Stjórn Bandalags íslenskra listamanna starf og trúnaðarstörf
Sjórn Bandalags íslenskra listamanna hélt 10 stjórnarfundi á árinu. Stjórn BÍL er skipuð formönnum aðildarfélaga bandalagsins. Eftirtalin skipuðu stjórn BÍL í umboði síns félags á árinu og í kjölfarið er listi þeirra einstaklinga sem sinntu trúnaðarstörfum fyrir Bandalagið á liðnu ári.
Karl Kvaran, formaður Arkitektafélags Íslands – AÍ (tók við af Helga Steinari Helgasyni í upphafi árs)
Katrín Gunnarsdóttir, formaður Danshöfundafélags Íslands – DFÍ
Varamaður: Katrín Ingvadóttir / Tinna Grétarsdóttir
Gunnar Hrafnsson, formaður Félgs íslenskra hljómlistamanna –FÍH
Birna Hafstein, formaður Félags íslenskra leikara – FÍL
Irma Gunnarsdóttir, formaður Félags íslenskra listdansara – FÍLD
Varamaður: Guðmundur Helgason / Anna Norðdahl
Hallveig Rúnarsdóttir, formaður Félags íslenskra tónlistarmanna – FÍT (tók við af Hlín Pétursdóttur Behrens á vormánuðum)
Sigríður Rósa Bjarnadóttir, formaður Félags kvikmyndagerðarmanna – FK (tók við af Fahad Jabali á miðju ári)
Varamenn: Anna Þóra Steinþórsdóttir / Jóhannes Tryggvason
Margrét Örnólfsdóttir, formaður Félag leikskálda og handritshöfunda – FLH
Varamaður: Huldar Breiðfjörð
Bragi Valdimar Skúlason, formaður Félag tónskálda og textahöfunda – FTT
Karl Ágúst Úlfsson, formaður Rithöfundasambands Íslands – RSÍ
Varamaður: Vilborg Davíðsdóttir
Anna Eyjólfsdóttir, formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna – SÍM
Varamaður: Starkaður Sigurðsson
Dagur Kári Pétursson, formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra – SKL
Varamaður: Ása Helga Hjörleifsdóttir
Þórunn Gréta Sigurðardóttir, formaður Tónskáldafélags Íslands – TÍ
Varamaður: Þuríður Jónsdóttir
Kolbrún Halldórsdóttir, formaður Félags leikstjóra á Íslandi – FLÍ (tók við af Páli Baldvini Baldvinssyni á haustmánuðum)
Rebekka Ingimundardóttir, formaður Félag leikmynda og búningahöfunda – FLB
Margrét Örnólfsdóttir hefur gengt starfi ritara stjórnar, Gunnar Hrafnsson hefur sinnt stöðu gjaldkera. Lúðvík Júlíusson hefur séð um bókhald Bandalagsins og endurskoðandi er Helga Þorsteinsdóttir. Skoðunarmenn reikninga 2019 voru Ragnheiður Tryggvadóttir og Guðmundur Helgason.
Fulltrúar BÍL í nefndum og ráðum (janúar 2020)
Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Rvk.
Áheyrnarfulltrúi: Erling Jóhannesson
Varamaður: Anna Eyjólfsdóttir
Fulltrúar BÍL í faghópi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs
Formaður: Pétur Grétarsson, tónlistarmaður
Varamaður: Helga Þórarinsdóttir, tónlistarmaður
Magnús Þór Þorbergsson, sviðslistamaður
Varamaður: María Ellingssen, leikari/leikstjóri
Sólveig Pálsdóttir, rithöfundur
Varamaður: Sigurlín Bjarney Gísladóttir, rithöfundur
Sigtryggur Baldvinsson, myndlistarmaður
Varamaður: Ástríður Magnúsdóttir, myndlistarmaður
Kvikmyndaráð
Bergsteinn Björgúlfsson – 29.11.19–29.11.23
Varamaður: Sigríður Rósa Bjarnadóttir
Fulltrúaráð Listahátíðar
Erling Jóhannesson
Stjórn listamannalauna
Hlynur Helgason
Varamaður: Hlín Gunnarsdóttir
Stjórn Skaftfells
Anna Eyjólfsdóttir
Varamaður: Erling Jóhannesson
Fagráð Íslandsstofu
Erling Jóhannesson
List án landamæra
Margrét Pétursdóttir
Listráð Hörpu
Ásmundur Jónsson
Umsagnarnefnd vegna heiðurslauna Alþingis
Páll Baldvin Baldvinsson – 09.10.17
Varamaður: Þórunn Gréta Sigurðardóttir
Höfundarréttarráð
Erling Jóhannesson – 01.08.18–01.08.22
Sérfræðinganefnd KKN
Signý Pálsdóttir (verkefni) jan. 2017–jan. 2020
Sigtryggur Magnason (ferðastyrkir) jan. 2017–jan. 2020
Stjórn Barnamenningarsjóðs
Áslaug Jónsdóttir
Varamaður: Erling Jóhannesson
Starfshópur um málverkafalsanir
Jón B. Kjartanss. Ransu – okt. 2014
Varamaður: Kolbrún Halldórsdóttir
Samstarfshópur um sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins
Erling Jóhannesson
List fyrir alla – samráðshópur
Hildur Steinþórsdóttir
Felix Bergsson
List fyrir alla – valnefnd
Agnes Wild – vor 2017
Áslaug Jónsdóttir
Varamaður: Benedikt Hermannsson
Austurbrú – fagráð menningar
Hlín Pétursdóttur Behrens – maí 2019.
Menningarsjóður Guðjóns Samúelssonar
Erling Jóhannesson
Nordisk kunstnerrad
Erling Jóhannesson
Starfsemi stjórnar
Stjórnin hélt 10 stjórnarfundi á árinu 2019. Flestir fundir stjórnar eru haldnir í Iðnó en stjórn hefur á þessum vetri haldið reglulega fundi „heima í héraði“ mismunandi aðildarfélaga. Það gefur félögunum bæði tækifæri á kynnast starfsemi einstakra félaga betur og eins að sjá hvernig félögin hafa byggt upp starfsumhverfi sitt og við hvað þau eru að fást frá degi til dags.
Einn stjórnarfundur var opinn fundur þar sem farið var yfir, þá nýsamþykkta, tilskipun Evrópusambandsins um breytingar á höfundaréttarlögum. Á fundinn var boðið bæði sérfræðingi í höfundarétti og fulltrúum stjórnmálaflokka, bæði þeim sem höfðu lýst yfir ánægju með niðurstöðu Evrópusambandsins sem og fulltrúum flokka sem lýst höfðu yfir andstöðu og því að þeir myndu leggjast í málþóf ef og þegar tilskipunin yrði innleidd. Þetta mál hefur verið mikið báráttumál ýmissa félaga sem fara með höfundarétt sinna félagsmanna og því mikilvægur áfangi. Áhyggjur pólitískra flokka sem fullyrða að þetta muni hamla lýðræðislegri umræðu eða jafnvel þrengja að málfrelsi, vísa listamenn til föðurhúsanna – að greiða fyrir afnot af höfundavörðu efni listamanna er jafnsjálfsögð krafa og að greitt sé gjald fyrir afnot af auðlindum, og stjórnmálhreyfingar sem berjast fyrir sjálfsögðu auðlindagjaldi en gegn jafnsjálfsögðum höfundréttargreiðslum geta ekki talist trúveðug eða samkvæmar sjálfum sér. Almennt er það áhugi forseta að opnir fundir stjórnar um ýmis mál megi vera fleiri og tíðari.
Einn opinn fundur var í samstarfi við Rannís um sjóðakerfi Evrópu, Creative Europe. Listþing stóð til að halda í haust en vegna skipulags og tímaskorts frummælenda frestaðist það fram yfir áramót og verður því af þessum sökum gerð skil að ári. Æskilegt væri að haustþing væri á hverju ári, þau mega vissulega vera misumfangsmikil en fullt tilefni er til að hittast öll reglulega og hlusta hvert á annað.
Unnið hefur verið að því að útbúa starfsreglur stjórnar og er þeirri vinnu að ljúka núna þessa dagana. Það er gert til að skýra hlutverk bæði stjórnar og ekki síður forseta, svo umboð hans sé skýrara og styrkara. Það var á starfsáætlun síðasta árs að skýra verksvið stjórnar og forseta svo ákvarðanir og gjörðir forseta hvíldu á tryggara umboði.
Samtal við ríkisvaldið
Samtal við ríkisvaldið er vissulega fyrirferðamesta verkefni BÍL og snýst um margþætta hluti, bæði á vettvangi samráðsgáttar og beint samtal við ráðuneyti menningarmála um hvaðeina sem lýtur að umhverfi listgreinanna. BÍL skilar inn umsögnum um fjámálaáætlun og fjárlagafrumvarp og í umsögnum um bæði þessi lykilverkfæri stjórnsýslunnar hamrar Bandalagið á grunnþætti starsfumhverfis listamanna sem er starfslaunaumhverfið. Starfslaunin eru grunnþáttur í launa- og starfskjörum sjálfstætt starfandi listamanna. Kjörin sem starfslaunin mynda eru ekki eingöngu talningin á krónunum sem detta í vasa þeirra sem hljóta náð fyrir augum úthlutunarnefnda, heldur eru þessi kjör nánast eins og glerþak yfir öllum samningum við listamenn. Jafnvel stofnanir sem heyra beint undir rekstur hins opinbera hika ekki við að bjóða listamönnum upp á kjör starfslaunaumhverfisins, því er gríðarlega mikilvægt að brjóta þetta glerþak.
Í lok árs var samráðsfundur stjórnar BÍL og ráðherra. Á fundinum lagði BÍL fram skjal sem byggði á vinnu stjórnar frá hausti 2018 um eflingu starfsalauna og verkefnasjóða. Þetta var meginmál fundarins, en stjórnin hafði sammælst um að leggja mestan þunga á þessi mál. Niðurstaða fundarins varð að ráðuneytið skyldi hefja vinnu við að efla, í fyrstu umferð, starfslaunin og starfshópi með fulltrúum BÍL og embættismönnum ráðuneytisins falið að leggja fram tilllögur á grunni forvinnu BÍL. Sú vinna er núna í gangi.
Önnur mál sem tekin voru upp við ráðherra og vert að velta vöngum yfir voru t.d. keðjuábyrgð stofnana og sjóða sem njóta opinbers fjármagns, s.s. eins og RÚV, sem útvistar verkefnum og brýtur svo samninga á listamönnum með því að gangast ekki við ábyrgð á samningum verktaka sinna. Þetta er alþekkt aðferð og orðin æ algengari við framleiðslu menningarefnis. Sambærilegt er að FÍL hefur kallað eftir ábyrgð Reykjavíkurborgar í samningum við dansara við Borgarleikhúsið, en þar vísar borgin á Leikfélag Reykjavíkur. Er það krafa allra listamanna að stofnanir og verkefni sem að svo stórum hluta eru fjármögnuð af opinberu fé virði samninga. Á nýafstöðnum formannafundi norrænna systursamtaka okkar kom fram að þessi aðferðarfræði er ekki bundin við Ísland. Föstum samningum listamanna við stofnanir hefur fækkað verulega, lausir samningar og tímabundnar ráðningar eru orðnar mun algengari með tilheyrandi upplausn í samningum og réttindum.
Listdansnám hefur verið í upplausn vegna skorts á lagaramma utan um framkvæmd þess. Fjármagnið sem listdansskólarnir fá frá ráðuneytinu vegna samninga um dansnám á framhaldsskólastiginu ber uppi rekstur þeirra að mestu leyti, og gerir þeim kleift að halda úti grunnnáminu. Verði breyting á því fyrirkomulagi er grunnnámið í hættu og framtíð dansnáms gæti bókstaflega fjarað út. Unnið er, í samtali skólana og ráðuneytisins, að lausn á þessu. Á sama tíma varð Dansverkstæði að veruleika og hefur íslenskur listdans með því eignast vísan samastað, ánægjulegur áfangi og sú uppbygging, ásamt vonandi lausn álistdansnáminu, mun verða listdansi á Íslandi mikil lyftistöng, svo ekki sé talað um ef fljótlega verður farið að huga að danshúsi.
Málefni Listskreytingasjóðs hefur valdið listamönnum og þá sérstaklega myndlistarmönnum þykkju og þunga. Í síðustu fjárlögum var framlag til Listskreytingasjóðs þurrkað út. Vægast sagt vanhugsuð hugmynd og lítilsvirðing við stóran hluta myndlistararfs þjóðarinnar. BÍL mótmælti þessu í erindum til ráðuneytisins og í umsögnum. Hafi það verið hugmynd ráðuneytisins að breyta fyrirkomulagi Listskreytingasjóðs um innkaup á myndlist í opinberar stofnanir þá þarf að gera það með einhverjum hætti, í það minnsta þarf ríkið að hafa skilningi á eigin fyrirkomulagi. Því við þessa útstrikun á fjárlögum var á einu augabragði eitt stærsta listaverkasafn þjóðarinnar eftirlits- og umsýslulaust. Listaverk sem eru í eigu ríkisins og í umsýslu sjóðsins hanga í mörgum stofnunum víða um landið og í fórum þess má finna verk eftir helstu myndlistarmenn þjóðarinnar áratugi aftur í tímann. Þessi umgengni er vanvirðing og niðurlægjandi. SÍM og ráðuneytið hafa náð saman um að fjármagna í það minnsta umsýslu og skráningu.
Samráðsgátt og umsagnir
Að viðbættum umsögnum um fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp veitti BÍL umsagnir um nokkurn fjölda mála á árinu 2019. Varðandi mál sem koma beint að starfsumhverfi listamanna hefur það verið vinnuregla að vera í nánu samtali við þá listgrein sem mest á undir í viðkomandi lagabreytingum, s.s eins og við endurskoðun sviðslistalaga sem samþykkt voru nýlega og eða frumvarp um bókaútgáfu og frumvarp til þingsályktunar um eflingu íslenskunnar. Í grunninn er útgangspunktur BÍL að verja hagsmuni listamanna í viðkomandi frumvörpum sem og að standa vörð um orðfæri og stöðu listarinnar. Þessar umsagnir eru aðgengilegar á vef Alþingis. Það er tilefni til að benda á að t.d. í tilfelli þingsályktunar um eflingu íslenskunnar er sneitt fram hjá listrænni og skapandi umgengi við tungumálið. Þrátt fyrir ábendingu frá BÍL var engu breytt í þeim texta en áhersla ályktunarinnar er að ungt fólk þurfi að ná tökum á lestri á skýrslum og rannsóknartextum og færni í stofnanamáli. Á meðan við vitum að lifandi tunga snýst um að hafa vald á fjölbreytileika tungumálsins og íslenskunni sem skapandi verkfæri – að færa allan skilning svona upp að yfirborði tungumálsins grynnkar skilning og gerir tungumálið fátæklegra. Þetta er eitt lítið dæmi um þá baráttu sem listamenn verða sífellt að heyja.
Miðstöð menningarmála
Í upphafi síðasta árs skipaði Menningar- og menntamálaráðherra starfshóp um stofnun Miðstöðvar menningarmála. Eins og fram kom á aðalfundi 2019 þurfti BÍL að beita sér til að fá aðgang að þeirri vinnu. Á þeim tímapunkti stóð til að kanna grundvöll fyrir stofnun miðstöðvar menningar og listgreina, en nálgunin var framhald af hugmyndum um sameiningu kynningarmiðstöðva. Svo yfirgripsmikil stofnun getur ekki verið framkvæmd út frá þröngu sjónarhorni kynningarmiðstöðva og fékk BÍL hópinn stækkaðann til þess að fá víðara sjónarhorn á þessa stofnun eða miðstöð. Í upphafi var kannski ekki alveg ljóst hvert þessi vinna myndi leiða. Niðurstaða vinnunar var síðan kynnt ráðherra síðastliðið haust og þar kom skýrt fram að stofnun sem þessi væri gríðarlega yfirgripsmikil, starf nefndarinnar dró upp mynd af stórum málflokki – sem ef vel ætti að vera krefðist sjálfstæðs ráðuneytis. Útfærsla þessarar stofnunar komst ekki lengra í bili, en þessi vinna skilaði ágætri yfirsýn og hefur verði samtalinu um skipan menningarmála mjög gagnleg. Það er hægt að merkja meiri skilning á þeim fjölbreytileika sem umhverfi listarinnar og menningin endurspeglar. Skilningur á því að akurinn sé víðáttumeiri og fjölbreyttari en svo að hægt sé með einföldum hætti að steypa allt umhverfið í stjórnsýslulegt mót með ákvörðunum ofan frá. Þegar að því kemur að menning og listir eignast sitt sjálfstæða ráðuneyti þarf það að vaxa upp frá grunninum, vera endurspeglun á þessu skapandi umhverfi sem er auðlind framtíðarinnar – grundvöllur atvinnulífs í sjálfbærum samfélögum framtíðarinnar.
Það sem eftir stendur af ákvörðunum í kjölfar þessarar vinnu um miðstöð menningarmála, og komið er í framkvæmd, er starfshópur um eflingu og endurskoðun starfslauna. Einnig er á borði ráðuneytisins hugmynd um samstarfsvettvang skapandi greina sem er hugmynd um vettvang atvinnulífs og skapandi greina. Ekki er vitað á þessari stundu hvernig það verkefni er hugsað.
En aðeins um form samtalsins við hið opinbera. Þetta reynir oft á þolrifin og virkar seint og þungt í vöfum. Við búum við kerfi þar sem búið er að koma fyrir dreka á gullforðanum sem gegnir nafninu LOF, sem er stytting á Lög um opinber fjármál. þessum dreka verður ekki haggað nema eftir mjög fyrirfram skýrum leikreglum. Jafn mikilvægt og það er að kunna skil á þeim leikreglum, þá er ekki síður mikilvægt að vernda orðfæri listarinnar og skapa því stöðu sem sjálfsögðu verkfæri í umhverfi stjórnsýslunnar. Það er jú fyrir listina sem við erum að berjast.
Reykjavíkurborg
Eins og oft hefur komið fram hefur samtal borgarinnar og listamanna verið með miklum ágætum. BÍL hefur þó ítrekað haldið fram þeirri kröfu að fá aftur tvo áheyrnarfulltrúa í Menningar- íþrótta- og tómstundaráði sem var fyrirkomulag síðastu kjörtímabila. Þessari kröfu hefur verið fylgt eftir á samráðsfundum og í erindum inn á borð nefndarinnar.
Borgarstjóri og forseti BÍL undirrituðu nýjan samstarfssamning til þriggja ára á vormánuðum á sömu nótum áður. Ekki hefur tekist að fá upphæðina hækkaða á samningnum umfram vísitölu.
Samráðsfundur var haldinn með borginni og stjórn BÍL að venju í Höfða 4. desember. Þar reifaði stjórn BÍL þau atriði sem á umhverfi listanna hvíla. Fyrirkomulag úthlutana er til mikillar fyrirmyndar hjá Reykjavíkurborg, þar sem BÍL skipar faghópinn sem fer með ráðgefndi hlutverk um úthlutun styrkja til verkefna, fyrirkomulag sem nýtur trausts þvert á pólitískar línur. Auglýst var eftir umsóknum í Borgarhátíðarsjóð og nefnd skipuð til að fara yfir þær umsóknir. Í upphafi var ekki hægt að skilja það upplegg öðruvísi en svo að faghópur BÍL hefði ábyrgð á því verkefni en þegar til kom varð sú nefnd skipuð pólitískum fulltrúum, fulltrúa verslunar og þjónustu, fulltrúa ferðaþjónustunnar og svo einum fulltrúa BÍL. Það er full ástæða til að hafa af þessu nokkrar áhyggjur því þær hátíðir sem sækja um að fá stöðu sem borgarhátíðir eru nánast undantekningarlaust menningar- og listahátíðir. Áhyggjur segi ég, því þetta snýst um trúverðugleika borgarinnar sem menningarborgar – verði sjónarmið verslunar og ferðamennsku að mælikvarða fyrir gildi listahátíða er hætta á því að trúverðugleiki borgarinnar sem raunverulegs suðupottar listsköpunar þynnist út.
BÍL lagði áherslu á endurnýjun menningarstefnu borgarinnar. Menningarstefna Reykjavíkurborgar, sem rennur út á þessu ári, hefur reynst gott verkfæri í samskiptum og samtali listamanna og embættismanna. BÍL lýsti yfir ánægju með þessa framsetningu menningarstefnunnar og framkvæmdaáætlunar sem byggir á henni. Menningarstefnan er hugmyndafræðilegri, fyrir vikið langlífari og nokkurskonar manifesto um stöðu listgreina í samfélagsgerðinni. Það væri nánast hægt að framlengja stefnunni með endurskoðun, það er mikilvægt að hún sé í gildi og BÍL lýsti yfir vilja til að taka þátt í því samtali.
Kvikmyndaborgin Reykjavík er kannski öllu fyrirferðameira hugtak þessi misserin en t.d. Bókmenntaborgin eða Tónlistarborgin. Það helgast af því að fyrir dyrum eru Evrópsku kvikmyndaverðlaunin, næstkomandi haust, samstarfsverkefni Menntamálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Það er ástæða til að nefna það að á sama tíma skuli starfsemi Bíó Paradísar vera í hættu vegna húsnæðismála. Bíó Paradís er dæmi um verkefni sem sprottið er af frumkvæði eldhuga í “bransanum”, vettvangur þar sem listsköpun og menning hefur náð að tengja saman ólíka hópa, fyrir utan að verða lykill umhverfis grasrótar íslenskrar kvikmyndagerðar. Menningarumhverfi er mjög viðkvæmt. Þegar við höfum náð ákveðnum árangri á einhverju sviði, lyft gólfinu í einhverri grein er mikilvægt að verja það. Í stærri samfélögum má reikna með því að aðrir geti tekið við keflinu eða fyllt í tómið sem mögulega myndast hætti starfsemi einhverra hluta vegna. En vegna smæðar og hversu árangur er oft bundinn einstaklingum og eldhugum í ákveðnum greinum er hættan meiri og skaðinn getur haft alvarlegri afleiðngar, við verðum því að verja árangur okkar.
Hagtölur
Í stjórnarsáttmála ríkistjórnar var ákvæði um skráningu hagvísa lista og skapandi greina, sem hefur verið mikið baráttumál BÍL til margra ára. Sú vinna er hafin hjá Hagstofu Íslands og eignuðumst við okkar fyrstu opinberu hagtölu síðastliðið haust, um fjölda starfa í listgreinum, beinum og afleiddum. Forseti hefur flaggað hagtölunni við hvert tækifæri eins og stolt foreldri með ungbarnið sitt og fyrstu tönnina. Hagfræðin er gríðarlega gott verkfæri til samtals út fyrir akur okkar listamanna en við vitum að hagtölur mæla eingöngu afleiður listsköpunar. Á samráðsfundum BÍL við Hagstofuna hefur það verið áhersluatriði að greiningin og mælingin nái niður í grunninn – það er einfalt að ná til stofnana, ná utan um sölu og dreyfingu, en til þess að tölurnar séu lýsandi fyrir umhverfið í heild þarf að ná til listsköpunarinnar sjálfrar sem að langmestu leyti er unnin af einyrkjum, utan við strúktúr stofnana og framleiðenda.
Skattlagning höfundagreiðslna
Sá áfangi náðist á síðastliðnu ári að skattlagning höfundréttargreiðslna flokkast hér eftir sem fjármagnstekjur og bera því lægri skatt en almennar tekjur. Barátta sem lengi hefur verið háð og gleðilegur áfangi.
Bakland LHÍ
Stjórn BÍL barst á árinu beiðni um að ganga til liðs við Bakland Listaháskóla Íslands. Að svo stöddu var ákvörðun stjórnar að sitja hjá þar sem flest aðildarfélögin eiga í kjarabaráttu við stjórn skólans og var það álit stjórnar að þarna stönguðust á hagsmunir – að BÍL í umboði aðildarfélaga sinna væri þannig komið beggja vegna borðs. BÍL hefur líka verið þeirrar skoðunar að rekstrarform LHÍ sé bókstaflega rangt! Að eini listaháskólinn á Íslandi skuli vera settur út fyrir garð í samfélagi íslenskra háskóla með allt öðru rekstrarfyrirkomulagi og ríkið hafni með því rekstrarábyrgð íslensks listnáms á háskólastigi.
Lokaorð
Við erum að upplifa nokkuð sérstaka tíma. Í fyrsta sinn er meirihluti landsmanna fylgjandi starfslaunum listamanna, samkvæmt mælingum, og í sumum hópum mælist mikill meirihluti jákvæður í garð listamannalauna. Þetta er vissulega jákvætt fyrir listamenn og störf þeirra eru að verða stærri og sjálfsagðari hlutur í sjálfsmynd þjóðarinnar. Það er vissulega arfleið baráttu frumkvöðla, fyrri kynslóða listamanna sem ruddu braut, menntunar og sjálfsmyndar listarinnar í nýju samfélagi. En við höfum eignast nýja kynslóð sem hefur tekið við keflinu full sjálfstrausts og örlát á listfengi sitt og hefur gefið okkur nýja og sterka rödd í alþjóðlegu umhverfi listarinnar.