Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna skorar hástöfum á stjórnendur Ríkisútvarpsins ohf að nota það fé sem stofnunin hefur yfir að ráða til að uppfylla menningarlega skyldu sína og kaupa efni frá sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðarmönnum, heimildarmyndir, þáttaraðir, leiknar sjónvarpsseríur, stuttmyndir og kvikmyndir í fullri lengd.

Rökstuðningur:

Á síðustu tveimur árum hefur mikið skort á að RUV ohf uppfylli ákvæði þjónustusamnings milli sín og þjóðarinnar um kaup á efni frá íslenskum kvikmyndagerðarmönnum. Á sama tíma gerast stjórnendur stofnunarinnar sekir um skammarlega vanhugsuð viðbrögð, eins og þegar útvarpsstjóri lét sér detta í hug að stofnunin gæti keypt sýningarrétt að HM í handbolta af Stöð 2 á elleftu stundu fyrir tugi milljóna króna. Mikilvægt er að stjórnendur RÚV ohf sýni að þeir séu færir um að fara að lögum og samningum um stofnunina.