Bretar halda því gjarnan fram að þeirra lotterí sé það árangursríkasta í Evrópu, og ýmislegt bendir til þess að það sé ekki fjarri lagi. Frá upphafi hefur það varið 23 milljörðum punda í “góð málefni”, sem svo kallast, en það reiknast á okkar ótrúlega gengi 4.662 milljarðar íslenskir.

 

Á síðasta ári skiptist féð í stórum dráttum þannig á milli góðu málefnanna:

Heilbrigðismál, menntun, umhverfis- og góðgerðarmál 50%

Íþróttir 16,67%

Listir 16,67%

Þjóðararfur 16,67%

 

Það sem Íslendingum kann að virðast athyglisvert er að þarna standa listirnar jafnfætis íþróttunum. Þjóðararfleifðinni eru gerð sömu skil, enda kostar ekki lítið að halda við höllum og skrúðgörðum, sem síðan skilar sér að einhverju leyti aftur með ferðamannastraumnum.

Á þetta er bent svo að fólki sé ljóst að íslenska fyrirkomulagið, að stærsti hluti lottópeninganna fari í að styrkja íþróttir, telst til undantekninga í okkar heimshluta. Víðast hvar eru þessar tekjur einnig notaðar til að styrkja menningarlífið, bæði innviði þess og einstaka viðburði.

Einn kosturinn við lottóið felst í því að unnt er að bregðast við af örlæti þegar mikið liggur við. Þegar stór átaksefni koma upp getur þessi öflugi sjóður komið að verulegu liði. Í Bretlandi má nefna sem dæmi fyrirhugaða Ólympíuleika, og þar er verið að tala um háar upphæðir. En margvíslegir menningarviðburðir hafa einnig notið góðs af lottóinu, jafnt stórir sem smáir.

Vitaskuld er auðvelt að benda á verðug verkefni innan íþrótta hérlendis, en þau er líka að finna í menningunni. Nefna má bókastefnuna í Frankfurt, þar sem Ísland verður í heiðurssæti árið 2011, nú eða bara Listahátíð, sem hefur misst umtalsverðan stuðning frá einkageiranum, rétt eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það er vissulega rétt að íþróttirnar hafa misst af stuðningi margra fyrirtækja, en það sama má ekki síður segja um menningarmálin. Um árabil var reiknað með því að einkageirinn sæi um vöxtinn í ýmsum listgreinum, og líklega er þar að finna ástæðu þess að víða stillti ríkisvaldið hækkunum á framlagi sínu í hóf á meðan best áraði. Með hruninu fór botninn úr þessu annars ágæta fyrirkomulagi, rétt eins og það gerði hjá fleiri aðilum, m.a. íþróttahreyfingunni.

Kannski það sé ekki svo ósanngjarnt að hafa þessa helmingaskiptingu á milli íþrótta og lista, þegar kemur að lottóinu. Það virðist gefast vel í Bretlandi. Því ekki líka hér á Íslandi? Öfugt við Íslendinga eru Bretar ófeimnir að upplýsa í hvað peningarnir fara og nota það stöðugt í auglýsingum fyrir lottóið. Áður en dráttur fer fram eru kynnt málefni sem notið hafa stuðnings, og er þar af ýmsu að taka. Þeir sem unna listum og menningu vita að þeirra hugðarefni njóta góðs af þessari starfsemi ekki síður en þeir sem unna íþróttunum. Og það held ég að efli þessa fjáröflunaraðferð og eigi sinn þátt í vinsældum hennar og velgengni í Bretlandi.

 

Birtist í Fréttablaðinu 16.12 2009