Stjórn BÍL átti fund með borgarstjóra, menningar- og ferðamálaráði og nokkrum embættismönnum borgarinnar í Höfða, fimmtudaginn 28. maí sl. Meginumræðuefni fundarins var menningarstefna borgarinnar, sem fyrr um daginn var samþykkt af menningar- og ferðamálaráði, en á eftir að fara fyrir borgarráð til samþykktar.

Almennt lýstu fundarmenn yfir ánægju með stefnuna og töldu hana betrumbót frá fyrri stefnu, sem hafi verið of loðin og ómarkviss. Með nýju stefnunni fylgir aðgerðaáætlun þar sem sérstaklega er tilgreint hvaða svið borgarinnar hafi hinar ýmsu umbætur á sinni könnu og raunar útlistað að nokkru hvernig markmiðum stefnunnar skuli náð.

Að venju komu ýmsar óskir listamanna upp á borðið, rithöfundar lýstu yfir áhuga á að Reykjavík verði „bókmenntaborg“, eins og til tals hefur komið, kvikmyndamenn sögðu frá tilraunum við að stofna kvikmyndaþorp í húsum O. Johnson og Kaaber, myndlistarfólk ræddi um þörfina á ódýrri aðstöðu fyrir listamenn, einkum á Korpúlfsstöðum, og margt margt fleira.

Að vonum var efnahagshrunið ekki langt undan í umræðunni, og töldu margir formennirnir að hún hefði þegar bitnað illa á listafólki. Víða hafi listkennsla snarminnkað í skólum, auk þess sem skrúfað hafi verið fyrir heimsóknir listamanna og kynningar á borð við Skáld í skólum og Litróf listanna. Almennt væri verkefnastaða listamanna bágborin, ekki síst þeirra sem áður reiddu sig á einkageirann.

Athyglisverð voru orð borgarstjóra um að alvarleg mistök hafi verið gerð í skipulagsmálum borgarinnar og átti þá við byggingarmagnið sem víða var leyft, ennfremur almennt virðingarleysi við þá byggð sem fyrir væri á viðkomandi reitum, og í framhaldi af því var rætt um samstarf arkitekta og myndlistarfólk við opinber mannvirki. Minnt var á áform um að hækka stöðugildi við byggingalistardeild Listasafnsins úr 60 í 100 prósent, en það frestaðist í fyrra í kreppunni.

Í lokin bar forseti BÍL fram ósk um að stjórn BÍL fái að vera með í ráðum við endurskoðun á nýtingu Tónlistar- og ráðstefnuhússins. Borgarstjóri tók vel í það og bað forseta að skrifa sér og menntamálaráðherra formlegt bréf þar að lútandi.