SKÝRSLA FLH – STARFSÁRIÐ 2015

Félag leikskálda og handritshöfunda er aðalhagsmunafélag höfunda leikins efnis á Íslandi. Skráðir félagar í árslok 2015 voru 104, þar af greiðandi 70.

Félagið stendur vörð um hagsmuni leikskálda og handritshöfunda einkum hvað viðkemur höfundarétti, samningamálum, kjörum og starfsumhverfi stéttarinnar. Félagið gerir heildarsamninga við leikhúsin í landinu og við kvikmyndaframleiðendur og hefur samskipti við stjórnvöld og stofnanir um hvaðeina sem viðkemur málefnum leikskálda og handritshöfunda. Sömuleiðis beitir félagið sér fyrir því að auka veg og hróður íslenskrar leikritunar, hér á landi sem og annars staðar og tekur þátt í margvíslegu starfi sem miðar að því að koma íslenskum leikverkum og leikskáldum á framfæri. FLH á í nánu samstarfi við systurfélög sín á norðurlöndunum og formaður situr í stjórn Norrænu leikskáldasamtakanna. FLH er aðili að Evrópsku handritshöfundasamtökunum, FSE, og tekur virkan þátt í starfi þeirra. FLH er einnig aðili að Sviðslistasambandi Íslands.

SKIPULAG
Í stjórn FLH sitja: Margrét Örnólfsdóttir formaður, Salka Guðmundsdóttir gjaldkeri, Ólafur Egill Egilsson ritar, Ármann Guðmundsson meðstjórnandi og Nanna Kristín Magnúsdóttir meðstjórnandi.

Stjórnin fundar að jafnaði einu sinni í mánuði, nema yfir hásumarið, en mun meiri samskipti eiga sér stað með tölvupósti, auk þess sem aðkallandi verkefni kalla stundum á aukafundi. Stjórn starfar öll í sjálfboðavinnu og reynir að skipta með sér verkum eins og kostur er, einnig er eftir föngum leitað til almennra félaga að taka að sér verkefni þegar við á. Félagið leigir skrifstofu- og fundaaðstöðu í FÍL húsinu, Lindargötu 6.

HELSTU VERKEFNI OG VIÐBURÐIR 2015:

Undirbúningur viðræðna við SÍK um heildarsamninga milli handritshöfunda og sjálfstæðra kvikmyndaframleiðenda.

Umsókn FLH um aðild að Kvikmyndaráði – Samskipti við Kvikmyndaráð og Mennta- og menningamálaráðuneyti.

Samstarf við LHÍ – leikritunarsamkeppni fyrir útskriftarhóp 2016.

Samstarf við Borgarleikhúsið og Listahátíð í Reykjavík vegna höfundasmiðju sem haldin verður í maí 2016.

Norrænt samstarfsverkefni, undirbúningur – nordicDRAMA platform þar sem fjögur íslensk leikskáld verða hluti af 16 manna hópi höfunda frá fjórum norðurlöndum. (ágúst 2016– júní 2017)

Nordic Drama Now, september 2015 – Kynning á nýrri norrænni leikritun á vegum norrænu sendiráðanna í London með leiklestrum. Okkar fulltrúi var Brynhildur Guðjónsdóttir með verk sitt Brák. Viðburðurinn var gríðarvel sóttur og heppnaður í alla staði og hefur þegar stóraukið áhuga og eftirspurn eftir íslenskum leikverkum. Á næstu mánuðum er von á hópi ungra breskra leikstjóra til að kynna sér íslenskt leikhús nánar og hitta höfunda.

Stockfish kvikmyndahátíð, FLH er einn þeirra aðila sem stendur á bak við Stockfish og á fulltrúa í stjórn hátíðarinnar. Í tengslum við hátíðina er staðið fyrir handritasmiðju MIDPOINT auk masterclass um handritsskrif.

Aðalfundur NDU í Svíþjóð, september 2015 – þrír stjórnarmenn FLH sóttu aðalfund Norrænu leikskáldasamtakanna í Stokkhólmi.

Aðalfundur FSE og Evrópsku handritshöfundaverðlaunin – Formaður sótti aðalfund Evrópsku handritshöfundasamtakanna í Brussel og var jafnframt viðstaddur afhendingu fyrstu Evrópsku handritshöfundaverðlauna FSE.

Ný heimasíða félagsins er í smíðum og kemst vonandi í gagnið á næstu vikum.

Önnur reglubundin störf:

Samningamál – leikhússamningar, RÚV samningar og samningar vegna handritsskrifa fyrir sjónvarp og kvikmyndir.

Upplýsingagjöf og samskipti um hvaðeina sem viðkemur málefnum leikskálda og handritshöfunda.

Leiðbeiningar og aðstoð við félagsmenn.

Margrét Örnólfsdóttir, formaður