Starfsemi Félags leikmynda- og búningahöfunda hefur legið nokkuð í láginni, ja að segja má allt frá hruninu alræmda. Ólíkt flestum hinna aðildarfélaga BÍL, er FLB eingöngu hagsmunafélag og sér ekki um stéttarfélagsmál félagsmanna sinna. Ja, nema að mjög litlu leiti. Við erum aðilar að Myndstefi og höfum haft okkar tekjur að mestu þaðan. Þær eru tengdar sölu á óáteknum geisladiskum og myndbandsspólum. Myndbandsspólur kaupir enginn lengur og sala á geisladiskum hefur minnkað mikið. Það má því segja að ný tækni og niðurhalsdraugurinn, sem hrellt hefur tónlistar- og kvikmyndageirann svo mjög, hafi hitt okkur líka. Tekjur okkar hafa í raun hrunið. Af þessum orsökum höfum við ekki séð okkur fært undanfarin 3 ár að úthluta verkefna- og ferðastyrkjum eins og áður var.

Myndstef fer með höfundarréttarmál okkar fólks og nú stendur fyrir dyrum að endurskoða þær viðmiðunartölur sem þar eru notaðar.

Almenn félagsstarfssemi innan FLB hefur verið lítil og áhugi frekar takmarkaður. Auðvitað má herma það upp á stjórn að spila ekki vel úr og þó nokkuð hafi verið reynt má eflaust gera betur.

5. deild FÍL, sem sér um stéttarfélagsmál okkar fólks, virðist eiga við sömu mál að stríða og starfsemi þar verið í mikilli lægð. Á nýafstöðnum aðalfundi þar á bæ var kjörin ný stjórn og óskandi að starfsemin eflist, því samningamál leikmynda- og búningahöfunda eru satt að segja komin í mikinn ólestur.

Stærsta samkunda svishönnuða er án efa Praque Quadrennial, sem eins og nafnið segir, er haldin í Prag fjórða hvert ár. Ísland hefur tekið þátt þar frá því á níunda áratugnum, síðast fór Grétar Reynisson. Félögin tvö eru þessa dagana í sameiningu að huga að vali á þátttakanda og skipuleggja fyrirkomulagið þetta árið og stendur hugur fólks mjög til þess að efna til hópferðar á atburðinn. Ekki síst til að brýna félagsandann.

Að lokum vil ég lýsa ánægju minni með starf BÍL undanfarið ár, sem verið hefur öflugt og til mikils gagns, jafnframt því að styrkja ímynd BÍL út á við.

 

Egill Ingibergssson

formaður FLB