Erindi Bandalags íslenskra listamanna til fjárlaganefndar Alþingis

Umsögn um liði á sviði lista og skapandi greina í fjárlagafrumvarpi 2016

Megininntak umsagnarinnar er eftirfarandi:

  • Endurnýjað verði samkomulag um kvikmyndagerð og settar 355,3 m. kr. til viðbótar við það sem frv. áætlar í Kvikmyndasjóð 2016 auk þess sem gerð verði áætlun um hækkun í 2 milljarða á næstu fimm árum.
  • Framlag til annarra verkefnatengdra sjóða verði sem hér segir:
  • Myndlistarsjóður 52 m. kr
  • Framlag til Sjálfstæðu leikhúsanna 107 m. kr
  • Tónlistarsjóður 81,1 m. kr
  • Barnamenningarsjóður 8 m. kr
  • Listskreytingasjóður 10 m. kr
  • Safnliðurinn „Styrkir á sviði listgreina“ verði 64,6 m. kr
  • Gerð verði ný þriggja ára áætlun um eflingu launasjóða listamanna
  • Framtíð tónlistarskólanna verði tryggð með þeim hætti sem slíkt verður gert í fjárlögum
  • Listdansnám á framhaldsstigi verði eflt og fjárframlag verði í samræmi við kröfur í námsskrá
  • Ríkisútvarpinu verði bættar þær 173,2 m kr, sem það missir, m.a. vegna lækkunar útvarpsgjalds
  • Menningarsamningar landshlutanna verði uppfærðir og ætlað sama framlag og á fjárlagaárinu 2013, þ.e. samt. 270,4 m kr. og samningurinn við Akureyrarbæ verði skoðaður m.t.t. umfangs verkefna
  • Málefni kynningarmiðstöðva listgreinanna verði skoðuð, mat lagt á fjárþörf þeirra, gerð áætlun um eflingu starfseminnar og stofnuð Kynningarmiðstöð sviðslista í samvinnu við SSÍ með 10 m kr framlagi
  • Kynning á menningu, listum og skapandi greinum í sendiráðum Íslands fái 12 m. kr framlag
  • Þá er ítrekuð ósk um að stjórn BÍL fái áheyrn hjá fjárlaganefnd í tilefni af erindi þessu

Umsögn BÍL til fjárlaganefndar Alþingis vegna fjárlagafrumvarps 2015

BÍL – Bandalag íslenskra listamanna, eru heildarsamtök listafólks í fimmtán aðildarfélögum og starfar bandalagið samkvæmt lögum samþ. 4. nóv. 2000 með síðari breyt.: https://bil.is/um-bil/log-fyrir-bil. Þar kemur fram að BÍL sinni heildarhagsmunum þeirra listgreina og hönnunar sem mynda bandalagið. Á grunni laganna er gerður samningur við mennta- og menningarmálaráðuneytið þar sem nánar er kveðið á um hlutverk bandalagsins sem ráðgjafa stjórnvalda í málefnum menningar og lista. Áralöng hefð er fyrir því að BÍL sendi vandaða umsögn til fjárlaganefndar Alþingis um þá liði er varða listir og menningu í fjárlagafrumvarpi hvers árs og er það hluti af ráðgjafarhlutverki BÍL gagnvart stjórnvöldum. Sú hefð hefur skapast að fulltrúar BÍL fái áheyrn hjá nefndinni til að fylgja umsögn sinni eftir, en þegar eftir því var leitað 2013 og 2014 var erindi BÍL um slíka heimsókn synjað. Stjórn BÍL leyfir sér að ítreka vonbrigði sín með þessa niðurstöðu nefndarinnar og lýsir sig sem fyrr reiðubúna til að senda fulltrúa á fund nefndarinnar til frekari samræðu um efni þessarar umsagnar.

Listirnar eru grundvöllur skapandi greina
Þriðja árið í röð gerir BÍL sóknaráætlun í listum og skapandi greinum að umtalsefni í umsögn sinni til fjárlaganefndar Alþingis. Frá því að fjárlagafrumvarp 2014 leit dagsins ljós hefur BÍL gagnrýnt þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hverfa alfarið frá fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar, sem m.a. náði til fjárfestinga í listum og skapandi atvinnugreinum. Sú ákvörðun hefur leitt til þess að listirnar sitja eftir á sama tíma og lagðir eru fjármunir í eflingu annarra greina á borð við ferðaþjónustu, markaðssetningu íslenskrar matvöru erlendis og ýmislegt annað nýsköpunarstarf undir hatti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna er lýst vilja til að efla skapandi greinar, en þau áform hafa ekki skilað sér nema að litlu leyti og alls ekki í nægilegum mæli til listgreinanna, sem þó hljóta að teljast grunnur undir skapandi atvinnugreinar. Eitt af því mikilvægasta sem þarf til að efla listgreinarnar er ný þriggja ára áætlun um fjölgun launamánaða í launasjóðum listgreinanna, sambærileg við áætlunina sem gilti á árunum 2009 – 2012. En mánaðafjöldinn hefur staðið í stað síðan þeirri áætlun lauk og er enn 1600 mánuðir. Á sama tíma hafa hundruð nýrra listamanna og hönnuða lokið námi bæði frá Listaháskóla Íslands og erlendum háskólum. Sjálfstæðu leikhúsin hafa sýnt fram á með sannfærandi útreikningum, sem sendir hafa verið fjárlaganefnd, að einungis launasjóður sviðslistafólks þurfi að stækka um 90 launamánuði, eða úr 190 mánuðum í 280.

Samspil launasjóða og verkefnasjóða
Í skýrslum sem gerðar hafa verið til að greina umfang skapandi atvinnugreina og starfsumhverfi þeirra sem starfa á þeim vettvangi, kemur fram að flestir listamenn og stór hluti hönnuða starfi í eigin atvinnurekstri eða sem einyrkjar og að starfsumhverfi þeirra sé ótryggt, m.a. vegna þess að störfin séu háð stuðningi úr verkefnasjóðum af ýmsu tagi. Á síðustu árum hefur BÍL tekið þátt í vinnu stjórnvalda við endurskipulagningu fjármögnunar verkefna á vettvangi lista og skapandi greina. Meðal þess sem BÍL hefur lagt til í þeirri vinnu er að komið verði á samhæfðu kerfi launasjóða og verkefnasjóða sem byggi á faglegu mati umsókna og reglu hæfilegrar fjarlægðar. Sú vinna hefur leitt til þess að RANNÍS hefur verið falið utanumhald um launasjóði listamanna og verkefnatengdu sjóðina, sem hefur tekist með ágætum, nema hvað auknir fjármunirnir hafa ekki skilað sér með þeim hætti sem lagt var upp með. Hér á eftir fylgja tillögur sem byggja á þeim hugmyndum sem liggja að baki endurskipulagningunni og eru forsenda þess að listirnar eflist og verði það bakbein skapandi greina sem stjórnvöld telja eftirsóknarvert. Þar á meðal er tillaga um að nýtt samkomulag verði gert við kvikmyndagerðarmenn um framtíð Kvikmyndasjóðs með það að markmiði að framlag til sjóðsins hækki í tvo milljarða á næstu fimm árum. Fyrsti áfanginn verði hækkun um 355,3 milljónir 2016.

Eftirfarandi er tillaga BÍL um hækkanir fjárlagaliða verkefnatengdara sjóða í fjárlagafrumvarpi 2016:

Framlag til Kvikmyndasjóðs hækki úr 844,7 í 1.200

Myndlistarsjóður hækki úr 35,0 í 52,0

Framlag til Sjálfstæðu leikhúsanna hækki úr 78,5 í 107,0

Tónlistarsjóður hækki úr 64,9 í 81,1

Barnamenningarsjóður hækki úr [3,9] í 8,0 (nánari skýring fylgir)

Listskreytingasjóður hækki úr 1,5 í 10,0

Styrkir á sviði listgreina hækki úr 37,7 í 64,6

Barnamenning og Barnamenningarsjóður
BÍL hefur árum saman lagt það til í umsögnum sínum til fjárlaganefndar að gert verði átak til að hækka framlagið til Barnamenningarsjóðs. Þeirri kröfu hefur verið fylgt eftir í úthlutunarstarfinu, enda á BÍL fulltrúa í sjóðsstjórninni. Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram komu í ljós áform mennta- og menningarmálaráðuneytis um að leggja Barnamenningarsjóð niður en leggja þess í stað fjármuni í aðgerðaáætlun um menningu barna og ungmenna í samræmi við menningarstefnu sem Alþingi samþykkti 6. mars 2013. BÍL hefur verið þátttakandi í þeirri vinnu sem aðgerðaáætlunin felur í sér og fagnar því að nú skuli því mikilvæga starfi markaðir fjármunir í fjárlögum. Það er hins vegar álitamál hvort það starf sem sú áætlun gerir ráð fyrir geti alfarið komið í stað Barnamenningarsjóðs, um það er BÍL ekki sannfært og leggur því til að Barnamenningarsjóður fái áfram sjálfstæða fjárveitingu í fjárlögum upp á 8 milljónir króna, sem er hækkun úr 3,9 á fjárlögum yfirstandandi árs.

Ríkisútvarpið verði eflt
BÍL hefur ævinlega litið svo á að Ríkisútvarpið sé ein af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar. Það er þjóðareign, órjúfanlegur hluti íslenskrar menningar og á því hvíla skyldur umfram aðra fjölmiðla. Því er ætlað með lögum að halda utan um menningararfinn, tunguna, söguna, listina og lífið í landinu. Samkvæmt þeim lögum eru stjórnvöld skuldbundin til gera stofnuninni kleift að sinna hlutverki sínu af metnaði. Nú er svo komið að framlag til dagskrárgerðar hefur verið skert svo rækilega að dagskráin ber þess merki, auk þess sem veikur rekstrargrunnur RÚV eykur á þá kreppu sem kvikmyndagerð í landinu glímir við. Bandalag íslenskra listamanna fagnar því að stjórnvöld skuli hafa ákveðið að hverfa frá enn frekari lækkun útvarpsgjaldsins, svo sem áformað hafði verið, og að RÚV muni fá hinn markaða tekjustofn óskiptan inn í reksturinn. En það dugir ekki til að endurreisa innlenda dagskrárgerð eða auka samstarf RÚV við kvikmynda- og sviðslistageirann í landinu. BÍL telur nauðsynlegt að styrkja stöðu RÚV hvað þetta varðar og telur að það verði best gert með tvennum hætti; annars vegar með því að hækka útvarpsgjaldið á næstu árum, þannig að það jafnist á við það sem gengur og gerist í samanburðarlöndunum (Norðurlöndunum og Bretlandi) og að áætlun verði gerð um að létta af stofnuninni lífeyrisskuldbindingum sem ólíklegt er að hún muni nokkurn tíma standa undir. Þá telur BÍL rétt að upplýsa fjárlaganefnd um stuðning BÍL við tillögu þess efnis að RÚV fái formlega aðkomu að samkomulaginu sem nú er unnið að milli ríkisins og kvikmyndagerðarmanna. Í samræmi við það sem að framan greinir leggur BÍL til að fjárlaganefnd leiti leiða til að bæta RÚV upp þær 173,2 millj. króna sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að skornar verði af rekstrargrunni stofnunarinnar.

Tónlistarskólar í hættu
Í frumvarpi til fjárlaga 2016 er enn eitt árið gert ráð fyrir óbreyttu framlagi ríkisins til tónlistarnáms á vegum sveitarfélaganna eða 520 m kr. Í ljósi þeirrar baráttu, sem tónlistarskólar hafa háð á síðustu árum og markast m.a. af vonbrigðum með framkvæmd samkomulags ríkis og sveitarfélaga frá 2011 um bætta stöðu þeirra, telur BÍL mjög mikilvægt að ríki, samtök sveitarfélaga og ráðuneytin sem koma að málefnum skólanna, kveði uppúr um það hvar ábyrgðin á rekstri þeirra liggur svo hægt verði að fara að lögum í rekstri tónlistarskóla landsins. BÍL fagnar því að frumvarpið skuli sýna 187,4 milljóna króna hækkun á framlagi til nýjunga í skólastarfi, sem gert er ráð fyrir að skili sér að einhverju marki til stefnumótunar um fyrirkomulag tónlistarnáms í landinu (eins og segir í frumvarpinu), en ekki verður séð að það framlag nýtist þeim skólum sem glíma við langvarandi rekstrarvanda vegna skorts á eftirfylgni laga um tónlistarnám. BÍL er reiðubúið til þátttöku í vinnu stjórnvalda við stefnumótun þá sem framundan er og telur það geta verið farsælt skref að opna þá vinnu fyrir listamönnum og fulltrúum tónlistarskólanna.

Listdansnám á bláþræði
Mikil óvissa ríkir innan listdansskólanna varðandi listdansnám á framhaldsskólastigi. Fyrirhugaðar breytingar menntamálaráðuneytis á starfsumhverfi skólanna hafa ekki verið kynntar skólastjórnendum og þeir horfa nú fram á gífurlegan hallarekstur, m.a. vegna fyrirsjáanlegra og eðlilegra hækkana á kjarasamningum starfsfólks. Lág framlög frá ríki eru í fullkomnu ósamræmi við þann kostnað sem liggur að baki hverjum nemanda og taka ekkert mið af þeim skyldum sem listdansskólunum er gert að uppfylla samkvæmt námsskrá. Nú er svo komið að margir tugir nemenda eru í algjörri óvissu um hvort að þeir geti lokið listnámi sínu til stúdentsprófs. Það er mat BÍL að staða skólanna sé orðin það alvarleg að ekki megi bíða degi lengur að grípa í taumana, en það verður ekki gert án atbeina stjórnvalda. Aðgerðir fjárlaganefndar nú í aðdraganda fjárlaga 2016 munu því skipta sköpum fyrir þennan þátt listmenntunar barna og ungmenna í landinu. Þá hefur BÍL af því áhyggjur að enn skuli ekki hafa verið sett reglugerð fyrir nám í listdansi á grunn- og framhaldsstigi, en sú staðreynd veikir grundvöll náms í listdansi á þessum skólastigum. Stjórnvöld þurfa að átta sig á mikilvægi framhaldsnáms í listgreinunum ef þau meina eitthvað með yfirlýsingum um átak í atvinnusköpun í skapandi greinum. Slíkt átak verður ekki gert öðruvísi en með öflugu menntakerfi í listum og hönnun.

Menningarsamningar við landshlutana
Auk þess sem hér er talið hvetur Bandalag íslenskra listamanna fjárlaganefnd til að huga sérstaklega að menningarsamningum við landsbyggðina. Nú hefur orðið breyting á framkvæmd samninganna og þeir innlimaðir í vaxtasamninga þá sem sinnt er af Byggðastofnun undir hatti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, eða öllu heldur landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytis. BÍL hefur gert athugasemdir við þessar breytingar og telur að menningarstarfi á landsbyggðinni stafi hætta af þessu nýja fyrirkomulagi, þrátt fyrir að fjármunir til menningarstarfs í landshlutunum fari inn í samningana af skilgreindum fjárlagaliðum mennta- og menningarráðuneytis. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2016 er framlag til samningsins við Akureyrarbæ um menningarstarf óbreytt að krónutölu frá yfirstandandi fjárlagaári, sem Bandalag íslenskra listamanna telur óásættanlegt í ljósi aukinna skuldbindinga Leikfélags Akureyrar, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Hofs – menningarhúss. Og þó samningar landshlutasamtaka sveitarfélaga við ríkið um menningarmál hækki milli ára um rúmar 19 milljónir (sem er hlutur mennta- og menningarmáalráðuneytis, -erfitt er að ráða af frumvarpinu hversu mikla fjármuni anr leggur á móti), þá nægir það ekki til að efla menningarstarfið á landsbyggðinni að því marki sem sóknaráætlanir landshlutanna gera ráð fyrir. Því leggur BÍL til að framlagið til menningarsamninga landshlutanna verði hækkað og að þeir verði eigi lægri en sem nemur framlaginu á fjárlagaárinu 2013 að viðbættum verðbótum, eða 270,4 m kr.

Miðstöðvar listgreinanna og rýrir safnliðir
Varðandi safnliði mennta- og menningarmálaráðuneytis; Kynningarmiðstöðvar listgreina (102,4 m kr) og Styrkir á sviði listgreina (37,7 m kr) þá væri gagnlegt ef þeir væru betur sundurliðaðir í skýringum við frumvarpið. Þetta er athugasemd sem BÍL hefur sett fram áður, en þar sem úrbætur láta á sér standa hefur BÍL óskað eftir sundurliðun frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þar kemur í ljós að af safnliðnum um kynningarmiðstöðvarnar á yfirstandandi fjárlagaári hafa þær fengið úthlutað fjármunum sem hér segir: Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar hefur fengið kr. 37 m kr (þ.a. 12 m kr vegna Feneyjatvíærings), Útón hefur fengið 23 m kr, Hönnunarmiðstöð hefur fengið 10 m kr (til viðbótar við 15 m kr, frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti), Íslensk tónverkamiðstöð hefur fengið 13,5 m kr, verkefnið Handverk og hönnun hefur fengið 14 m kr en ekki er getið um að Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista hafi fengið framlag af liðnum, enda er sú miðstöð ekki enn formlega stofnuð þó Sviðslistasamband Íslands [SSÍ] sinni kynningarverkefnum á vettvangi sviðslista. Vonandi tekst að koma nýjum sviðslistalögum gegnum Alþingi á þessu þingi og þá um leið að tryggja að Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista verði komið á fót.
Miðstöðvarnar gegna mun mikilvægara hlutverki er stjórnvöld virðast gera sér grein fyrir. Hlutverkið felst ekki einungis í öflugu kynningarstarfi innanlands og utan, heldur leggja þær líka mikið á sig við að bæta starfs- og stuðningsumhverfi listamanna, hönnuða og fyrirtækja sem starfa á þeirra verksviði. Þá sinna miðstöðvarnar tilteknu rannsóknar- og menntunarhlutverki, sem verður æ mikilvægara eftir því sem greinarnar eflast og sækja fram. Allar hafa miðstöðvarnar komið sér upp virku neti samstarfsaðila, bæði innanlands og utan sem veitir aðgang að „mörkuðum“ með afurðir listamanna og hönnuða. Slík tengslanet væru óhugsandi án aðkomu miðstöðvanna en eru ómetanleg t.d. aðilum á borð við Íslandsstofu, sem hefur formleg tengsl við forstöðumenn allra miðstöðvanna gegnum fagráð Íslandsstofu í listum og skapandi greinum. Þá veita miðstöðvarnar einnig ráðgjöf ráðuneytum, sveitarfélögum, sendiskrifstofum Íslands og markaðsskrifstofum útflutningsfyrirtækja.
Hluti af fjármögnum kynningarverkefna á sviði lista og menningar kemur gegnum fjárlagalið utanríkisráðuneytis Kynning á menningu, listum og skapandi greinum á erlendri grund, en sá liður hefur lækkað um 2 m kr eftir 2013, er nú 10 m kr í stað 12 áður, auk þess sem sameiginlegur sjóður mennta- og menningarmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis, sem áður naut við, finnst ekki lengur á fjárlögum. Staðan í kynningarmálum lista og menningar erlendis er virkilega bágborin og rétt væri að fjárlaganefnd Alþingis færi ofan í saumana á þeim málum. Nú nýlega veitti ríkisstjórnin 400 m kr til að kynna íslenska matvöru erlendis, sem verður sinnt undir hatti Íslandsstofu, sem hingað til hefur skort fjármagn til að sinna lögbundnu hlutverki sínu gagnvart listum og menningu. BÍL beinir því til fjárlaganefndar Alþingis að málefni kynningarmiðstöðvanna verði skoðuð sérstaklega, lagt mat á fjárþörf þeirra og gerð áætlun um eflingu starfseminnar. Þá leggur BÍL til að fjárlaganefnd styðji Sviðslistasamband Íslands með fjárframlagi að upphæð 10 m kr til að sambandið geti komið á fót Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista.

Raunhæfar væntingar
Bandalag íslenskra listamanna gerir sér að sjálfsögðu grein fyrir erfiðri stöðu í ríkisfjármálum og virðir tilraunir stjórnvalda til að koma böndum á opinber útgjöld. Það er hins vegar bjargföst sannfæring okkar, sem gætum hagsmuna listamanna og hönnuða, að þau tæki sem stjórnvöld hafa í höndunum á hverjum tíma til að tryggja fjölbreytt atvinnulíf í landinu öllu, séu ekki nægilega vel nýtt ef tillögur fjárlagafrumvarpsins 2016 ná fram að ganga. Efling kynningarmiðstöðva og verkefnatengdra sjóða á listasviðinu jafngildir fjárfestingu í hugviti og sköpunarkrafti, sem mun skila sér margfalt bæði með beinum hætti í ríkissjóð en ekki síður í bættum lífsgæðum og fjölbreytni í atvinnulífi landsmanna. Þessi sjónarmið eru studd gildum rökum í ýmsum skýrslum og rannsóknum um hagræn áhrif lista og menningar, auk þess sem þau fara saman við yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar. Bandalag íslenskra listamanna telur sig í erindi þessu hafa fjallað um fjárveitingar til lista og skapandi greina af þekkingu og fagmennsku, ásamt því sem við teljum tillögur okkar vera sanngjarnar og raunhæfar. Að lokum leyfum við okkur að setja fram ósk um fund með fjárlaganefnd Alþingis um málefni þau sem hér hafa verið reifuð,

Virðingarfyllst,
f.h. Bandalags íslenskra listamanna,
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti