Ágúst Guðmundsson:

 

Sá árangur sem náðist með nýjum lögum um starfslaun listamanna á sér langan aðdraganda, því að lögum um þennan málaflokk hefur ekki verið haggað síðan 1996. Á meðan ýmsir aðrir þjóðfélagsgeirar sóttu sér gull í greipar og stækkuðu og bólgnuðu, einkum þeir auðugustu, gerðist ekkert annað með listamannalaunin en að umsóknum fjölgaði ár frá ári. Þörfin á að bæta um betur var því orðin afar brýn.

Þetta viðurkenndi þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, og bauð upp á það nú í haust að hefja viðræður við fulltrúa frá Bandalagi íslenskra listamanna um þriðjungs fjölgun mánaðarlauna. Með þessu var hún að efna loforð frá bjartari dögum í hagsögu þjóðarinnar, en það skal sagt henni til hróss að hún stóð við loforðið þrátt fyrir efnahagslegt hrun. Er skemmst frá því að segja að þann 7. janúar síðastliðinn náðist samkomulag um skiptingu milli hinna ýmsu listgreina og um flesta aðra þætti málsins.

Það var í rauninni ekki annað eftir en að greiða úr nokkrum formsatriðum í ráðuneytinu og reka á frumvarpið smiðshöggið, þegar stjórnin féll í janúarlok. Undirritaður var þess þá fullviss að erfitt yrði að endurlífga málið – en nýr menntamálaráðherra kom listamönnum skemmtilega á óvart með einstakri framtakssemi. Af skörungsskap tók Katrín Jakobsdóttir málið fyrir og lét ganga frá frumvarpinu með hraði, lagði það síðan fyrir vorþingið, þar sem það var afgreitt á lokadögum þess.

Svo sem oft áður komu fram gamalkunnar úrtölur, t.d. um listamenn á framfæri ríkisins, en þær voru þó venju fremur bitlausar að þessu sinni. Nokkuð byggðust þær á þeim rótgróna misskilningi, að verið væri að styrkja tómstundagaman einhverra iðjuleysingja! Staðreyndin er hins vegar sú að listamenn innan BÍL eru atvinnumenn úr ýmsum greinum og þiggja laun, rétt eins og hverjir aðir, fyrir vinnu sína. Starfslaunin tengjast verkefnum sem lístamenn sækja um stuðning við, ríkið fjármagnar síðan þau verkefni í formu starfslauna, hljóti þau náð fyrir augum sjóðsstjórnanna.

Á tímum kreppu og atvinnuleysis eru starfslaun listamanna einmitt kjörinn vettvangur til að auka atvinnuskapandi tækifæri á sviðum sem gjarnan leiða af sér umtalsverð afleidd störf og þjónustu af ýmsu tagi. Þar með er líka tekin stefna á störf sem kalla á virkjun hugans fremur en landsins gæða og er raunar aðeins eitt dæmi af mörgum um þá trú á hugarorkuna sem einkennir sitjandi stjórnvöld.

Katrín Jakobsdóttir fer vel af stað í embætti sínu sem menntamálaráðherra. Annað stórvirki hennar er að taka þátt í byggingu Tónlistar- og ráðstefnuhúss í samstarfi við borgaryfirvöld, en það er annað mál sem hljómar illa í eyrum þeirra sem ekki hefur skilist að listviðburðir og menningarlíf yfirleitt eru ekki bara skraut á tyllidögum þjóðlífsins, heldur heyra til þeirri atvinnugrein sem vex hraðast í heimshluta vorum: iðnaði sköpunar.

 

Greinin var send Morgunblaðinu 22. apríl 2009