Aðalfundur BÍL skorar á Reykjavíkurborg að hverfa frá fyrirhuguðum niðurskurði á framlögum til Frá árinu 2008 hafa fjárframlög til skólans verið skorin niður um 47%, en hann er eini skólinn sinnar tegundar í borginni. Nú er svo komið að starfsemi hans er í mikilli hættu og fyrirséð að loka þurfi útibúi í Grafarvogi. Listnám hefur mikið forvarnar- og uppeldisgildi því er nauðsynlegt að snúa þessari þróun við tafarlaust.

Greinargerð:

Myndlistaskólinn í Reykjavík er 65 ára og sá eini sinnar tegundar í Reykjavík. Heildarframlög Reykjavíkurborgar til skólans hafa nú verið skert um 47% frá árinu 2008 en borgin hefur styrkt og niðurgreitt myndlistanám barna og unglinga. Heildarframlag Reykjavíkurborgar til skólans samkvæmt fjárlögum Reykjavíkurborgar fyrir árið 2011 eru um 12 milljónir en hefði orðið 27 milljónir ef ekkert hefði í skorist.

Skólinn hefur hagrætt eins og kostur er og meðal annars neyðst til að stytta nám barna og unglinga og hætt ýmsum mikilvægum verkefnum, sem hingað til hafa veitt breiðum hópi barna kost á listnámi, óháð búsetu og efnahag. Nú er svo komið að skólinn er með það til alvarlegrar skoðunar að loka útibúi sínu í Grafarvogi.

Ekki eru margir kostir í stöðunni. Samkvæmt óformlegri könnun er myndlistanám og tónlistarnám á Íslandi 5 – 8 sinnum dýrara en t.d. í Danmörku – á meðan kostnaður foreldra við íþróttanám virðist svipaður. Þetta hefur miklar afleiðingar í för með sér eins og fram kemur í úttekt sem gerð var á listnámi barna í Reykjavík árið 2009 en þar kom fram að fjöldi nemenda sem stunda listnám til hliðar við lögbundið grunnskólanám er 39% þar sem mest er, en ekki nema 4% í því hverfi þar sem þátttaka er minnst.

Nú stendur yfir endurskoðun á framlögum Reykjavíkurborgar til listnáms barna – sem er skiljanleg í ljósi erfiðrar stöðu borgarinnar. Í þessari uppstokkun liggja tækifæri til að móta heildstæða stefnu til framtíðar og rétta misvægi það sem smám saman hefur myndast milli möguleika barna á listtengdu skapandi starfi og íþróttastarfi. Ef fram heldur sem horfir er hætta á möguleikar reykvískra barna verði, í þessu tilliti, enn fábreytilegri og að færri foreldrar muni geta sent börn sín í listnám.

Nýjustu rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að ungmenni sem fá að dafna í listríku umhverfi eru fjórum sinnum ólíklegri til að þurfa að leita á náðir hins opinbera með stuðning síðar í lífinu. Það er því ljóst að listnám hefur mikið forvarnargildi .

Bandalag íslenskra listamanna óskar í framhaldinu eftir að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir faglegri og sanngjarnri umræðu sem bætt gæti stöðu Myndlistaskólans í Reykjavík og jafnframt að leitað verði leiða til að efla listmenntun í grunnskólum borgarinnar.