Stjórn BÍL skorar á íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir því að íslenski skálinn á Feneyjatvíæringnum verði opnaður á ný.

Stjórn BÍL – Bandalags íslenskra listamanna ályktar í tilefni af lokun íslenska skálans á Feneyja-tvíæringnum og tekur undir með með SÍM – Samtökum íslenskra myndlistarmanna um nauðsyn þess að íslensk stjórnvöld bregðist við og fái skálann opnaðan á ný hið allra fyrsta.

Aðdragandi þess að skálanum var lokað er rakinn í meðfylgjandi greinargerð og eru þær upplýsingar komnar frá Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (KÍM), sem hefur umsjón með framlagi Íslands til Feneyjatvíæringsins.

Stjórn BÍL telur að lögregluyfirvöld í Feneyjum hafi farið út fyrir valdsvið sitt þegar skálanum var lokað og að íslensk stjórnvöld þurfi að bregðist við til að fá skálann opnaðan að nýju. Þar þarf að koma til sameiginlegt átak utanríkisráðherra Gunnars Braga Sveinssonar og mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssonar, enda varðar málið samskipti milli ríkja og því nauðsynlegt að utanríkisráðuneytið beiti sér í málinu.

Stjórn BÍL lítur svo á að með lokun skálans sé vegið að tjáningarfrelsi listamannsins Christoph Büchel og í ljósi þess að tjáningarfrelsið er verndað samkvæmt stjórnarskrá og í alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland er aðili að, sé það hlutverk íslenskra stjórnvalda að bregðast við þegar að því er vegið með þeim hætti sem hér um ræðir.

Greinargerð:

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (KÍM) sendi fjölmiðlum eftirfarandi upplýsingar (27. maí sl.) þar sem leiðréttar voru villandi upplýsingar um lokun Moskunnar, íslenska skálans á Feneyjatvíæringnum. Stjórn BÍL telur mikilvægt að undirstrika þau sjónarmið sem hér koma fram:

1. Fulltrúar Feneyjatvíæringsins hafa veitt upplýsingar um með hvaða hætti þeir hafi stutt íslenska skálann og Moskuna gagnvart embættismönnum borgarinnar. Starfsmaður kynningarskrifstofu tvíæringsins hélt því fram í skriflegri yfirlýsingu til fjölmiðla að fulltrúar frá tvíæringnum hafi setið „ótal fundi með borgaryfirvöldum og fulltrúum frá íslenska skálanum og á þeim unnið ötullega að því að finna lausn sem myndi gera það mögulegt að íslenski skálinn fengi að starfa með eðlilegum hætti.“

Leiðrétting:
Einn fulltrúi Feneyjatvíæringsins (ásamt lögfræðingi frá tvíæringnum) sat einungis tvo fundi fulltrúa íslenska skálans og borgaryfirvalda; annar þessara funda var haldinn á skrifstofu embættis sýslumanns í Feneyjum þann 21. apríl 2015 og hinn fundurinn var haldinn á skrifstofu borgarstjórnar Feneyja þann 6. maí 2015, tveimur dögum fyrir opnun skálans.
– Á þessum fundum samsinnti fulltrúi tvíæringsins kröfum borgaryfirvalda um að ritskoða bæri þann hluta sýningarinnar sem fyrirhugaður var utan á skálanum, þar á meðal tillögur um arabískar og ítalskar áletranir (s.s. orðið „misericordia“ sem merkir miskunn eða vægð) sem embættismenn borgarinnar héldu fram að almenningi gæti staðið ógn af. Fulltrúi Feneyjatvíæringsins tók einnig undir þá skoðun embættismanna borgarinnar að samfélagi múslima bæri að hætta virkri þátttöku sinni í verkefninu til að þar yrði aðeins um „hefðbundna“ myndlistarsýningu að ræða.

2. Á undanförnum vikum hafa borgaryfirvöld í Feneyjum haldið því fram opinberlega að kirkjan Santa Maria della Misericordia sé helgur staður.

Leiðrétting:
Gögn sem KÍM hefur látið borgaryfirvöldum í té sýna glögglega að kirkjan er í einkaeigu og var formlega afhelguð – og þar með ætluð til almennra nota – árið 1973 af þáverandi patríarka Feneyja, Albino Luciani (sem síðar varð Jóhannes Páll páfi fyrsti). KÍM leigði kirkjuna af núverandi eiganda hennar sérstaklega í þeim tilgangi að hýsa þetta tiltekna sýningarverkefni, Moskuna, í íslenska skálanum á sýningartíma tvíæringsins.

3. Því hefur verið haldið fram að starfsemi Moskunnar á þessum stað, í Santa Maria della Misericordia-kirkjunni, brjóti í bága við skipulagslög borgarinnar.

Leiðrétting:
Á heimasíðu Feneyjaborgar (http://sit.comune.venezia.it/cartanet/) er kirkjan Santa Maria della Misericordia skráð sem „Unità edilizia speciale preottocentesca a struttura unitaria“ (þ.e. í svonefndum SU-flokki). Samkvæmt reglugerðum borgarskipulags Feneyjaborgar er heimilt að nota byggingar í SU-flokki sem „söfn, sýningarrými, bókasöfn, skjalasöfn, aðstöðu fyrir samtök, leikhús, félagsmiðstöðvar, stað fyrir trúariðkun, að því gefnu að öll byggingin sé notuð í einum af áðurnefndum tilgangi eingöngu eða að mestum hluta, og þar sem önnur notkun er viðbótar- og/eða hliðarstarfsemi.“

– Ljóst er af þessum upplýsingum frá Feneyjaborg að kirkjan sem KÍM leigir undir skálann samræmist fyllilega skilgreiningu á byggingu í SU-flokki sem sýningarrými og félagsmiðstöð, sem einnig má nota til trúariðkunar. Þrátt fyrir fullyrðingar sem yfirvöld Feneyjaborgar og aðrir hafa sent til fjölmiðla hefur KÍM í einu og öllu fylgt lögum og reglum við notkun Santa Maria della Misericordia-kirkjunnar fyrir íslenska skálann.

4. Þrátt fyrir að KÍM hafi fært sönnur á lögmæti sýningarverkefnis íslenska skálans og þannig svarað öllum fullyrðingum Feneyjaborgar um að ekki hafi verið farið eftir lögum og reglum hafa fulltrúar borgarinnar komið fram með nýjar fullyrðingar annars eðlis: t.d. um fjölda gesta inni í íslenska skálanum. Að undanförnu hafa borgaryfirvöld haldið því fram – og notað sem réttlætingu fyrir lokun skálans – að fjöldi gesta inni í íslenska skálanum hafi á ákveðnum tímum hafi farið yfir leyfileg mörk.

Leiðrétting:
Þó athygli almennings að listviðburðum sé lofsverð er KÍM sammála því að fjöldatakmarkanir þurfi að vera við lýði af öryggisástæðum. Starfsfólk skálans hefur fylgst verið samviskusamlega með gestafjöldi í byggingunni og eftir opnunardaginn hefur tala þeirra aldrei farið yfir 100 í einu.

– Á meðan á opnunarathöfn skálans stóð voru vissulega fleiri en 100 manns inni í skálanum í einu, en slík undantekning er í fullu samræmi við reglur. Á opnunarathöfnum eru gerðar undanþágur frá fjöldatakmörkunum og slík frávik hafa verið látin viðgangast án athugasemda við opnun annarra þjóðarskála tvíæringsins í ár.

5. Borgaryfirvöld í Feneyjum hafa haldið því fram við fjölmiðla að KÍM og listamaðurinn sem er fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum hafi ekki komið upplýsingum um Moskuna á framfæri við borgina eða tvíæringinn með tilskildum fyrirvara.

Leiðrétting:
KÍM kynnti verkefnið fyrir fulltrúum Feneyjatvíæringsins á fundum í janúar og febrúar sl. og skilaði jafnframt inn nákvæmri verkefnislýsingu á Moskunni í janúar sl., bæði til fulltrúa tvíæringsins og til Don Gianmatteo Caputo, menningarfulltrúa patríarksins í Feneyjum. Sama verkefnislýsing var jafnframt send á sama atíma til opinbers fulltrúa starfandi borgarstjóra Feneyja, Vittorio Zappalorto. Upplýsingar um Moskuna og eðli sýningarverkefnisins voru því borgaryfirvöldum, tvíæringnum og kirkjunni að fullu kunnar, og KÍM lagði sig fram um tryggja að allar upplýsingar væru uppi á borðum í öllu ferlinu.

Þann 26. febrúar 2015 fékk KÍM síðan sendar ábendingar frá Feneyjatvíæringnum þar sem fram kom að endurskoða þyrfti hugmynd listamannsins að tímabundinni mosku utandyra, sem hluta af verkefninu í heild, þar sem „yfirvöld hafi ekki samþykkt verkefnið af öryggisástæðum. Yfirvöld lögðu til að fundinn yrði annar og lokaður staður (fyrir verkefnið).“

– Í kjölfar þessara ábendinga fann KÍM einmitt slíkan stað; Santa Maria della Misericordia-kirkjuna í Cannaregio.

Vegna annarra fullyrðinga í fjölmiðlum um málið áréttaði KÍM eftirfarandi atriði:

6.
Gestum Moskunnar er hvorki skylt að fara úr skóm né hylja höfuð sitt með slæðu. Sem hluti af sýningunni og innsetningunni og til að virða hreinlæti staðarins, er hins vegar inni í sýningarskálanum skilti þar sem lagt er til að gestir fari úr skóm, sem hluta af upplifun sinni af innsetningunni. Jafnframt er boðið upp á slæður fyrir þá sem vilja, og er notkun þeirra valfrjáls.

– Það er því algjörlega undir gestum komið hvort þeir fari úr skóm eða noti slæður í heimsókn sinni í íslenska sýningarskálann.

7. Moskan er listaverk eftir listamanninn Christoph Büchel, sem búsettur er á Íslandi, og var tilnefnt af KÍM til að taka þátt í 56. Feneyjatvíæringnum. Innsetningin er listaverk og fullyrðingar um að svo sé ekki eru rangar. Skoðanir um listræn verkefni geta eðli málsins samkvæmt verið misjafnar og eru gestir hvattir til þess að mynda sér sjálfstæða skoðun á listaverkinu, en slík tjáning er einmitt mikilvægur hluti af verkefninu.

– En skoðanir eru ekki staðreyndir.

8. Lokun Moskunnar, íslenska skálans á 56. Feneyjatvíæringnum, var einhliða ákvörðun feneyskra yfirvalda sem halda því statt og stöðugt fram að Moskan sé ekki listsýning heldur staður fyrir trúariðkun og að KÍM ætti því að sækja um leyfi til að starfrækja tilbeiðslustað (en slík leyfi eru veitt eftir öðrum reglum).

– KÍM hafnar þessari skilgreiningu borgaryfirvalda alfarið og ítrekar að innsetningin er tímabundin myndlistarsýning og framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins 2015.