Stjórn Listaháskóla Íslands hefur sent frá sér ályktun um stöðu tónlistarnáms í Reykjavík:
Stjórn Listaháskóla Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu tónlistarnáms í Reykjavík nái boðaður niðurskurður á framlögum borgarinnar til tónlistarskólanna fram að ganga. Skólarnir hafa nú þegar þurft að draga saman í starfseminni vegna niðurskurðar á síðustu misserum, sem hefur leitt til þess að þeir geta ekki boðið upp á eins öflugt og kröfuhart tónlistarnám og fyrr. Það sama á við um niðurskurð á framlagi borgarinnar til Myndlistaskólans í Reykjavík.
Minnkandi stuðningur við listaskólana hefur bein áhrif á gæði menntunar í listum. Það á bæði við um almenna listmenntun og undirbúning fyrir sérhæfðari störf. Listaháskólinn undirbýr ungt fólk fyrir atvinnumennsku í listum og skapandi greinum, og er á það treyst að þangað sæki nemendur sem hafa góða kunnáttu og heildstæða undirstöðumenntun í sinni grein. Framfarir þeirra byggja á grunninum sem listaskólarnir veita. Verði brot í þessu samhengi menntunarinnar er hætta á því að listalífið allt verði að gjalda.
Mikilvægt er að borgaryfirvöld standi vörð um áratuga uppbyggingu listaskólanna sé það í raun vilji þeirra að listalíf blómstri í borginni. Þá er það beinlínis hagsmunamál borgarbúa að atvinnustarfsemi, sem byggir á skapandi hugsun og listrænni sýn, fái áfram að dafna. Með vísan til alls þessa skorar stjórn Listaháskólans á borgaryfirvöld og alla þá sem koma að rekstri listnáms í landinu að setja velferð og þroska nemendanna í forgang og sýna metnað í verkum sínum fyrir hönd listanna í landinu.