Stefnumótun stjórnar og aðrir fundir

Stjórnarfundir SÍM hafa verið nítján talsins síðan ný stjórn tók við á aðalfundi í mars. Í byrjun júní var haldinn stefnumótunarfundur innan stjórnar um málefni SÍM. Stjórn fór þar á mikið hugarflug og var niðurstaða fundarins mjög gagnleg.

Stjórn boðaði í tvígang til sambandsráðfundar og var aðal málefnið á dagskrá Dagur myndlistar og framkvæmd hans. Voru formenn allra stjórna hvattir til að kynna daginn innan sinna vébanda og að taka virkan þátt í kynningum með opnum vinnustofum.

 

Heimasíða UMM og SÍM

Á undanförnum mánuðum hefur staðið yfir endunýjun á útliti og uppsetningu á heimasíðum UMM og SÍM. Ný heimasíða gagnagrunnsins UMM fór í loftið í byrjun júní og var haldið námskeið bæði í Reykjavík og á Akureyri, þar sem félagsmönnum var gefinn kostur á að læra að uppfæra síðuna.

Uppfærsla á heimasíða SÍM hefur tekið tímana tvo og í byrjun september vorum við aftur komin á byrjunarreit, en þá var ákveðið var að fá nýja aðila að hönnuninni. Nýja heimasíða SÍM fór síðan í loftið síðustu dagana fyrir jól og var haldin kynning á henni í byrjun árs.

Meðal nýjunga er samstarfssamningur við Iceland Express með bókunarhnapp, þar sem hluti af hverri bókun rennur í ferðasjóð Muggs. Eins er sú nýbreytni verður nú tekin upp að allar fundargerðir verða birtar á heimasíðu SÍM þegar síðan fer í loftið í næsta mánuði.

 

Dagur myndlistar 2. október 2010

Undanfarin ár hefur Samband íslenskra myndlistarmanna staðið fyrir Degi myndlistar þar sem gestum og gangandi hefur verið boðið að heimsækja listamenn á vinnustofur þeirra.

Dagur myndlistar var að þessu sinni haldinn hátíðlegur þann 2. október 2010 og var Kristjana Rós Gudjohnsen fengin til að skipuleggja hann. Í aðdraganda dagsins var í fyrsta sinn sett upp heimasíða fyrir Dag myndlistar. Þar verður í framtíðinni hægt að sækja beint um að taka þátt í deginum, bæði fyrir myndlistamenn og skóla.

Sú nýbreytni var að þessu sinni gerð að myndlistarmenn voru beðnir um að fara með kynningar í grunn- og framhaldsskóla landsins þar sem þeir myndu kynna sjálfan sig og myndlistina sem starfsgrein. Kynningar voru haldnar í 12 grunn- og framhaldsskólum og heppnuðust mjög vel.Opnu vinnustofurnar sem fólki gafst tækifæri á að heimsækja voru í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Akureyri, Öxarfirði og að auki verður ein vinnustofa opin í Minnesota í BNA.

Nú hefur verið sótt um styrki til Dags myndlistar 2011 og vonast SÍM þannig til að gera daginn enn veglegri á næsta ári.

 

Vinnustofur

SÍM hefur rekið vinnustofur um árabil á tveimur stöðum í borginni. Þannig eru rúmlega 40 félagar með vinnuaðtöðu á Seljavegi og í Sjónlistamiðstöðinni á Korpúlfsstöðum eru um 50 vinnustofur fyrir listamenn og hönnuði ásamt verkstæðum Leirlistarfélags og Textílfélags.

 

Sjónlistamiðstöðin á Korpúlfsstöðum

Rekstrarfélag Sjónlistarmiðstöðvar Korpúlfsstöðaða sér um rekstur á vinnustofunum að Korpúlfsstöðum. Fjárhagslegur rekstur Sjónlistamistöðvar Korpúlfsstaða er í höndum SÍM en í stjórn rekstrarfélagsins sitja þrír fulltrúar frá SÍM og tveir fulltrúar hönnuða.

Undanfarið hafa verið uppi hugmyndir hjá Sjónlistarmiðstöð að setja á stofn fullbúna kaffistofu og fá þar að rekstraraðila, ásamt því að finna stóra salnum á 2. hæð nýtt og meira hlutverk. Vonandi verða þær framkvæmdir komnar á skrið í vor, en allar góðar hugmyndir eru vel þegnar í því sambandi.

 

Ný vinnustofa formlega opnuð að Lyngási í Garðabæ

Á vormánuðum bauðst SÍM til leigu húsnæði að Lyngási í Garðabæ. Eftir að hafa skoðað húsnæðið ákvað SÍM að taka það á leigu. Þann 1. júní fluttu fyrstu listamennirnir inn og eru nú um tuttugu listamenn starfandi þar í sextán vinnustofum.Voru þær svo formlega opnaðar nú rétt fyrir jólin með opnu húsi þann 18. desember. Samband íslenskra myndlistarmanna óskar listamönnunum til hamingju með vinnustofurnar og góðs gengins í framtíðinni.

 

Gestavinnustofur SÍM í Berlín

Framkvæmdastjóri SÍM hún Ingibjörg stóð í ströngu á árinu við að koma upp aðstöðu fyrir íslenska myndlistarmenn í Berlín. Í sumarfríinu sínu, þegar hún átti að vera að slappa af, þeystist hún um alla Berlín að leita að heppilegu húsnæði fyrir gestavinnustofur handa félagsmönnum. Það tóks og stórhuga sem hún er tók SÍM á leigu fjórar íbúðir með vinnuaðstöðu í Neue Bahnhofstrasse í Friedrichshein og hafa þær nú verið settar í stand. Þar gefst félagsmönnum SÍM nú tækifæri á að leigja sér vinnuaðstöðu í mánuð í senn eða styttri tímabil yfir sumarið. Opnað hefur verið fyrir rafrænar umsóknir á heimasíðu okkar og er næsti umsóknarfrestur 17. janúar. Hugsanlega verður félagsmönnum BÍL einnig gefinn kostur á að dvelja í gestavinnustofunum, ef plássrúm leyfir.

 

Skrifstofa SÍM

Hér á skrifstofu SÍM hefur orðið fjölgun á árinu. Fjórir starfskraftar starfa hér nú í rúmum þremur stöðugildum. Kristín Kristjánsdóttir og Kristjana Rós Gudjohnsen sjá um skrifstofu og gestavinnustofur. Ingibjörg Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri SÍM stýrir skrifstofunni að sinni alkunnu snilld og Hrafnhildur Sigurðardóttir sér um formennsku.

 

Alþjóðlegt samstarf

Fundir hjá IAA – International Artist Association

Samband íslenskra myndlistarmanna hefur frá upphafi tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi ýmiskonar. SÍM er aðili að alþjóðlegu samtökunum IAA sem stofnuð voru í skjóli Unesco. Evrópudeild þeirra fundar reglulega og var síðasti fundur samtakanna í Bratislava um miðjan október. Formaður SÍM mun sótti þann fund ásamt fyrrverandi formanni Áslaugu Thorlacius, þar sem hún er enn gjaldkeri samtakanna. Á þessum fundi var m.a. tekið fyrir átak IAA til að kynna skírteini listamanna svo að fleiri listasöfn í heiminum taki skírteinið gilt.

 

KKNord – KulturKontakt Nord

Undanfarin þrjú ár hefur SÍM notið stuðnings KulturKontakt Nord vegna gestavinnustofa á Seljavegi og að Korpúlfsstöðum. Stuðningur KKNord fólst í því að SÍM gat boðið fjórum norrænum og baltneskum listamönnum á ári til tveggja mánaða dvalar sér að kostnaðarlausu auk ferða- og dvalarstyrks.

Fulltrúar á vegum SÍM, þær Ingibjörg og Ingunn, sóttu fund á vegum KKNord sem haldinn var í Vilinius í lok október s.l.. Þar hittust fulltrúar þeirra norrænu gestavinnustofur sem hlotið hafa sambærilegan styrk á undanförnum og næstkomandi árum og báru saman bækur sínar.

 

f.h. stjórnar SÍM

Hrafnhildur Sigurðardóttir