Félag tónskálda og textahöfunda – FTT var stofnað 1983 og telur í dag um 330 meðlimi. Formaður er Jakob Frímann Magnússon, varaformaður Sigurður Flosason, gjaldkeri Aðalsteinn Ásberg Sigurðsso og framkvæmdastjóri er Jón Ólafsson . Aðrir í stjórn eru Samúel Jón Samúelsson, Sigtryggur Baldursson, Hafdís Huld Þrastarrdóttir og Margrét Kristín Sigurðardóttir.
Félagið lét á sl. ári taka saman framlög ríkis og sveitarfélaga til tónlistarlífsins og leiddi það í ljós að af þeim heildarframlögum renna aðeins um 4% til hryntónlistarinnar og vinnur félagið nú m.a. að því að bæta hlut hryntónlistarmanna, þó með það að leiðarljósi að slíkt muni ekki bitna á framlögum til annara listgreina.
FTT hefur einnig átt í viðræðum við RUV og 365 um að bæta hlut íslenskrar tónlistar í ljósvakamiðlum og hefur það nú, ásamt öðru leitt til þess að hlutur íslenskrar tónlistar hefur náð 50% af heildarspilun og um 40% hjá Bylgjunni.
Einnig hefur verið gerð viðhorfskönnun um afstöðu almennings til íslensks útvarps sem reyndist gott innlegg í fyrrgreindar vidræður.
FTT beitir sér enn sem fyrr fyrir því að höfundarréttur verði í skattalegu tilliti viðurkenndur sem aðrar eignir er bera 20% skatt í stað 36%.
FTT hefur ásamt aðilum á vettvangi Samtóns átt viðræður við síma- og netfyrirtaeki landsins um leiðir til að bæta með einhverjum hætti það tjón sem ólöglegt niðurhal hefur valdið tónlistarrétthöfum og standa vonir til að lausn verði fundin á þeim vanda fyrr en síðar.
FTT hefur undanfarin ár staðið fyrir reglubundnum tónleikum í svonefndu Fuglabúri þar sem ólíkum höfundum er teflt saman. Stefnt er að áframhaldandi starfi á þeim vettvangi.
Þá kom FTT á fót tónlistarþættinum Rokk og tjatjatja í árslok 2010 þar eð engan sjónvarpsþátt um tónlist var að finna í íslensku sjónvarpi og er stefnt að því að halda slíkum þáttum áfram á árinu 2011.
FTT á aðild að samtökum norrænna höfundarfélaga NPU og einnig samtökum evrópskra höfundarfélaga APCOE. Þá á FTT m.a. aðild að STEFi, SAMTÓNI, BÍL, Listahátíð í Reykjavík .
Á árinu 2011 tók FTT þátt í að koma á fót Norrænu kvikmyndatónlistarverðlaununum og voru þau afhent í fyrsta sinn í Gautaborg , á þessu ári verða þau afhent í Kaupmannahöfn og að óbreyttu árið 2012 í Reykjavík.
Jakob Frímann Magnússon
formaðurFTT