Bandalag íslenskra listamanna eru heildarsamtök allra félaga listamanna á Íslandi. BÍL hefur samningsbundið hlutverk við Menningarmálaráðuneytið um ráðgjöf til þess um svið málaflokks menningar og lista. Því leggur BÍL fram þessa umsögn um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og fjármálaáætlun 2022–2026.

Fjármálaáætlun

Það er flókið að setja saman aðskilda umsögn um fjármáaáætlun og fjármálafrumvarp því nú í annað sinn á skömmum tíma eru áætlunin og fjárlagafrumvarpið lögð fram samtímis, auk þess sem í þessari fjármálaáætlun 2022–2026 eru engar umfjallanir um málflokka, heldur vísað í eldri fjármálaáætlun þar um. Frá því að sá texti var settur saman, um áherslur í málaflokkum lista og menningar, hafa síðan farið fram alþingiskosningar, ný ríkistjórn mynduð og lagður fram nýr stjórnarsáttmáli, sem mun því líklega teljast áreiðanlegra plagg til að leggja til grundvallar umfjöllunar um áherslur í málflokknum  heldur en eldri texti fjármálaáætlunar.

Samtölur málaflokksins eru þó þess eðlis að þar má greina hver áhersla stjórnvalda er samanborið við aðra málaflokka, sem og hvort stjórnvöld hugsi sér að bæta í eða draga úr. Það eru váleg tíðindi í framtíðarsýn þessara talna, því í fjámálaáætlun 2022–2026 dregst málaflokkurinn saman um tæplega 17% samanborið við framlög til málaflokksins 2021.

Fjárlagafrumvarp 2022

Þessi fjárlög eru lögð fram við sérstakar aðstæður. Enn erum við að takast á við samkomutakmarkanir og flókin skilyrði skemmtana og samkomuhalds sem, eins og kunnugt er, hafa skert starfsumhverfi listamanna gríðarlega undanfarin tvö ár. Hinsvegar erum við komin með nýja ríkisstjórn með nýjan sáttmála með fyrirheitum um vöxt og velsæld byggða á vísindum, þekkingu, hugverkadrifnu starfsumhverfi og skapandi greinum.

Í ljósi þeirra staðreynda er framsetning fjárlagafrumvarpsins ekki í neinu samræmi við annarsvegar veruleika umhverfis menningar og listsköpunar, né fyrirheit stjórnarsáttmálans. Það er eins og gamlar reiknireglur fjárlagavinnunar hafi verið endurræstar án nokkurs mats á umhverfinu, gagnrýnislaus niðurfelling þeirra viðbóta sem í sjóð menningar og listsköpunar komu er niðurstaðan og henni fylgir síðan aðhaldskrafa á alla verkefnasjóði listgreina, sem er í sjálfu sér sérstök hugmynd, að setja aðhaldskröfur á sjóði sem hafa engan rekstur umfram útlutanir til verkefna.

Málalið 18 í fjárlögum, menning og listsköpun, er skipt upp í safnamál, stofnanir og sjóði. í þessari umsögn horfir BÍL á sjóðina sérstaklega, stofnanir hins opinbera eru fullfærar að bera hönd fyrir höfuð sér, en eins og vænta má eru þær flestar að fara í gegnum erfiða tíma með algjöru hruni í sjálfsaflafé. Það finna listamenn líka á eigin skinni, því mikið af starfsemi stofnanana  er grunnur starfa sjálfstætt starfandi listamanna.

Nágrannaþjóðir okkar hafa flestar lagt fram aukið fjármagn til menningar og listköpunar á undanförnum tveimur árum til að halda sjó, en einnig til að milda högg tekjutapsins sem óhjákvæmilega hefur hæft listamenn illilega. Það höfum við líka gert með auknum framlögum til verkefnasjóðanna og starfslauna. Ólíkt okkur, hafa aðrar Norðurlandaþjóðir, t.d. Danir, svo í kjölfar þessara hamfara lagt aukið fjármagn í málflokkinn í sínum fjárlögum, til að byggja upp umhverfið eftir áföllin (kulturpolitik 2021),  með það fyrir augum að endurreisa innviði og ekki síður til að tryggja að til staðar sé öflugt umhverfi listsköpunar og menningarlífs fyrir samfélagið til að njóta og halla sér að þegar stigið er út úr kófinu. Þetta er ákaflega mikilvægt og lýsir skilningi á hlutverki listarinnar í bata samfélags eftir slík áföll.

Listamenn eru búnir að margítreka vanda einyrkja í atvinnutryggingkerfinuu, og sá vandi er ekki bundin við Ísland (OECD,2020).  Það hlýtur að vera eitt af verkefnum núverandi ríkisstjórnar að finna leiðir til að tryggja einyrkjum sömu réttindi og annarra á vinnumarkaði en á meðan, og í ljósi ástandsins, verður að leiðrétta þennan niðurskurð á sjóðunum sem nemur einum milljarði frá árinu 2020.

Við fórum þá leið að færa fjármagn inn í þessa sjóði til að styðja við listsköpun og menningarstarfsemi þann tíma sem við vorum að fara í gegn um ástandið, og sem við vorum að vona að myndi ljúka á skemmri tíma en raunin er, og það er einfaldast að nota þá sjóði áfram til að brúa þetta tímabil sem við þurfum til að koma hjólum samfélagsins í gang og byggja okkur upp sem lifandi og skapandi samfélag. Það er ekki gefið eftir áfall sem þetta að það gerist bara að sjálfu sér, til þess þarf pólitískar ákvarðanir.

Starfslaunasjóðurinn

Efnisatriði stjórnarsáttmálans mættu að öðru leiti birtast með skýrari hætti í fjárlagafrumvarpinu. Þar er kveðið á um eflingu starfsalunasjóðsins en hann hefur rýrnað verulega sem hlutfall af umhverfi listarinnar, en er þó mikilvægasti þátturinn í starfsumhverfi flestra listgreina. Í dag úthlutar sjóðurinn 1.600 mánuðum, en til að ná svipuðum árangri og við upphaf síðustu lagabreytinga sjóðsins 2009, þyrfti hann að vera 2.700 mánuðir. Upphæð starfslaunanna í dag er verktakagreiðsla upp á 410.000 kr. og kaupmáttur þeirrra hefur dregis aftur úr almennri launaþróun um 40 % á síðastliðnum 10 árum. (BHM,2021)

Til er vinna innan ráðuneytisins menningarmála með tillögum að eflingu sjóðsins og það þarf að hrinda henni í framkvæmd strax í upphafi þessa kjörtímabils.

Tryggja þarf Barnamenningarsjóði áframhaldandi fjármagn og búa þarf til rými í fjármálaáætlun fyrir komandi Þjóðaróperu. Hrinda þarf í framkvæmd stefnum í öllum listgreinum með eflingu miðstöðvanna og skýru hlutverki þeirra í samtali við stjórnsýslu menningarmála. Þetta eru mörg verkefni sem bíða okkar á næsta kjörtímabili og það þarf að huga að því í næstu umferð fjármálaætlunar.

Að lokum

Það er margt framundan í eflingu menningar og listsköpunar í landinu, sé það raunverulegt markmið að byggja hér upp þá framtíð sem kynnt er í stjórnarsáttmálanum, en fyrst þarf að leiðrétta það högg sem birtist í niðurskurði sjóðanna á sama tíma og allar listgreinar glíma enn við flókið og skert starfsumhverfi.

Virðingarfyllst

Erling Jóhannesson

Forseti Bandalags íslenkra listamanna

 

https://kulturmonitor.dk/kulturpolitik/art8513901/Finansloven-2022-pr%C3%A6senterer-nye-satsninger-p%C3%A5-kulturomr%C3%A5det

https://www.oecd.org/coronavirus/policy-responses/culture-shock-covid-19-and-the-cultural-and-creative-sectors-08da9e0e/

https://www.bhm.is/media/skyrslur-og-greiningar/Greining-051021.pdf