Starfsemi Rithöfundasambandsins var með hefðbundnu sniði á árinu 2010. Helstu verkefni sambandsins eru upplýsingamiðlun varðandi réttindamál á sviði höfunda- og útgáfuréttar, endurnýjun og breytingar á gildandi samningum um notkun á verkum íslenskra rithöfunda og ýmiskonar hagsmunagæsla. Ennfremur umsýsla og úthlutun greiðsla sem RSÍ tekur við frá Fjölís, IHM, Blindrabókasafni og Námsgagnastofnun. Þá rekur sambandið Höfundamiðstöð en hún annast verkefnið Skáld í skólum, auk þess að veita ýmsar upplýsingar um höfunda. Skáld í skólum eru bókmenntadagskrár fyrir ólík stig grunskólanna og hafa notið mkilla vinsælda.
Á skrifstofunni í Gunnarshúsi starfar framkvæmdastjóri í fullu starfi og hefur umsjón með daglegum rekstri, en undir hann falla einnig rekstur gestaíbúðar í kjallara hússins og rithöfundabústaðanna Norðurbæjar á Eyrarbakka og Sléttaleitis í Suðursveit. Ennfremur hefur framkvæmdastjóri umsjón með Bókasafnssjóði höfunda. Auk daglegrar starfsemi RSÍ í Gunnarshúsi eru þar fundir og samkomur á vegum SÍUNG, Leikskláldafélagsins, IBBY á Íslandi og Leiklistarráðsins.
Undir árslok 2010 leit nýr þýðingarsamningur milli Rithöfundasambandsins og Félags Íslenskra Bókaútgefenda (FÍBÚT) dagsins ljós. Sætir samningurinn nokkrum tíðindum þar sem hann er mun umfangsmeiri en fyrri samningur, og líklegur til að geta nýst bókaútgefendum og þýðendum.
Á þorra sóttu formaður og framkvæmdastjóri ársfund Norrænu rithöfundasambandanna í Finnlandi og á vordögum fór framkvæmdastjóri til Brüssel á ársfund Evrópska rithöfundaráðsins.
Barna- og unglingabókmenntahátíðin Mýrin var haldin í Norræna húsinu í apríl og tóku íslenskir rithöfundar virkan þátt í henni að venju. Þetta er í fimmta sinn sem hátíðin er haldin, en var að þessu sinni í skugga öskufalls og ýmsir liðir féllu niður af því að erlendir gestir komust ekki til landsins.
Í júlí flaug fyrir að virðisaukaskattur á bókum yrði hækkaður úr 7% upp í 25.5%. Þetta var hugmynd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og átti að vera liður í því að rétta úr kreppukút Íslendinga. Brugðu formaður og varaformaður RSÍ skjótt við, skrifuðu á móti hugmyndinni og bentu á hættuna sem þessu væri samfara. Fleiri urðu til að taka í sama streng og enn hafa engar ákvarðanir vegna hækkunar verið kunngerðar.
Þegar haustaði fóru formaður og varaformaður enn á stúfana og nú upp í RÚV þar sem þau fengu fund með dagskrárstjóra Rásar 1 og 2. Þau lýstu áhyggjum sýnum varðandi menningarumfjöllun hjá stofnuninni, skorti á nýju, íslensku efni og stöðu íslenskrar tungu sem ætti undir högg að sækja.
Að lokum sendu formaður og varaformaður hvatningarbréf á dagblöðin, brýndu þau á menningarlegri skyldu fjölmiðlanna og því að standa vel að gagnrýnismálum þegar haustaði. Brýndu reyndar þessa sömu fjölmiðla á að standa þennan vörð allt árið um kring. Ekkert dagblaðanna sá ástæðu til þess að svara eða óska eftir nánari viðræðum.
Dagana 2.- 5. september sóttu formaður og framkvæmdastjóri alþjóðlegt þing rithöfunda og bókmenntaþýðenda, WALTIC, í Istanbul. Í brennidepli voru málfrelsi, læsi og höfundaréttur. Þeim áherslupunktum verða seint gerð nógsamleg skil.
Formaður og framkvæmdastjóri fóru einnig á bókastefnuna í Frankfurt í október s.l. Var það liður í undirbúningi fyrir þátttöku 2011 þegar Ísland verður þar heiðursgestur. Rithöfundasambandið tekur virkan þátt í þeim mikla undirbúningi. Ljóst er að töluverð vinna er framundan og mikils virði að vel til takist.
Ráðist var í viðamiklar endurbætur á Gunnarshúsi á haustdögum. Það færist í vöxt að taka á móti bæði innlendum og erlendum gestum, sýna húsið og segja frá Gunnari Gunnarssyni, lífi hans og verkum. Þannig má eiginlega segja að Rithöfundasambandið sé með lifandi safn á sinni könnu. Árlega fer fram lestur á Aðventu Gunnars Gunnarssonar þriðja sunnudag á jólaföstu og er sagan lesin samtímis á Skriðuklaustri og í Kaupmannahöfn. Félagi okkar Silja Aðalsteinsdóttir las söguna í þetta sinn við arineld, kertaljós og góða stemningu. Viðamiklar bókmenntadagskrár voru einnig haldnar á árinu – og öllum opnar.
Félugum í Rithöfundasambandinu fjölgar og eru nú 381. Konur eru rúmur þriðjungur. Meðal nýju félaganna eru margir í yngri kantinum og eru þeir sérstaklega boðnir velkomnir. Fjölmargir rithöfundar fengu verðlaun og viðurkenningar á árinu. Of langt mál yrði að telja þau upp en fagnaðarefni hve vel íslenskum rithöfundum gengur. Ingibjörg Haraldsdóttir var kjörin heiðursfélagi á síðasta aðalfundi, en á árinu lést einn heiðursfélagi okkar, skáldkonan Fríða Á Sigurðardóttir
Á aðalfundi í apríl s.l. lét Pétur Gunnarsson af störfum sem formaður eftir fjögurra ára setu. Þá hætti Rúnar Helgi Vignisson einnig sem varaformaður. Stjórn Rithöfundasambandsins er nú þannig skipuð: Kristín Steinsdóttir, formaður. Jón Kalman Stefánsson, varaformaður, Karl Ágúst Úlfsson, Kristín Helga Gunnarsdóttir og Davíð Stefánsson eru meðstjórnendur. Varamenn eru Sigurbjörg Þrastardóttir og Gauti Kristmannsson. Framkvæmdastjóri félagsins er Ragnheiður Tryggvadóttir.