Eina Falur Ingólfsson , ljósmyndari og blaðamaður, skrifar eftirfarandi pistil í Morgunblaðið í morgun:
Nú er sorglegt að kveikja á Rás 1. Helgi Pétursson er mættur í þularstofu og snýr skífum milli þess sem kynntur er endurflutningur á þáttum sem minna á hvað hefur verið gert á þessum merka miðli – og hvað á að gera þar.
Rás 1 á að vera sú lifandi menntastofnun sem ég hef elst og gránað með, þar sem líf og saga þjóðarinnar, í fortíð og nútíð, er skráð og miðlað á upplýstan, fjölbreytilegan og vandaðan hátt. Rás 1 hefur hjálpað okkur að uppfylla þá grunnskyldu hvers hugsandi manns, að vita við lok dags að hann hafi lært eitthvað nýtt og þekki heiminn betur en þegar hann vaknaði.
Vitaskuld þurfa fyrirtæki og stofnanir að sýna aðhald. Ríkisútvarpið þarf að skera niður og spara eins og aðrir. En hvernig farið er að því nú er einfaldlega galið. Að segja upp helmingi starfsfólks Rás 1, sem er rekin fyrir minna en tíu prósent rekstrarfjárins, sendir út efni sem enginn annar ljósvakamiðill sinnir og er rótin í menningunarmiðlun til þjóðarinnar er óskiljanlegt og einfaldlega skammarlegt.
Það hefur valdið vonbrigðum að menntamálaráðherra skuli ekki hafa stigið fram, fyrir hönd okkar eigenda Ríkisútvarpsins, og lýst því yfir að svona geri menn ekki.