Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna 2016 var haldinn í Iðnó laugardaginn 13. febrúar 2016 kl. 13:00
Fundarmenn voru 39 samkvæmt viðveruskrá
Dagskrá aðlafundarins:
- Kosning fundarstjóra og fundarritara.
- Lögmæti fundarins kannað og staðfest.
- Fundargerð síðasta aðalfundar.
- Skýrsla forseta um starf BÍL 2015.
- Ársreikningar 2015.
- Kosning forseta.
- Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
- Starfsáætlun 2016.
- Önnur mál.
- Erindi um höfundarrétt
- Kosning fundarstjóra og fundarritara
Kosning fundarstjóra og fundarritara
Kolbrún Halldórsdóttir setti fundinn og lagði til að fundarstjóri aðalfundar yrði skipaður Markús Þór Andrésson og Margrét Örnólfsdóttir yrði skipuð ritari. Fundurinn samþykkti það einróma.
Lögmæti fundarins kannað og staðfest
Markús Þór kannaði lögmæti fundarins. Aðalfundur BÍL var boðaður með fundarboði 12. janúar og ítrekað fundarboð ásamt dagskrá sent út 30. janúar. Fulltrúar eru til staðar frá öllum aðildarfélögum BÍL og lögmæti fundarins var staðfest.
Fundargerð síðasta aðalfundar
Markús Þór bar aðalfundargerð frá 7. febrúar 2015 upp til samþykktar, en fundargerðin var send út með tölvupósti 14. febrúar 2015. Engar athugasemdir bárust og fundargerðin telst því samþykkt.
Skýrsla forseta um starf BÍL 2015
Kolbrún Halldórsdóttir flutti ársskýrslu sína. Sjá skýrsluna í heild í viðauka með þessari fundargerð. Stjórn hélt 10 reglulega fundi á starfsárinu en auk þess voru haldnir sérstakir fundir um afmörkuð málefni, s.s. starfslaun listamanna, málefni Listaháskólans og málefni RÚV. Eitt nýtt aðildarfélag bættist í hópinn á árinu, Danshöfundafélag Íslands. Í skýrslu forseta má sjá tæmandi lista yfir fulltrúa BÍL í stjórnum, nefndum og ráðum, en Kolbrún fór yfir helstu breytingar sem orðið hafa þar á frá fyrra ári. Á þessum lista sést að starfsemi og aðkoma BÍL að hinum margvíslegu póstum menningarlífsins er mjög víðtæk og umfangsmikil. Á síðasta starfsári tók Björn Th. Árnason við starfi gjaldkera en það fyrirkomulag var jafnframt innleitt að dagleg umsýsla verkefna gjaldkera var færð til fjármálastjóra FÍH og þykir sú tilhögun hafa reynst vel. Kolbrún Halldórsdóttir lýkur nú sínu þriðja tímabili í embætti forseta og hefur tilkynnt að hún gefi kost á sér eitt tímabil enn. Samkomulag milli BÍL og Reykjavíkurborgar var endurnýjað í nóvember og olli vonbrigðum að fjárhæðin sem Reykjavíkurborg leggur til starfsemi BÍL fékkst ekki hækkuð. Samkomulag milli BÍL og ríkisins rennur út 2016 svo fyrir liggur að endurnýja það. Í tilfelli þess samkomulags fékkst örlítil hækkun á framlagi ríkisins til BÍL. Stærsta viðfangsefni BÍL ár hvert er að fara yfir fjárlögin. Sá háttur er hafður á að aðildarfélögin skoða hvert fyrir sig það sem snýr að þeirra geira, félögin gefa sjálfstæða umsögn sem BÍL dregur svo saman og samræmir í eina umsögn sem er send fjárlaganefnd og þingmönnum. Þar sem niðurstaða fjárlaga var nánast óbreytt frá upphaflegu frumvarpi virðist ekki mikið mark hafa verið tekið á umsögn eða tillögum BÍL. Niðurstaða fjárlaganna er því talsverð vonbrigði fyrir listalífið í landinu. BÍL hefur ítrekað lagt Sóknaráætlun í skapandi greinum fyrir stjórnvöld, stefnumótandi leiðarvísi í málefnum skapandi greina. Stjórnvöld hafa þó enn ekki séð hag sinn í að nýta sér þessa skýrslu, að því er séð verður. BÍL hefur alltaf þá kröfu á lofti að úthlutun opinberra fjármuna til skapandi greina sér fagleg. Í ljósi umfjöllunar um fyrirkomulag á úthlutunum starfslauna listamanna sem var óvenju harkaleg og ómálefnanleg í ár má benda á að BÍL hefur aldrei skorast undan að endurskoða og meta fyrirkomulagið og að frumkvæði Tónskáldafélags Íslands og Rithöfundasambands Íslands var skipaður faghópur til að fara yfir málið og meta hvort eitthvað væri við núverandi fyrirkomulag að athuga. Niðurstaða faghópsins var að ekkert væri við tilhögun og verklag fagfélaga að athuga og í einu og öllu sé farið að lögum og reglum. Kolbrún lagði til að í framhaldi yrði stjórn falið að setja saman siðareglur um hvernig staðið skuli að tilnefningum í úthlutunarnefndir. Kolbrún þakkaði Tónskáldafélaginu og Rithöfundasambandinu fyrir að hafa frumkvæði að því að setja í gang vinnu starfshópsins og þakkaði jafnframt starfshópnum fyrir gott starf. Kolbrún gerði grein fyrir samstarfi við Menningar og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar en sú breyting hefur orðið á að varamenn BÍL sem sitja fundi MFMR fá nú aukið vægi og er sú breyting til góðs. Kolbrún minnti á að fólk kynnti sér menningarstefnu borgarinnar vel því útfrá henni sé hægt að krefja borgina um efndir. Þegar Kolbrún lauk flutningi skýrslu sinnar þakkaði Markús Þór henni fyrir og opnaði fyrir viðbrögð fundarmanna. Jakob Magnússon, tónlistarmaður og formaður FTT, bað um orðið og þakkaði forseta fyrir góð störf og vísaði til ársreiknings BÍL því til staðfestingar að velta þessara „höfuðstöðva skapandi greina“ á Íslandi væri 6 milljónir. Jakob lagði til að fengið yrði leyfi til að afla greininni frekari tekna með einhverjum hætti, s.s. lottói og benti á að í nágrannalöndum séu dæmi um að allt að 50% lottótekna renni til skapandi greina. Með auknum tekjum gæti BÍL haft 1-3 starfsmenn í fullu starfi. Jakob gagnrýnir einnig það fókusleysi sem hlýst af því að málefni skapandi greina dreifist á mörg ráðuneyti og ítrekaði kröfuna um sérstakt ráðuneyti skapandi greina. Kolbrún Halldórsdóttir svaraði Jakobi og sagði hugmyndina um hlutdeild BÍL í lottótekjum oft hafa borið á góma. Það væri hins vegar mikil vinna fólgin í því að koma þessari hugmynd í framkvæmd og viðbrögðin þegar viðraður hefur verið sá möguleiki að listirnar fái aðkomu að lottóinu hafi hingað til verið afar neikvæð. BÍL hefur ekki fundið aðra möguleika á tekjuöflun. Í sambandi við ráðuneytismálin þá hefur BÍL ítrekað bent á að það hversu málefnum lista er dreift á mörg ráðuneyti geri málaflokkinn hornreka við ríkisstjórnarborðið, enginn einn ráðherra hefur okkar mál á oddinnum. Kolbrún tók því undir kröfuna um sérstakt ráðuneyti skapandi greina. Bjargey Ólafsdóttir myndlistarmaður bar fram spurninguna hvort það væri stemning fyrir því að hækka listamannalaunin. Kolbrún svaraði því að á stefnuskrá BÍL sé ófrávíkjanleg krafa að efla listamannalaunin, bæði með fjölgun mánaða og hækkun launanna. Hákon Már Oddsson kvikmyndagerðarmaður bar fram hugleiðingu vegna “Moskumálsins” í Feyneyjum þar sem farið var í málarekstur gegn Feneyjarborg. Einnig að IHM skyldi fara í mál til að fá lokað vefsíðum og setti spurningamerki við hvort nota ætti peninga listamanna í lögfræðikostnað og málarekstur af þessu tagi eða hvort hægt væri að nota aðrar leiðir. Hákon Már setti líka spurningamerki við að verið væri að verja rétt eigenda flutningsréttar og hvort rétt væri að listamenn væru hagsmunaverðir fyrir þann hóp. Kolbrún svaraði því til að höfundaréttarmál væru flókin og erfið en BÍL væri stöðugt að takast á við þau. Baráttan liggi fyrst og fremst hjá höfundaréttarsamtökum eins og Stefi og Myndstefi þó BÍL fylgist með þá hefur það ekki bolmagn til að beita sér mikið í þessum málum. Kolbrún benti á að eigendur flutningsréttar væru einnig m.a. leikarar, hljóðfæraleikarar og dansarar sem eru innan vébanda BÍL. Gauti Kristmannsson þýðandi og stjórnarmaður í RSÍ bar upp hugmyndina að stofnun íslenskrar efnisveitu til að tryggja að listamenn fái greitt eðlilega fyrir sína „vöru“ í stað þess að vera upp á erlendar efnistveitur komnir, sem borgi listamönnum skammarlega lítið. Kolbrún svaraði því að humyndin um íslenska efnisveitu hafi ekki verið rædd í stjórn BÍL en hvatti formann RSÍ til að taka málið upp.
Kosning forseta
Kolbrún Halldórsdóttir tilkynnti stjórn á fundi 11. janúar að hún gæfi kost á sér áfram. Ekkert mótframboð barst og var Kolbrún því sjálfkjörin til áframhaldandi setu í embætti forseta BÍL.
Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga. Ragnheiður Tryggvadóttir og Sigurgeir Sigmundsson samþykktu að gefa kost á sér áfram til næstu tveggja ára.
Ársreikningar 2015
Björn Th. Árnason skýrði ársreikninga BÍL. Afkoma ársins er jákvæð, tekjur hafa aukist og gjöld og kostnaður lækkað. Laun hafa staðið í stað. Stjórn hefur staðfest reikningana. Björn benti á að annar skoðunarmaður, Ragnheiður Tryggvadóttir, væri erlendis en hefði fengið ársreikninginn sendan og myndi staðfesta hann með undirskrift sinni innan skamms. Engar athugasemdir bárust við þann fyrirvara eða ársreikningana í heild og teljast þeir samþykktir.
Starfsáætlun 2016
Kolbrún Halldórsdóttir kynnti starfsáætlun BÍL, en hana má finna í heild sinni í viðauka með þessari fundargerð. Starfsáætlunin byggir sem fyrr á Sóknaráætlun skapandi greina en samþykkt hefur verið að leggja sóknaráætlunina sem upplegg fyrir stefnu BÍL. Lögð er áhersla á hvernig fjárhagslegur stuðningur við skapandi greinar ætti að þróast. Krafa um að tölulegum upplýsingum sé safnað saman skipulega, þar eru nágrannaþjóðir okkar eru komnar vel á veg en við erum eftirbátar. Sóknaráætlun í markaðs- og kynningarmálum innanlands sem utan er kynnt í starfsáætluninni og bent á nauðsyn þess að skapandi greinar fái sanngjarnan skerf af þeim fjármunum sem settir eru í kynningu á landinu sem ferðamannalandi, ekki síst þegar verið er að markaðsetja Ísland sem lista- og menningarland. Ferðaþjónustan hefur í auknum mæli sótt inn á svið menningarinnar en aftur á móti hefur óskum BÍL um samstarf innan ferða- og kynningargeirans, ekki verið nægilega vel tekið, t.d. náðu sjónarmið listafólks ekki inn í nýjan Vegvísi í ferðaþjónustu sem SAF og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið kynntu fyrir skemmstu. Mikilvægt er að efla kynningarmiðstöðvar listgreina og hönnunar, en þar er mikið verk fyrir höndum. Barátta LHÍ um að skólinn fái markaða fjármuni í öflugan rannsóknasjóð heldur áfram. Í þeim efnum má benda á að háskólarnir fá allt upp í 43% opinberra framlaga eyrnamerkt rannsóknum en hjá LHÍ er hlutfallið einungis 6%. Áfram verður unnið í að bæta skattalega stöðu listamanna. Til stendur að móta tillögur um hvernig uppbygging launasjóðanna til langs tíma ætti að líta út. Heimasíða BÍL. Kolbrún benti á að heimasíðan þyrfti á uppfærslu að halda og kallaði eftir tillögum að úrbótum og ef einhverjir væru áhugasamir um að þróa hugmyndir um þessi mál þá yrði því vel tekið. Kolbrún lauk kynningu sinni á starfsáætluninni og Markús Þór kallaði eftir að fundurinn samþykkti hana, var starfsáætlun samþykkt með handauppréttingum
Önnur mál
Kolbrún gerði grein fyrir skýrslu starfshóps um endurskoðun á verklagi við tilnefningar aðildarfélaga BÍL í úthlutunarnefndir launasjóðanna. Formaður starfshópsins var Margrét Bóasdóttir og aðrir í hópnum voru Birna Þórðardóttir og Rúnar Helgi Vignisson. Niðurstaða starfshópsin var sú að ekkert væri við verkferla og vinnulag fagfélaganna að athuga og að farið hafi í einu öllu verið eftir lögum og reglum. Starfshópurinn benti þó á leiðir til að bæta ferlana frekar m.a. með því að fagfélögin skipuðu sérstakar uppstillingarnefndir til að tilnefna í úthlutunarnefndirnar. Sömuleiðis lagði hópurinn til að BÍL setji saman siðareglur fyrir aðildarfélögin um verklag. Kolbrún lagði til að aðalfundur feli stjórn BÍL að smíða tillögu að starfsreglum um val í úthlutunarnefndir, sú tillaga yrði síðan send aðildarfélögunum til samþykktar. Markús Þór opnaði fyrir umræður. Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður Rithöfundasambandsins fór yfir atburðarás síðustu vikna þar sem rithöfundar sérstaklega fengu á sig mikla gagnrýni og hin árvissa umræða um listamannalaunin varð mun heiftarlegri en áður. Stjórn RSÍ fór strax í að skoða verklagið og sjá hvort þar væri eitthvað athugavert. Fjölmiðlaumfjöllun var villandi og full af rangfærslum og því enginn áhugi sýndur þegar á það var bent. Kristín benti á mikilvægi BÍL sem sameiningar- og samstöðutákns þegar upp kæmi staða sem þessi, enda beindist atlagan gegn öllum listamönnum en ekki bara rithöfundum. Kristín þakkaði Kolbrúnu fyrir að bregðast fljótt og vel við tillögu RSÍ og Tónskáldafélags Íslands að setja á stofn starfshópinn. Í lok umræðu um önnur mál kynnti Kolbrún fyrir fundinum ákvörðun stjórnar um að bjóða ekki upp á málþing samhliða aðalfundinum að þessu sinni eins og venja er, hins vegar verður sjálfstætt málþing um höfundarrétt haldið í mars. Til að undirbúa umræðu þess málþings væri nú boðið upp á erindi um grundvallaratriði lagasetningar um höfundarrétt og bauð Kolbrún velkomna Guðrúnu Björk Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra STEFs.
Erindi um höfundarréttarfrumvörp
Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdstjóri STEFs flutti erindi sitt undir yfirskriftinni „Fyrir hverju erum við nú að berjast?“ Gerði hún grein fyrir þeim þremur frumvörpum um breytingar á höfundalögum sem liggja inni í þinginu 1) Munaðarlaus verk – sem er innleiðing á tilskipun ESB og fjallar um verk sem ekki finnast höfundar að. Þessi lög hjálpa til við að miðla verkum sem ekki finnast höfundar að og er því almennt fagnað. Guðrún sagði frá því að áður en verk gætu talist munaðarlaus þyrfti að fara fram ítarleg leit en almennt væri þetta frumvarp ekki umdeilt og virtist sem hagsmuna allra aðila væri gætt. 2) Verndartími hljóðrita. Aðalmarkmið þessa frumvarps er að bæta stöðu flytjenda svo þeir geti t.a.m. öðlast rétt á hljóðriti ef það hefur ekki verið gefið út lengi. 3) Samningskvaðir – hafa með að gera umboð rétthafasamtaka til að innheimta og útdeila rétthafagreiðslum. Þarf að aðlaga að EBS tilskipun. Frumvarpið bætir við fleiri möguleikum á að nota þetta kerfi og bætt er inn almennri grein til að mæta mögulegri þróun í framtíðinni, t.d. á tæknibúnaði. Frumvarp um eintakagerð til einkanota er enn ekki komið fram, en það frumvarp er þó fullbúið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og hefur verið kynnt á vef ráðuneytisins. Það er mikilvægt fyrir hagsmuni listamanna að það verði lagt fram, en líkir eru á að um það skorti pólitíska samstöðu. Þó ber að hafa í huga að ríkinu ber að bæta höfundum upp tekjumissi vegna eintakagerðar til einkanota og þar sem ákvæði núgildandi laga um eintakagerð til einkanota eru orðin úrelt og algert hrun hefur orðið á rétthafatekjunum síðustu 10 árin sagði Guðrún Björk að mögulega hafi ríkið skapað sér skaðabótaskyldu með því að bregðast ekki við. Guðrún sagði tvennt í stöðunni, annað hvort að halda áfram að þrýsta á um að málið verði klárað og gjaldstofninn útvíkkaður með því að leggja gjöld á fleiri tæki og búnað til afritunar eða að skipta um kúrs og krefjast þess að verði settur á stofn sjóður sem færi þá inn á fjárlög. Guðrún kynnti einnig að tilskipun ESB um rétthafasamtök væri á næsta leiti en með henni á að tryggja meira gagnsæi og auka traust á rétthafasamtökum. Hún viðraði jafnframt þá skoðun sína að tilskipunin gengi of langt hvað varðar fámenn lönd eins og Ísland, væri íþyngjandi og of ýtarlegar reglur fylgdu henni, sem myndu gera innleiðinguna hér á landi dýra og erfiða. Guðrún ræddi einnig um ýmis tengd áhyggjuefni rétthafa, eins og þá staðreynd að með aukinni netvæðingu og vaxandi dreifingu höfundarréttarvarins efnis í gegnum stórar efnisveitur á borð við Spotify og Netlix, lendi rétthafar neðst í goggunarröðinni og fái ekki nema brot af því sem þeir ættu að fá. Auk þess sé stór hluti veitna, eins og Facebook, Google og Youtube sem borga ekki fyrir notkun á efni. Guðrún ræddi um vanda rétthafa vegna tilskipunar frá 2001 þar sem innleitt var ákvæði um ábyrgðarleysi milliliða, eins og til að mynda fjarskiptafyrirtækja. Þetta geri að verkum að rétthafar eiga erfitt með að sækja þær greiðslur sem þeim ber. Nú sé hins vegar barist fyrir því að þetta ákvæði verði skýrt betur og nái aðeins til þeirra sem sannanlega geti talist hlutlausir milliliðir, það myndi þá opna fyrir möguleikann á því að semja um leyfisgjöld.
Fleira var ekki gert og sleit forseti fundinum rétt fyrir klukkan 16:00