Stjórn F.Í.T. var endurkjörin á aðalfundi félagsins þann 27. maí 2010. Stjórnina skipa:

Kristín Mjöll Jakobsdóttir, formaður, Guðríður St. Sigurðardóttir, varaformaður,

Þórir Jóhannsson, gjaldkeri, Hallveig Rúnarsdóttir, ritari, Jón Sigurðsson, meðstjórnandi.

Í varastjórn voru kjörin Vigdís Klara Aradóttir, Anna Sigríður Helgadóttir og Þórarinn Stefánsson

• Félagar í F.Í.T. eru nú 160, einleikarar, einsöngvarar og stjórnendur.

Árið 2010 var viðburðaríkt en félagið fagnaði 70 ára afmæli. Á nýliðnu ári var komið að F.Í.T. að halda ársfund Norræna einleikararáðsins. Í tilefni af þessu hvoru tveggja stóð félagið fyrir tónlistarhátíðinni “Suður mætir Norðri” dagana 10.-12. júní í samvinnu við Norræna húsið, með styrk frá Norrænu menningargáttinni. Á hátíðinni komu fram einleikarar í fremstu röð frá öllum Norðurlöndunum þ.m.t. Færeyjum og Íslandi. Auk þess var franski bandóneonleikarinn Olivier Manoury sem er Íslendingum að góðu kunnur, fenginn til að halda tangónámskeið og tangósmiðju sem fléttuðust inn í tónlistarhátíðina með tónleikahaldi.

Félagið sinnir ýmsum hagsmunamálum félagsmanna og hefur umsjón með listrænum samstarfsverkefnum. Fjöldi nefndarstarfa fylgir formanns- og stjórnarstörfum. Fyrirferðarmikil á þessu ári hafa verið hagsmunamál tengd nýja tónlistarhúsinu Hörpu s.s. stofnun Listráðs hússins, auk starfa fyrir BÍL og SFH (Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda) þar sem fram fyrir gagnger endurskoðun á úthlutunarreglum er varða tekjur af leikinni tónlist af hljómföngum í fjölmiðlum og víðar.

Félagið heldur úti heimasíðu www.fiston.is en unnið er að nýrri heimasíðu um þessar mundir. Þar eru birtar fréttir og upplýsingar um verkefni og styrki ásamt auglýsingum sem varða félagsmenn og listalífið almennt. Fréttabréf og tilkynningar eru send rafrænt og erlendum samskiptum sinnt eftir föngum. Félagið hefur haft aðstöðu í húsnæði FÍH að Rauðgerði 27 síðan 2006.

• Hljómdiskasjóður FÍT.

Félagið veitir styrki af því fé sem úthlutað er af SFH fyrir leikna tónlist í fjölmiðlum. Árlega eru veittir eftir föngum allt að 5 styrkir til hljómdiska-útgáfu. Á árinu 2010 var eingöngu veittur einn styrkur að upphæð 200.000 kr.og kom hann í hlut Ástríðar Öldu Sigurðardóttur til útgáfu á hljómdisk með einleiksverkum fyrir píanó eftir Chopin

 

Listræn samstarfsverkefni FÍT:

• Tónleikar á landsbyggðinni

Verkefnið er í samstarfi við FÍH með styrk úr Tónlistarsjóði. Verkefnisstjóri annast umsýslu styrksins sem greiðir hluta þóknunar flytjenda á tónleikum á landsbyggðinni. Samstarf er við rúmlega 30 sveitarfélög og tónlistarfélög. Verkefnisstjóri er nú Vigdís Klara Aradóttir. Samtals 9 tónlistarhópar og einleikarar fengu úthlutun á árinu 2010 fyrir samtals 27 tónleika. Nokkur samdráttur hefur orðið í verkefninu á síðustu árum vegna fjárhagserfiðleika samstarfsaðila en brugðist hefur verið við því með ýmsum hætti.

• Tónleikaröð í Norræna húsinu, Klassík í Vatnsmýrinni

Farsælt samstarf við Norræna húsið hófst í byrjun árs 2009. Stefnt er að fernum tónleikum á ári, tvennum með íslenskum flytjendum og tvennum með norrænum eða alþjóðlegum flytjendum, m.a í samvinnu við aðildarfélög Nordisk solistråd. Á árinu hófst samstarf við ítalska tónleikahaldara og einleikarar með tónleikum með Natalíu Benedetti og Sebastiano Brusco.

• Norræn samvinna um tónleikahald er þáttur sem F.Í.T. hefur lagt ríka áherslu á í samstarfi sínu við aðildarfélögin í Nordisk solistråd. Síðan 2004 hefur fest sig í sessi að halda samnorræna tónleika í tengslum við ársfundi Nordisk solistråd, NordSol tónleika, þar sem einleikarar frá öllum aðildarfélögum koma fram. Fundirnir eru haldnir til skiptis í aðildarlöndunum. Á árinu 2009 hófst formlegt samstarf um skipti á einleikurum milli tónleikaraða félaganna.

• Samstarf við Gerðuberg

FÍT átti um10 ára skeið í farsælu samstarfi við Menningarmiðstöðina Gerðuberg um Dag hljóðfærisins með styrk frá Reykjavíkurborg. Á árinu 2010 var bryddað upp á nýjung í samstarfinu á Heimsdegi barna með tónlistarsmiðju og tónlistarflutningi Spilmanna Ríkínis í samhengi við hana.

 

Nefndir og ráð sem FÍT á aðild að:

• Bandalag íslenskra listamanna

• Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda

• Samtónn

• Íslensku tónlistarverðlaunin

• Tónlist fyrir alla

• Samtök um byggingu tónlistarhúss

• Listahátíð í Reykjavík

• Listráð Hörpu

• Nordisk Solistråd