósi þess að félagið okkar á 65 ára afmæli á þessu ári.

Daginn eftir dansdaginn eða 30.apríl var haldin árshátíð dansara en það er sjálfsprottin hátíð sem byrjaði árið 2010 og tókst svona ljómandi vel bæði þá og 2011. Heimatilbúnar veitingar og skemmtiatriði vöktu mikla lukku þeirra sem mættu og bíðum við spennt eftir að sjá hvað næsta undirbúningsnefnd skipuleggur fyrir næstu árshátíð. Hátíðin er auglýst á póstlista FÍLD og eru allir velkomnir á árshátíð dansara.

FÍLD fékk á vormánuðum Katrínu Gunnarsdóttur, dansara og heilsu-hagfræðinema, til þess að taka að sér vinnu við skýrslu um Listdanskennslu á Íslandi, stöðu hennar, umfang og framtíðarmöguleika. Katrín fékk laun úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til verksins og vann hún það að mestu yfir sumarmánuðina. Nú þarf stjórn að klára uppsetningu skýrslunnar en það er von okkar að við getum komið skýrslunni í prentun sem fyrst og svo sjáum við hvernig hún nýtist okkur best til að tala máli listdansins og skólanna. Von okkar er að hún reynist mikilvægt gagn í baráttunni fyrir frekara fjármagni til listdanskennslu. Stjórn kann Katrínu bestu þakkir fyrir hennar vinnu og skólunum sem lögðu til upplýsingar í skýrsluna þökkum við einnig kærlega fyrir samvinnuna. (2)

Ólöf Ingólfsdóttir fór sem fulltrúi Íslands með stuðningi FÍLD á fund Aerowaves danstengslanetsins í Porec í Króatíu í lok október. Það er íslenskum dansheimi mjög mikilvægt að geta tengst þessu tengslaneti en eina helgi á ári hittast u.þ.b. 30 einstaklingar, einn frá hverju landi Evrópu og skoða brot úr 3-400 verkum ungra og upprennandi danshöfunda frá gjörvallri Evrópu og kynnast þannig því ferskasta í evrópskri danslist. Úr þessum verkum eru valin verk á danshátíðina Spring Forward 2012, en mörgum verkum er einnig boðið að sýna á hátíðum og í leikhúsum víða um Evrópu. Þáttaka í Aerowaves hefur verið mikilvægur liður í því að vekja athygli á íslenskum dansi og hafa verk margra íslenskra danshöfunda hlotið brautargengi í gegnum tengslanetið.

Í haust barst beiðni frá Mennta- og menningarmálaráðuneyti um umsögn um nýtt frumvarp til Sviðslistalaga. Úr varð að fulltrúar fagfélaganna innan Leiklistarsambands Íslands ásamt Sjálfstæðu leikhúsunum hittust, fyrst á rabbfundi til þess að fara yfir hugmyndir félaganna um hin nýju sviðslistalög en útúr þeim fundi fæddist samráðsnefnd fagfélaganna og SL sem hittist á nokkrum fundum og skilaði að lokum sameiginlegum breytingartillögum við frumvarpsdrög ráðuneytisins. Það er óhætt að segja að þær breytingar sem við lögðum til voru ansi viðamiklar og er næstum hægt að tala um nýtt frumvarp. Enn eiga eftir að koma viðbrögð ráðuneytisins við öllum þeim athugasemdum sem bárust frá ýmsum hagsmunaaðilum. Það sem þó er ánægjulegt við þetta frumvarp er að nú á að setja inn í sviðslistalögin lög um starfsemi Íslenska dansflokksins og þannig festa í sessi tilvist hans í menningarlífi íslendinga en hingað til hefur hann verið rekinn samkvæmt sérstakri reglugerð um starfsemi hans.

Guðrún Óskarsdóttir hefur áfram haldið utan um vefsíðu félagsins og reynum við að hafa reglulegt flæði af fréttum af fólkinu okkar og danslistinni. Við hvetjum félagsmenn til að vera enn duglegri við að senda fréttir og fréttatilkynningar á Guðrúnu svo síðan verði sem öflugust. Þá fór stjórn í það að færa facebook svæði FÍLD úr því að vera persóna með prófíl yfir í síðu eða „page” en reglur facebook kveða á um að fyrirtæki og félagasamtök skuli vera með síðu en ekki prófíl. Þar fyrir utan mega einstaklingsprófílar ekki hafa fleiri en 5.000 vini og gamla síðan okkar er komin ansi nálægt því og þá hefðum við ekki getað bætt fleira fólki við síðuna okkar. Við erum enn að vinna í að fá fólk til að færa sig yfir á nýju síðuna og þar geta félagsmenn lagt hönd á plóg með því að benda vinum og vandamönnum á að „læka” nýju síðuna. (3)

Reykjavík Dance Festival var glæsilegt að vanda og gaman að sjá hvernig hátíðin tekur alltaf einhverjum breytingum á milli ára og er aldrei alveg eins. Þannig var gaman að sjá dansstuttmyndir skipa stóran sess í dagskrá hátíðarinnar að þessu sinni. Dagskráin var það pökkuð að gestir máttu hafa sig alla við til þess að ná að sjá allt sem í boði var. Í þessu samhengi er vert að minnast líka á sýningu myndarinnar Pina á RIFF (Reykjavík International Film Festival). Það var sannkölluð upplifun að sjá þessa frábæru listamenn minnast þessa mikla meistara danslistarinnar sem Pina Bausch var.

Fyrir utan RDF setja sjálfstæðir danshópar og danshöfundar upp reglulegar sýningar og ber að fagna því að þessar sýningar verði til þrátt fyrir takmarkað fjármagn. Aðstaðan í Dansverkstæðinu skiptir hérna mjög miklu máli fyrir sjálfstæða geirann og vonandi náum við danssamfélagið að sannfæra stjórnvöld um mikilvægi þess fyrir dansinn. Við sem fagfélag og samfélag dansara getum stutt við bakið á þessum félögum okkar með því að mæta á sýningarnar þeirra og vera dugleg að taka fólk með okkur.
Íslenski dansflokkurinn er enn með sitt heimili í Borgarleikhúsinu en þar gæti dregið til tíðinda þar sem leigusamningur dansflokksins rennur út á þessu ári. Hvort dansflokkurinn verður áfram í Borgarleikhúsinu eða fer annað mun væntanlega koma í ljós á næstunni. Dansflokkurinn hefur haft sínar föstu sýningar í Borgarleikhúsinu en auk þess farið í sýningarferð til Akureyrar og víða erlendis þar sem jafnan er gerður góður rómur að sýningum flokksins. Þá var auglýst laus til umsóknar staða listdansstjóra Íslenska dansflokksins í nóvember og bárust 31 umsókn um stöðuna. Þegar þetta er skrifað er enn ekki búið að tilkynna hver fær starfið en ljóst er að hver sem verður valinn mun hafa mikil áhrif á þróun danslistarinnar á landinu næstu árin.

Á nýliðnu ári fagnaði Ballettskóli Eddu Scheving 50 ára afmæli og á þessu ári eru þó nokkur afmæli á döfinni. Ballettskóli Guðbjargar Björgvins er 30 ára á þessu ári, Ballettskóli Sigríðar Ármann er 60 ára og jafnframt elsti einkarekni ballettskóli á landinu. Danslistarskóli JSB er 30 ára á þessu ári og loks Listdansskóli Íslands áður Listdansskóli Þjóðleikhússins 60 ára. Þetta er því mikið afmælisár hjá okkur öllum, ekki bara aldursforsetanum hinu 65 ára FÍLD og vert að óska okkur til hamingju með afmælin. Þá má í þessu samhengi minnast á að Bryn Ballettakademían fékk viðurkenningu Menntamálaráðuneytisins á árinu og kennir nú samkvæmt námsskrá framhaldsskóla. Þar með eru skólarnir orðnir fjórir sem það gera en fyrir eru Danslistarskóli JSB, Klassíski Listdansskólinn og Listdansskóli Íslands að kenna samkvæmt námsskrá. Karen María Jónsdóttir hefur setið í nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins sem skilaði af sér tillögum um hvernig listgreinakennslu verði háttað í nýrri námsskrá framhaldsskóla sem stefnt er að taki gildi eftir ca. 2-3 ár. Þar er verið að breyta alveg um hugsun í uppbyggingu náms, einingakerfis og námsmati og ljóst að þeir skólar sem kenna samkvæmt námsskránni munu þurfa að aðlaga sínar skólanámsskrár að breyttum tímum.

RÚV tók sig til á haustmánuðum og fyllti upp í ákveðið tómarúm með þættinum Dans, dans, dans. En erlendir dansþættir hafa notið mikilla vinsælda hér á landi. Allt í einu höfðu landsmenn miklar skoðanir á hvaða dansari væri nú bestur, hver hefði staðið sig betur en hver og hver átti skilið að fara áfram í úrslit. Hvar sem dansarar komu þurfti „almenningur” að spyrja viðkomandi hvað honum fyndist nú um þáttinn, dómgæsluna og hitt og þetta… Það sem var sérstaklega gott við þættina var athyglin sem dansinn fékk sem listform og gaman að sjá hvaða áhrif þættirnir virðast hafa haft eins og við sáum í nýlegu Kastljósinnslagi frá frístundaheimili barna sem setja upp vikulegar Dans, dans, dans keppnir í sínum hópi. Það verður því fróðlegt að fylgjast með hvort aðsókn í dansskóla landsins eigi eftir að aukast á næstu misserum. Þá má einnig hrósa RÚV fyrir þættina Sex pör sem gerðir voru í samvinnu við Listahátíð í Reykjavík í kringum sýninguna Sex pör sem sýnd var á listahátíð í lok maí. Í þáttunum sex sem sýndir eru á fimmtudagskvöldum um þessar mundir fáum við innsýn í samstarf danshöfundar og tónskálds við vinnslu verks þeirra sem endaði í áðurnefndri sýningu. Við hvetjum ríkissjónvarpið til að halda áfram á þessari braut og sýna meiri dans. Þannig væri til dæmis kjörið að hafa faglega umfjöllun og gagnrýni um danssýningar í menningarþættinum Djöflaeyjunni.

Stjórn boðaði til félagsfundar í september sem var vægast sagt misheppnaður þar sem aðeins einn félagsmaður mætti fyrir utan stjórnarmeðlimi. Eftir skammarpóst formanns til félagsmanna var gerð önnur tilraun mánuði síðar eða 23.október og mættu þá 14 manns á fund. Á fundinum voru meðal annars rædd stéttarfélagsmál, hvort þörf væri á sérstöku stéttarfélagi danslistamanna eða hvort okkur væri betur borgið inni í öðrum stærri félögum. Ákveðið var að Ásgeir Helgi, Tinna Grétarsdóttir og Katrín Ingvadóttir myndu skoða meðal annars launaviðmið fyrir félagsmenn FÍLD, hvað er eðlilegt að dansarar, danshöfundar og danskennarar fái greitt fyrir sína vinnu? Á fundinum voru einnig rædd félagsmál almennt og þá aðallega virkni félagsmanna. Það virðist vera tilhneyging, ekki bara í okkar félagi, að fólk hafi almennt lítinn áhuga á félagsmálum og oft er erfitt að virkja fólk til starfa. Hverju þessi doði sætir er ekki gott að segja en við megum ekki gleyma því að VIÐ erum FÍLD. FÍLD er ekki þessi fimm manna stjórn sem við kjósum okkur, eða formaðurinn sem kemur fram fyrir hönd félagsins á hinum ýmsu fundum. Við FÉLAGSMENN erum FÍLD og VIÐ eigum að láta okkur annt um félagið okkar og leggja okkar litla lóð á vogarskálarnar til að allt gangi vel fyrir sig. Einfaldur hlutur eins og að svara tölvupóstum, senda inn umbeðnar upplýsingar og svo framvegis flýtir fyrir störfum stjórnar og allt gengur svo miklu betur fyrir sig. Formaður hefur t.d. á þessu starfsári mátt eyða nokkrum klukkustundum í að ganga á eftir fólki að senda inn aðsóknartölur sjálfstæðu hópanna til SL en þeim tíma hefði vel mátt verja í annað uppbyggilegra fyrir félagið og danslistina. Ef allir gera sitt þá gengur allt miklu betur, hópurinn dansar í takt og sýningin heppnast fullkomlega. Verum virk, sýnum ábyrgð tökum þátt í starfi félagsins okkar!

Stjórn Félags íslenskra listdansara,
Guðmundur Helgason, formaður.

Viðbætur frá Karen Maríu Jónsdóttur:
1) Sjálfstæðu Leikhúsin tilnefndu einnig dansara sem varamann í úthlutunarnefnd Leiklistarráðs, Karen Maríu Jónsdóttur og er það í fyrsta sinn sem þau gera það. Dansarar eiga einnig mjög sterkan bandamann í SL sem stutt hefur dyggilega við dansheiminn á undanförnum árum og talað fyrir hönd þeirra hvar sem þeir fara. Þeir eiga þakkir skildar fyrir sitt frumkvæði sem er tilkomið vegna vinnu stjórnar FÍLD.

2) Skýrsla Katrínar Gunnarsdóttur var unnin í samstarfi FÍLD, LHÍ og Katrínar með styrk frá nýsköpunarsjóði. Karen María var leiðbeinandi verkefnisins og hennar aðkoma að verkefninu (meðskrif á umsókn og annað) fjármögnuð af LHÍ þar til Karen hætti þar störfum í júní. Eftir það fjármagnaði Karen María leiðsögn (aðstoð við heimildavinnu, leiðsagnarfundi, yfirlestur og annað) Katrínar yfir allt sumarið úr eigin vasa og nýtur FÍLD svo sannarlega góðs af því.

3) Fréttir á vefsíðu FÍLD voru að mestu skrifaðar af Karen Maríu þar til í október 2011. Þá eru einnig starfandi í ritnefnd, Melkorka og Ásgeir og hafa þau skrifað hluta efnisins. Eitthvað af efninu er fréttatilkynningar frá dönsurum, danshöfundum og skólunum sjálfum. Fréttir úr íslensku danssamfélagi birtust einnig daglega á gömlu Facebook-síðu FÍLD og sá Karen María um þær að mestu. Þetta er tímafrek vinna og var hún öll unnin á forsendum FÍLD fyrir danssamfélagið.