Stjórn BÍL átti fund með fjármálaráðerra í dag um málefni lista og menningar. Til grundvallar umræðunni lá minnisblað frá stjórn BÍL:

Í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna er lögð áhersla á að byggja upp innviði samfélagsins; samgöngur, heilbrigðis- og menntakerfi, kraftmikið og samkeppnishæft atvinnulíf fyrir íbúa um land allt. Í mörgu tilliti geta listirnar lagt lið í þeirri uppbyggingu, eins og fram kemur á einum stað í yfirlýsingunni, þar sem segir að þekking, menning, listir, nýsköpun og vísindi skipti sköpum við uppbyggingu atvinnulífs og eflingu lífsgæða. En þetta er eini staðurinn í yfirlýsingunni þar sem listir eru nefndar á nafn. Hins vegar er nokkuð víða fjallað um „skapandi greinar“ en af samhengi textans að ráða virðast listirnar ekki tilheyra því mengi. Samhengið er ævinlega tengt verðmætasköpun og þróun í nýsköpun og hugvitsgreinum. BÍL leggur til við ríkisstjórnina að frekar verði hugað að listunum og hlut þeirra í innviðauppbyggingu komandi missira og lýsir yfir áhuga á að koma að því starfi.

Fjármálaáætlun 2018 – 2022
Í nýrri fjármálaáætlun 2018 – 2022 eru uppi áform um eflingu málaflokksins listir og menning, en upphæðirnar sem ætlaðar eru til þess uppbyggingarstarfs eru ekki í neinu samræmi við fjárþörf stofnana og annarra sem bera uppi starfið í geiranum. BÍL tekur heilshugar undir áformin, en lýsir yfir áhyggjum af því hversu óraunsæ þau virðast út frá fjárhagslegu sjónarmiði. Áformin ganga út á að

– auðvelda öllum landsmönnum, konum og körlum, að njóta menningar og lista
– jafna og bæta aðstöðu til menningar- og listastarfsemi í landinu
– efla stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu með viðeigandi hætti á grundvelli íslenskrar málstefnu
– stuðla að því að íslensk tunga verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags með sérstakri áherslu á máltækniverkefni og í listum og menningarstarfi
– endurskoða stofnana- og stuðningskerfi ríkisins í málefnum menningar og lista
– einfalda stjórnsýslu og efla þjónustu safna, menningarstofnana, miðstöðva listgreina og sjóða á málefnasviðinu og búa þeim hagstæð skilyrði til að sinna verkefnum sínum svo landsmenn og gestir eigi óháð búsetu aðgang að öflugu menningar- og listalífi sem byggir á menningarlegri fjölbreytni
– stuðla enn frekar að því að efla og jafna tækifæri til nýsköpunar innan allra sjóða sem veita styrki til verkefna á sviði menningar og lista, einkum með aðgengi ungs listafólks í huga
– lögð er áhersla á að nýsköpun á sviði menningar og lista búi við hagstæð fjárhagsleg skilyrði og eigi möguleika á að ná til almenning
– greina stöðu og þörf menningarstofnana fyrir húsnæði og búnað og gera áætlun um uppbyggingu
– útfæra og hrinda í framkvæmd ánægjuvog, könnun á nýtingu þeirrar þjónustu sem sótt er til menningarstofnana
– bjóða upp á listviðburði í grunnskólum sem og í menningarhúsum víða um land
– skilgreina árangursvísa og setja viðmið í samráði við hagsmunaaðila
– skapa betri skilyrði fyrir fjölbreytni, nýsköpun og frumkvæði í íslenskum listum og menningu. Umgjörð stuðnings við menningu og listir verður einfölduð með sameiningu og samhæfingu sjóða og stuðningskerfa. Stuðningsumhverfi listafólks verði eins gott og kostur er. Tækifæri til nýsköpunar innan allra listgreina verða jöfnuð og efld með mótun stefnu um skiptingu framlaga til launa- og verkefnasjóða og slíkri stefnu hrint í framkvæmd. Í henni verði staða ungs listafólks, kvenna og karla, í stoðkerfi listanna skoðuð sérstaklega
– efla íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu. Stuðlað verður að því að konur og karlar fái jöfn tækifæri á sviði kvikmyndagerðar. Um stuðning við kvikmyndagerð er m.a. vísað til markmiðs um innlenda dagskrárgerð og framboð af íslensku barna- og menningarefni í málaflokknum fjölmiðlun.

Listi þessi er í ágætum samhljómi við menningarstefnu sem Alþingi samþykkti 2013 og þ.a.l. góður grunnur fyrir aðgerðaáætlun þeirrar stefnu, en slík áætlun hefur aldrei verið unnin. BÍL lýsir yfir áhuga á að taka þátt í vinnu við að semja aðgerðaáætlun til 2022 á grunni þessa vilja ríkisstjórnarinnar. Þeim vilja hefur verið komið á framfæri við mennta- og menningarmálaráðherra.

Skattlagning höfundagreiðslna
Tæp 20 ár eru síðan BÍL sendi stjórnvöldum fyrst bænaskjal um breytingar á skattlagningu höfundagreiðslna, sem miðuðu við að slíkar greiðslur fengju sambærilega skattalega meðferð og fjármagnstekjur, enda um sambærilegar greiðslur að ræða. Í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna er áhersla lögð á sanngjarnt skattaumhverfi og í stefnuskrá flokks fjármálaráðherra er þetta atriði sérstaklega tíundað. Mikilvægt er fyrir BÍL að vita hvort ráðherra muni beita sér fyrir því að þessi áratuga gamla krafa listafólks verði loksins að veruleika.

Skapandi greinar – Sýn til framtíðar
Starfshópur á vegum þriggja ráðuneyta (mennta- og menningar, atvinnuvega- og nýsköpunar og utanríkis) skilaði skýrslu til stjórnvalda 2012 með áætlun um aðgerðir til eflingar listum og skapandi greinum. Enn hafa stjórnvöld ekki brugðist formlega við tillögum skýrslunnar, þrátt fyrir tilraunir BÍL til að halda stjórnvöldum við efnið. Skýrslan er aðgengileg á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis: https://www.menntamalaraduneyti.is/media/MRN-pdf/Skapandi-greinar-syn-til-framtidar.pdf

Það sem mikilvægast er að hrinda í framkvæmd af tillögum skýrslunnar er skráning tölfræði lista og menningar, en þar erum við miklir eftirbátar nágrannalandanna og sú tölfræði sem birt er í alþjóðlegum samanburði er fullkomlega ómarktæk hvað Ísland varðar. BÍL leggur mikla áherslu á að þarna verði gripið til aðgerða sem feli í sér faglega skráningu tölfræði greinanna, enda er slíkt grundvöllur rannsókna um hinn skapandi geira.

List- og menningargeirinn undirfjármagnaður
Eins og fram kemur í umsögn BÍL um frumvarp til fjárlaga 2017 þá er list- og menningartengd starfsemi, sem rekin er af ríkinu eða reiðir sig á fjármuni úr opinberum sjóðum, stórlega undirfjármögnuð: https://bil.is/fjarlagafrumvarpid-2017-umsogn-bil

Eftir niðurskurð í kjölfar hrunsins hefur verið farið í markvissar aðgerðir til að endurheimta fyrri styrk opinberrar starsemi almennt, í þeim aðgerðum hefur list- og menningargeirinn setið eftir. Stjórnvöld hafa gengist við því að opinber framlög til lista og menningar hafi rýrnað um 20% við hrunið og fullyrðingar geirans um að sá niðurskurður hafi ekki verið bættur hafa ekki verið hraktar. Þó verður að hafa þann vara á að talnaefni um þróun framlaga til einstakra liða og samanburður milli ára er af skornum skammti. Það er ósk BÍL að stjórnvöld bregðist við þessum málefnanlegu athugasemdum um undirfjármögnun með formlegum hætti og geri markvisst átak í að leiðrétta hlut list- og menningartengdrar starfsemi í fjárlögum næstu ára.

Húsnæðismál Listaháskóla Íslands
BÍL hefur áhyggjur af stöðu húsnæðismála Listaháskóla Íslands og hefur ályktað um þá stöðu árum saman. Nú hafa mál þróast þannig að húsnæði tónlistardeildar skólans hefur verið lokað vegna raka og myglu. Í kjölfar þess hefur verið farið í aðgerðir til að koma starfseminni í húsnæði til bráðabirgða. Það er mat stjórnar BÍL að endalausar bráðabirgðalausnir í húsnæðismálum skólans hafi kostað hið opinbera fjármuni sem skynsamlegara hefði verið að veita í uppbyggingu varanlegs húsnæðis. Stjórn BÍL sendir stjórnvöldum ákall um að tryggja fjármuni til að koma starfsemi Listaháskóla Íslands undir eitt þak í samræmi við áformin þegar skólinn var stofnaður fyrir tæpum 20 árum og finna þeim fjármunum stað í fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar.

Þekkingin í geiranum – samstarf um breytingar
Meðal listamanna er til staðar yfirgripsmikil þekking á þörfum listgreinanna, bæði innan stofnanakerfis hins opinbera en ekki síður í hinum sjálfstæða geira. BÍL hvetur stjórnvöld til að nýta sér þá þekkingu í öllum áformum um breytingar á stoðkerfi greinanna, sem áformuð eru skv. samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna, ella er líklegt að betur sé heima setið en af stað farið.