Í dag birti Fréttablaðið þessa grein eftir forseta BÍL Kolbrúnu Halldórsdóttur:
BÍL – Bandalag íslenskra listamanna hélt málþing í tengslum við aðalfund sinn fyrr á þessu ári þar sem fjallað var um stöðu lista og menningar í stjórnkerfinu og spurt hvort breytinga sé þörf til að skapandi greinar sæki fram og eflist. Meginspurning málþingsins var sú hvort tímabært gæti verið að slíta tengslin milli menntamála og menningarmála með því að stofna sérstakt menningarmálaráðuneyti.
Ástæða þess að forystumenn listafólks telja þörf á að leita svara við þessari spurningu er sú að þeir telja að listirnar fari halloka í samkeppninni um athygli ráðherra og embættismanna, sem hafa jafn umfangsmikinn og aðkallandi málaflokk og menntamálin á sinni könnu. Það sé því full þörf á því að listir og menning eigi sér sjálfstæðan málsvara við ríkisstjórnarborðið, ráðherra sem getur einbeitt sér að baráttunni fyrir bættu umhverfi og skilvirkari stjórnsýslu menningar og lista.

Sóknaráætlun
Stjórnvöld hafa lengi haft uppi áform um að efla skapandi greinar, auka hlut þeirra í atvinnulífinu og fjölga atvinnutækifærum í greinunum um land allt. Erfitt hefur reynst að hrinda þeim áformum í framkvæmd og mikið skortir á að listir og menning hafi endurheimt þann fjárhagslega stuðning og þann styrk sem þær nutu fyrir hrun. Þar kemur margt til, m.a. viðkvæmur fjárhagsgrunnur menningarstofnana og erfiðleikar við að byggja upp skilvirkt stoðkerfi fyrir þann geira atvinnulífs sem reiðir sig á skapandi hugsun. Bandalag íslenskra listamanna samþykkti á ársfundi sínum sóknaráætlun í skapandi greinum og afhenti hana formlega mennta- og menningarmálaráðherra á samráðsfundi BÍL og ráðuneytisins í apríl sl. Áætlunin var einnig send þingmönnum til kynningar og er aðgengileg á vef BÍL. Hún er í 8 liðum og greinir helstu aðgerðir sem ráðast þarf í til að markmið um uppbyggingu greinanna náist.

Tvístrað milli ráðuneyta
Síðan 2010 hafa stjórnmálamenn sýnt áhuga á því að kortleggja umfang skapandi atvinnugreina og bera það saman við aðra geira atvinnulífsins. Gerð var tilraun til að mæla hagræn áhrif greinanna og í ljós kom að umfang þeirra hér á landi er sambærilegt við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Í framhaldinu var skipaður starfshópur sem skilaði skýrslu 2012 þar sem lagðar voru fram tillögur um með hvaða hætti skynsamlegast væri að vinna að eflingu greinanna. Síðan hefur lítið gerst annað en það að málaflokknum hefur verið tvístrað milli ráðuneyta.
Þannig hefur umsýsla menningararfsins verði flutt til forsætisráðuneytis, málefni hönnunar að mestu flutt yfir í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og menningarsamningar við landshlutasamtök sveitarfélaga fluttir í landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið. Kynningarmál menningar og lista heyra svo að hluta undir utanríkisráðuneyti, sem fer með málefni Íslandsstofu og menningarkynningar í sendiráðum. Þessar aðgerðir stjórnvalda samrýmast sannarlega ekki áformum um aukinn sýnileika skapandi greina eða eflingu starfsumhverfis innan geirans.

Fjölbreytt tækifæri
Það er mat Bandalags íslenskra listamanna að eina leiðin til að efla þær atvinnugreinar sem byggja á listum og menningu sé að koma málaflokknum undir eitt og sama ráðuneytið, ráðuneyti menningar og lista. Einungis þannig takist okkur að feta í fótspor nágrannaþjóða okkar, sem beina nú sjónum í auknum mæli að skapandi greinum þegar horft er til uppbyggingar atvinnutækifæra og fjölbreytni í atvinnulífi. Í því sambandi er rétt að geta þess að listir og menning eru ein mikilvægasta stoðin í uppbyggingu ferðaþjónustu þegar til lengri tíma er litið, því þótt ferðamenn þurfi vissulega að kaupa sér aðgang að flugsætum og hótelherbergjum þá eru það ekki seglarnir sem draga ferðamenn til landsins. Í allri markaðssetningu á Íslandi sem ferðamannalandi leikur náttúra Íslands aðalhlutverkið en ævinlega í bland við mannlíf, menningu og listir. Heildarsamtök listamanna óska nú eftir því að ráðamenn skoði af alvöru þann möguleika að stofna sérstakt menningarmálaráðuneyti til hagsbóta fyrir þennan ört vaxandi geira atvinnulífsins en ekki síður til að efla listsköpun og menningarstarf í þágu framtíðarkynslóða.