Gyrðir Elíasson hlýtur bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 fyrir smásagnasafnið Milli trjánna. Í rökstuðningi dómnefndar segir:
„Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 hlýtur íslenski rithöfundurinn Gyrðir Elíasson fyrir smásagnasafnið „Milli trjánna“, stílhreint og framúrskarandi skáldverk sem lýsir innri og ytri átökum og er í samræðu við heimsbókmenntirnar.“

Gyrðir Elísasson (1961) gaf út sína fyrstu bók árið 1983, og eftir hann hafa komið út fjölmargar smásagna- og ljóðabækur og fimm skáldsögur.

13 rithöfundar frá Norðurlöndunum og sjálfstjórnarsvæðunum voru að þessu sinni tilnefndir til verðlaunanna.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs nema 350.000 dönskum krónum, nær 7,5 milljónum íslenskra króna. Gyrðir Elíasson mun veita verðlaununum viðtöku á Norðurlandaráðsþinginu 2. nóvember 2011 í Kaupmannahöfn.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fagna hálfrar aldar afmæli í ár og í tilefni þess stendur Norðurlandaráð fyrir fjölda viðburða. Nánari upplýsingar um hálfrar aldar afmælið og alla rithöfundana á vefsíðunni
http://www.norden.org/bokmenntaverdlaunin