Ágúst Guðmundsson:

 

Nýlega var tilkynnt um úthlutun listamannalauna, og það gleðilega gerðist að athugasemdir þeirra sem mæla slíkum launum almennt mót voru í lágmarki. Það bendir til þess að fólk sé að gera sér grein fyrir mikilvægi þessarar fjárfestingar fyrir þjóðina. Kannski tekur það líka eftir því að upphæðirnar eru ekki háar. Um 300 milljónir nægja til að borga fyrir pakkann í heild sinni. Ríkið fær í rauninni mikið fyrir afar lítið.

Hér er ekki um styrki að ræða, heldur laun. Launin eru fyrir ákveðin verkefni sem valin eru af kostgæfni af fagfólki. Þó að hver mánaðarlaun séu ekki há – og mættu vissulega vera hærri – eru þau listamönnum afar mikilvæg. Fólk hefur getað tekið sé frí frá öðru brauðstriti og unnið að list sinni, samið tónverk, sett upp leikrit eða ritað bók, sem annars hefði ef til vill aldrei séð dagsins ljós. Það er aldrei til nægilegt fé til að mæta nema hluta af óskum umsækjenda, og mun meira er um niðurskurð og hafnanir en gleðilegar úrlausnir. Til dæmis má geta þess að innan við fimmta hver umsókn myndlistarmanna hlýtur jákvæða afgreiðslu.

Kerfið hefur samt skipt sköpum, en gæti leitt til byltingar í listalífi þjóðarinnar ef verulega væri bætt í púkkið. Það þarf reyndar ekki mikið til, kannski aðrar 300 milljónir – og yrði einföld ávísun á magnað og gróskumikið listalíf. Það er í rauninni furðulegt að enginn stjórnmálaflokkur skuli hafa gert það að stefnumáli að stórauka fjárfestingu í listamönnum. Væri það ekki einhver skynsamlegasta nýting á skattfé eyjarskeggja sem hugsast gæti og sú sem líklegust væri til að auka hróður landsins um veröldina? Sér í lagi í ljósi þess hve þessi bylting yrði í raun ódýr!

Án listamanna er tómt mál að tala um lifandi íslenska menningu. Jafnvel þeir sem gagnrýna opinbera fjárfestingu í listum eru yfirleitt drjúgir með þá staðreynd að Íslendingar eru menningarþjóð, þrátt fyrir fámennið. Ég get vel skilið þá sem vilja halda útgjöldum ríkisins í lágmarki og útiloka allan óþarfa þar, en jafnvel þeir vilja yfirleitt sjá hér auðugt lista og menningarlíf. Og þá er eins gott að gera sér grein fyrir því að slíkt verður ekki til án fjármagns. Fámennið ræður því að markaðurinn einn stendur ekki undir blómlegu listalífi.

Við segjum erlendum gestum frá því með stolti, hvar í flokki sem við erum, að hér séu leikhús og sinfóníuhljómsveit, dansflokkur, ópera og fjöldi tónleika, að ekki sé minnst á myndlistarsýningar, íslenskar kvikmyndir og útgefnar bækur. Er þá ekki komið nóg? skyldi einhver spyrja.

Svarið er nei. Of mörg góð verkefni hljóta enga fyrirgreiðslu. Þau starfslaun sem þó gefast eru bæði lág og endast örsjaldan út allt vinnuferlið. Aukið fjármagn í listirnar er ennfremur það sem helst tryggir aukin gæði og raunar það eina sem gefur innlendum listamönnum færi á að veita erlendum kollegum samkeppni. Sú samkeppni er raunveruleg í heimi þar sem samskipti þjóða hafa stórum aukist og ýmis óþörf huglæg landamæri hafa gufað upp. Íslensk leikrit mega ekki vera síðri en sýningar á erlendum verkum, skáldsögum er ætlað að keppa við erlend skáldrit, ekki bara hérlendis, heldur einnig erlendis þar sem útgáfur á þýddum íslenskum bókum hafa margfaldast, sinfónían gefur út hljómdiska sem dæmdir eru í erlendum tímaritum, íslensk myndlist er löngu orðinn alþjóðleg o.s.frv.

Bæði hjá ríki og borg hefur nú verið úrskurðað að framþróun og útrás í orkumálum skuli á hendi opinberra aðila. Þetta hafa allir sammælst um, þar á meðal þeir sem helst mæla fyrir einkaframtakinu. Sama þarf að gerast í orkumálum menningarinnar. Hugarorkan bíður þess að aukið fjármagn kyndi undir framþróun og útrás. Hráefnið er nóg og bíður þess eins að einhver bori eftir því.

300 milljónir mundu leiða til byltingar. Hvar er stjórnmálaflokkur sem er reiðubúinn til að viðurkenna það?