Ágúst Guðmundsson:

 

Í allri umræðunni um láglaunastéttir hefur aldrei verið minnst á eina mjög fjölmenna stétt sem vissulega getur ekki talist á háum launum: listamenn þjóðarinnar. Ástæða þess að svo fátt heyrist um launamál frá þessum annars fjölmenna hópi er líklega sú að kjarabarátta þeirra verður ekki háð með sama hætti og gengur og gerist um almennt launafólk. Hér á ég einkum við einyrkjana, þá sem stunda listsköpun að mestu sjálfstætt og án afskipta vinnuveitenda: myndlistarmenn, rithöfunda og tónskáld.

Þessir þrír hópar hafa sérstaka launasjóði á vegum ríkisins, en fjórði sjóðurinn, Listasjóður, er síðan fyrir alla aðra listamenn. Þetta kerfi hefur verið við lýði frá 1991, en var síðast haggað árið 1996. Til úthlutunar eru 1200 mánaðarlaun árlega og miðast við lektorslaun II við Háskóla Íslands. Nú er svo komið að allir vilja endurskoða lög um starfslaun listamanna, og þar eru stjórnarflokkarnir engin undantekning. Lögunum verður því örugglega breytt innan tíðar og mun meira fé veitt í málaflokkinn.

Það hefur nefnilega gefist vel að veita listamönnum starfslaun. Þetta er fjárfesting sem borgar sig. Innan stjórnkerfisins lítur enginn á þetta sem virðingarvott einan við vel metna listamenn, jafnvel ekki heldur sem réttlætismál gagnvart þeim sem helst halda uppi lifandi þjóðmenningu hér. Þetta telst einfaldlega sjálfsagt framlag til starfsemi sem þjóðfélagið í heild nýtur góðs af.

Til þess liggja tvær ástæður. Í fyrsta lagi hefur það komið fram að listir og menning er vaxandi hluti af hagkerfi þjóðarinnar, Á Íslandi er framlag mennningar til vergrar landsframleiðslu 4%, svo vitnað sé í grein eftir Ágúst Einarsson frá árinu 2005. Hann skrifaði ennfremur bók um hagræn áhrif tónlistar og kom mörgum á óvart með niðurstöðum sínum, sem tónlistarfólk hefur síðan verið að sanna með margvíslegum sigrum sínum. Einnig má minna á skýrslu Aflvaka um kvikmyndagerð í landinu, sem varð til þess að Iðnaðarráðuneytið hóf að greiða fyrirtækjum til baka 12% af því fé sem varið er í kvikmyndaverkefni á Íslandi. Svo vel hefur það tekist að á síðasta ári var endurgreiðslan hækkuð upp í 14%. Það hefði ekki gerst ef ráðuneytið væri ekki sannfært um að þessi starfsemi borgaði sig og vel það.

Þetta er hagræna ástæðan. Hin ástæðan snýr að ímynd Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar. Við viljum vera menningarþjóð. Við viljum geta státað af líflegu listalífi, blómlegri bókaútgáfu, leikhúsum, dansi og óperuflutningi, að ógleymdum myndlistarsýningunum og tónleikunum. Við viljum að gerðar séu íslenskar bíómyndir og við fylgjumst spennt með framgangi þeirra hérlendis og ekki síður á erlendri grund.

Mörg þeirra íslensku listaverka sem vekja athygli erlendis hafa hlotið einhvern opinberan stuðning. Sum þeirra hefðu ekki orðið til ef ekki væri til staðar kerfi til að umbuna listamönnum að einhverju leyti fyrir vinnu sína. Sú umbun er sjaldnast há í krónum talið, en nægir samt furðu oft til að blása lífi í viðkomandi verk. Í þessu felst ágæti starfslaunanna – frá sjónarhóli almennings. Ríkið fær svo fjarska mikið fyrir svo fjarska lítið.

Í fyrra var gerður skurkur í opinberum stuðningi við kvikmyndagerðina í landinu. Í gangi er áætlun sem gerir ráð fyrir stigvaxandi fjárfestingu ríkisins á því sviði. Það var vel að þessu staðið og raunar afar spennandi að sjá hver útkoman verður. Framlag til Sjónvarpsins hefur nú kallað á sömu upphæð úr einkageiranum, og ef þetta samanlagt leiðir ekki til byltingar í leiknu sjónvarpsefni, er ég illa svikinn – og raunar listamenn allir.

Nú er rétt að taka starfslaun listamanna sömu tökum. Á því græða allir, fyrir nú utan þá nauðsyn sem það er fyrir þjóðarstoltið – eða öllu heldur: fyrir sjálfsmynd okkar sem þjóðar.

Og sú sjálfsmynd skiptir ekki litlu mál.

 

(Birtist í Morgunblaðinu í nóvember 2007)