Starfslaun listamanna eru hornsteinn opinbera stoðkerfisins við listgreinar á Íslandi. Starfslaunakerfið hefur á þessum tíma tekið miklum breytingum, sem er eðlilegt 
vegna þess að kerfið þarf á hverjum tíma að endurspegla tíðarandann sem er við lýði í íslensku þjóðfélagi. Með þeim hætti stuðlar kerfið best að því markmiði eða 
hlutverki sem listamannalaunum er ætlað: Að efla listsköpun í landinu.

Starfsumhverfi listamanna er flókið og margbreytilegt. Flestir listamenn starfa sem einyrkjar að hluta eða að öllu leyti og hafa ótryggar og óstöðugar tekjur. Í langflestum tilfellum eru starfslaun listamanna forsenda þess að þeir geti skapað, en margir 
listamenn vinna jafnframt hlutastörf eða tímabundin störf, til að brúa bilið á móti 
úthlutun starfslauna listamanna.
Á undanförnum árum hefur ríkjandi framkvæmd varðandi umsóknarfresti og úthlutun starfslauna listamanna, þ.e. að umsóknarfrestir og úthlutun launa fari fram á síðustu mánuðum ársins fyrir komandi starfsár, sætt aukinni gagnrýni. Ástæðan er sá 
skammi fyrirvari sem listamenn hafa frá því að tilkynnt er um niðurstöður varðandi úthlutun starfslauna. Þegar best lætur líða bara nokkrar vikur frá því niðurstöður 
liggja fyrir og þar til starfsárið hefst. Stutt er síðan listamenn þurftu að bíða niðurstöðu þar til töluvert var liðið á starfsárið. Erfitt er að sjá fyrir sér að slíkt liðist annars staðar á vinnumarkaði.

Ríkjandi framkvæmd magnar upp ófyrirsjáanleika í starfsumhverfi hjá stétt sem 
þegar býr við ótryggar og óstöðugar tekjur. Sem dæmi má nefna að aðilar sem vinna hlutastörf eða tímabundin störf meðfram listsköpun, geta þurft að breyta sínum högum með litlum fyrirvara þegar ákvörðun um starfslaun liggur fyrir. Að sama skapi þurfa listamenn að bíða alveg fram á lokametra hvers árs, til að vita hvort þeir geti sinnt listsköpun á fullum krafti eftir áramót.

Stjórn Bandalags íslenskra listamanna lýsir því yfir fullum og eindrægnum stuðningi við að ríkjandi framkvæmd verði breytt. Að mati stjórnar BÍL væri æskilegast að 
tímafresti vegna umsókna fyrir starfslaun listamanna yrði breytt og hann færður til vors, þannig að úthlutun færi fram í byrjun júní vegna komandi starfsárs. Með þeim hætti er hægt að auka fyrirsjáanleika í tengslum við starfslaun listamanna, og 
listamenn hefðu ráðrými til að undirbúa starfsárið framundan.

Stjórn BÍL hvetur stjórnvöld almennt til að beita sér fyrir stöðugu, hagkvæmu og 
skilvirku starfsumhverfi fyrir listamenn. Tilkynning um úthlutun listamannalauna í 
byrjun júní væri mikilvæg aðgerð til að skapa nauðsynlega festu, fyrirsjáanleika og traust innan opinbera stoðkerfisins við listgreinar hér á landi.