Á aðalfundi BÍL, sem haldinn var í dag í Þóðleikhúskjallaranum, var samþykkt eftirfarandi starfsáætlun fyrir árið 2015:

° BÍL vinnur að því að koma í framkvæmd „Sóknaráætlun skapandi greina“. Það verður gert með því að koma henni í opinbera umræðu og á framfæri við stjórnvöld. Þannig sinnir BÍL þátttöku í stefnumótun á vettvangi skapandi atvinnugreina og tekur m.a. mið af menningarstefnu samþykktri á Alþingi vorið 2013, tillögum skýrslunnar Skapandi greinar – Sýn til framtíðar og stefnumótun í menningarmálum á vettvangi sveitarfélaga t.d. Reykjavíkur. Í samræmi við sóknaráætlunina leggur BÍL áherslu á þátt listanna í þróun skapandi atvinnugreina um land allt og mikilvægt samspil lista, menningar og atvinnulífs.

° Samstarfssamningar BÍL við mennta- og menningarmálaráðuneytið og borgaryfirvöld eru forsenda þess að BÍL geti veitt stjórnvöldum nauðsynlega ráðgjöf í málefnum listanna. Mikilvægt er að framlag opinberra aðila til starfsemi BÍL nægi til að sinna því hlutverki. BÍL vinnur að því að fá framlag ríkisins hækkað þannig að við næstu endurnýjun samningsins verði það ekki lægra að raunvirði en 2008 þegar það var 2,3 millj. Einnig verði leitast við að fá framlag Reykjavíkurborgar hækkað þannig að það jafnist á við verðgildi upphaflega samkomulagsins við borgina 2007. Á sama tíma leiti BÍL nýrra leiða til að styrkja fjárhagslega stöðu sína með það að markmiði að ráða til sín starfskraft til að auka slagkraftinn í hagsmunabaráttu listamanna.

° BÍL stefnir að því að þróa heimasíðu BÍL þannig að hún geti orðið öflugur vettvangur skoðanaskipta um listir, auk þess sem hún miðli greinum frá listafólki og samtökum þeirra. Einnig þarf síðan að miðla upplýsingum um BÍL á erlendum tungumálum og það alþjóðlega samstarf sem BÍL tekur þátt í. BÍL er orðið sýnilegt á samskiptamiðlum og þann sýnileika þarf að efla enn frekar. Aukið rekstrarfé er forsenda þess að áform um öflugri upplýsingamiðlun gangi eftir.

° BÍL vinni að uppbyggingu atvinnutækifæra fyrir listafólk um land allt, m.a. með þátttöku í verkefnum á vettvangi landshlutasamtaka sveitarfélaga í samstarfi við menningarráð landshlutanna. Þá leggi BÍL rækt við samstarf við Samtök skapandi greina, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð og aðra þá sem hagsmuni hafa af uppbyggingu atvinnutækifæra fyrir skapandi fólk. Þá beiti BÍL sér í baráttunni fyrir bættri listmenntun á öllum skólastigum, með því að auka samskipti við yfirvöld menntamála jafnt á vettvangi ríkis sem og sveitarstjórna.

° BÍL leggi rækt við norrænt og alþjóðlegt samstarf, m.a. á vettvangi höfundarréttarmála í samstarfi við systursamtök á Norðurlöndunum og innan ESB. Þá leggi BÍL sig eftir samstarfi við söfn og aðrar stofnanir sem sunda miðlun og rannsóknir á listum og menningararfi.