3. júní var haldinn kynningarfundur hjá Útflutningsráði á viðskiptatækifærum í Kanada, en aukinn áhugi á þeim felst m.a. í því að fríverslunarsamningur milli Kanada og EFTA ríkjanna gengur í gildi 1. júlí næstkomandi.
Á fundinum var meðal annars vitnað í athugun sem gerð hefur verið á vegum Iceland Naturally á því hvaða afurðir Kanadamenn tengja við Ísland. Fiskur var þar vitaskuld efstur á blaði, en raunar kom á óvart að tónlistin lenti í 30% og kvikmyndirnar í 9%. Lambakjötið víðfræga hlaut ekki nema 12%. Þegar spurt var um áhuga fólks á afurðunum hlaut tónlistin 20% og kvikmyndirnar 14%.
Eflaust má rekja þessar jákvæðu niðurstöður til listkynninga ýmiskonar, einkum þá sem undanfarin þrjú ár hefur verið haldin í Manitoba. Íslenskir tónlistarmenn hafa farið víða um Kanada við góðan orðstír. Auk þess eru íslenskar kvikmyndir fastir liðir á dagskrám kvikmyndahátíða, í Toronto, Montreal, Vancouver – og svo þeirri alhuggulegustu: í Gimli.
Vafalaust er hér komin góð ástæða til að auka samskiptin við Kanada. Útflutningur á íslenskum vörum mun örugglega aukast í kjölfar fríverslunarsamningsins. Íslensk list gæti sömuleiðis notið góðs af samningnum.