Við lifum á óvenjulegum tímum. Við sem komin erum fram yfir miðjan aldur þekkjum í rauninni aðeins hægfara umbreytingar til hins betra í efnahagslegu tilliti, að frátöldum minniháttar niðursveiflum, sem einkum stöfuðu af aflabresti, eins og þegar Íslendingar kláruðu síldina með kappsfulltri ofveiði á 7. áratugnum..Sögur höfðum við heyrt um einhvern Íslandsbanka sem fór á hausinn snemma á 20. öldinni, en það kom lítið við okkur og enginn fann að því að upp væri tekið nafn þessa gjaldþrota banka þegar nokkrar fjármálastofnanir voru sameinaðar undir þeim hatti fyrir nokkrum árum.

Í október 2008 fer svo viðkomandi banki á hausinn ásamt hinum bönkunum tveim, og síðan hafa Íslendingar þurft að eiga við afleiðingarnar og eru ekki nálægt því að afgreiðar þær. Samdráttur hefur orðið á öllum sviðum, niðurskurður hins opinbera er einungis ein birtingarmynd þess af mörgum, og allir vita að enn meiri niðurskurður er í vændum, ekki síst hjá því opinbera. Á slíkum tímum heyrum við gjarnan hugleiðingar í þá veru að listirnar séu lúxusfyrirbæri, og spurt er hvort ekki sé beinlínis skynsamlegt að leggja niður opinberan stuðning við listamenn og nota féð í eitthvað brýnna.

Við erum sem sagt komin í vörn. Ég get tekið nærtækt dæmi úr kvikmyndunum. Á uppgangsárunum frá 2000 – 2006 var engin umtalsverð aukning á framlögum til Kvikmyndamiðstöðvar. Þá var sest niður og gerð fjögurra ára áætlun, til ársins 2010, þar sem loksins skyldi bætt úr þessari vanrækslu við grein sem augljóslega hafði staðið sig með prýði og aukinheldur aflað gjaldeyristekna, meira að segja voru haldgóð rök fyrir því að greinin skilaði í heild meiri tekjum til ríkissjóðs en næmi framlagi Kvikmyndasjóðs til framleiðslunnar.

Við fögnuðum samkomulaginu um kvikmyndagerðina á sínum tíma. Sérstök áhersla var lögð á að styrkja nýstofnaðan, en afar veikan sjónvarpssjóð. Hann nýttist síðan til að hleypa af stað framleiðslu leikinna þáttaraða sem hafa mælst afar vel fyrir og raunar selst út fyrir landsteinana. Árið 2010 áttu, samkvæmt samningi menntamálaráðuneytisins við kvikmyndageirann, 700 milljónir að fara til Kvikmyndamiðstöðvar – álíka upphæð og nú fer í Þjóðleikhúsið. Í raun verður upphæðin 450 milljónir. Munurinn er 35,7%.

En árið 2009 byrjaði reyndar fremur vel fyrir listamenn, þó að undarlegt megi virðast. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þáverandi menntamálaráðherra hafði heitið því að fjölga starfslaunum listamanna og talað var um þriðjungs fjölgun auk smávægilegrar hækkunar launanna sjálfra. Þessum árangri hefðum við ekki náð ef BÍL hefði ekki tekið málið aftur á dagskrá og lagt séstaka áherslu á það síðastliðin tvö ár. Þetta hafði verið rætt nógu lengi sem sérstakt sanngirnismál til að erfitt væri að bakka með það, þrátt fyrir erfitt árferði, og undir lok 2008 var kjörin viðræðunefnd BÍL við ráðuneytið sem átti mikilvægan, daglangan fund með hlutaðeigandi aðilum fyrir rétt um ári síðan, eða nánar tiltekið 7. janúar 2008.

Á þessum mikilvæga fundi tókst að komast að niðurstöðu um skiptingu milli hinna ýmsu sjóða, ennfremur voru gerðar smávægilegar breytingar á fyrirkomulaginu. Við héldum síðan stjórnarfund 12. janúar þar sem eftirfarandi ályktun var samþykkt:

Stjórn BÍL lýsir yfir ánægju sinni með framkomna tillögu um listamannalaun og styður hana fyrir sitt leyti. Jafnframt telur stjórnin afar jákvætt að fá að fjalla um frumvarpið á þessu stigi málsins.

Stjórnin álítur að rétt sé að skilja á milli tónlistarflytjenda og sviðslistafólks, sem hingað til hafa verið saman í listasjóði, með því að stofnaðir verði tveir aðgreindir sjóðir.

Þegar til kom virtust þessar breytingar standa svolítið í ráðuneytinu, þeim fannst þær ekki vera eðlileg niðurstaða af fundinum 7. janúar. Ég átti býsna erfiðan fund með tveim starfsmönnum ráðuneytisins 26. janúar, þar sem allt virtist sigla í strand á því prinsippi að ekki mæti skipta Listasjóði í tvennt. Því var haldið fram að ekki ríkti einhugur innan BÍL um málið. Ég fór af fundinum með þá spurningu í huga hvort ráðuneytið væri að guggna á þessu og reyna að koma sökinni af misklíðinni yfir á listamenn sjálfa. Það kom reyndar aldrei fram vegna þess að síðar þennan sama dag féll ríkisstjórnin, og þá var ljóst að Þorgerði Katrínu mundi ekki gefast færi á að tala fyrir málinu að sinni.

Þann 31. janúar héldum við aðalfund okkar. Ályktanir fundarins voru bornar í ráðuneytið strax eftir helgina, en á því augnabliki hafði ég litlar vonir um að á þeim yrði tekið mark.

Um viku síðar tók við minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna, með stuðningi Framsóknar. Nýr mennta- og meningarmálaráðherra var Katrín Jakobsdóttir. Sjálf nafnabreytingin á embættinu fannst okkur strax boða gott. Við sendum Katrínu samdægurs heillaóskir, auk þess sem hún fékk ályktanir aðalfundar sendar daginn eftir. Þær voru í grunninn þrjár: um starfslaun listamanna, um atvinnuöryggi listamanna og um tónlistarhús. Þann 16. febrúar var ég á fundi í ráðuneytinu, og þar fékk ég að vita, öldungis óformlega, að nýr menntamálaráðherra ætlaði sér að leggja frumvarpið um listamannalaun fram á yfirstandandi þingi. Í rauninni heyrðist mér á viðmælanda mínum að Katrín Jakobsdóttir hyggðist taka allar ályktanir BÍL alvarlega.

Þetta tók ég til umræðu á stjórnarfundi kl 4 sama dag. Ég lagði jafnframt ríkt að öllum að rjúfa í engu samstöðuna sem komin var um öll atriði málsins. Vikurnar sem í hönd fóru átti ég gott samstarf við Sigtrygg Magnason, aðstoðarmann ráðherra, og til þess var séð að vilji listamanna væri skýr og hvergi misfellur að sjá. Eftir frekari umræður hafði verið afráðið að halda fast við ályktunina 12. janúar,og á endanum var hún tekin til greina. Listasjóðnum var skipt upp (og hér kemur fram hvernig sjóðirnir vaxa næstu þrjú árin).

Katrín Jakobsdóttir ákvað að koma lögunum í gegnum þingið á þeim skamma tíma sem þessi stjórn ríkti. Þetta kom fram á hinum hefðbundna samráðsfundi sem stjórn BÍL á árlega með ráðherranum og fulltrúum ráðuneytisins. Mér fannst við hafa þarna ráðherra sem vildi raunverulega hlusta á okkur og jafnvel eitthvað fyrir okkur gera. Á fundinum var lögð sérstök áhersla á stöðu listdansins, Irma Gunnarsdóttir talaði máli listdansara og náði greinilega eyrum ráðherrans. Þar tel ég að sé að finna ástæðu þess að framlög til Íslenska dansflokksins voru hækkuð í síðustu fjárlögum, á meðan allir aðrir máttu þola niðurskurð.

Ný lög um listamannalaun voru síðan samþykkt á alþingi og er þess að vænta að fjölgun starfslauna hefjist strax á þessu ári.

Samráðsfundur var einnig haldinn með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra, og þótti takast vel. Þar var lögð fram nýsamþykkt menningarstefna borgarinnar, og verður hún að teljast mikil betrumbót frá fyrri stefnu. Margir frá BÍL lögðu þar hönd að verki, bæði innan stjórnar og utan.

Allsérstakt deilumál kom upp þegar menningar- og ferðamálaráð borgarinnar ákvað að tilnefna fatahönnuð sem borgarlistamann. Fulltrúum BÍL í ráðinu fannst rétt að leggja fram bókun þar sem minnt var á þá 3000 listamenn sem væru í samtökum okkar. Þessi bókun fór illa í marga og komu fram yfirlýsingar og greinar í blöðin, sumar allstóryrtar. Frá upphafi hefur mér fundist þessi andstaða byggð að verulegu leyti á misskilningi. Ég veit að sumir þeir sem fyrst fóru af stað höfðu ekki lesið bókun okkar, en hefðu þeir gert það hefðu þeir komist að því að hún er varfærin, málefnaleg og raunar kurteisleg. Þar kemur hvergi fram sú skýring sem skein í gegnum flest skrif á móti okkur Áslaugu Thorlacius, að með þessu væru listamenn að líta niður á hönnuði og teldu þá ekki þess verða að vera í hinum göfuga hópi listamanna.

Í grunninn vorum við einungis að verja hagsmuni þeirra sem höfðu valið okkur til trúnaðarstarfa. Ég held raunar að BÍL þurfi einmitt að vera vel á varðbergi til að halda í það sem við þó höfum og glopra því ekki frá okkur. Listamenn hafa haft mikið fyrir því að fá valdhafa til að koma á fót margvíslegum stofnunum og launa- og styrkjakerfi fyrir listirnar í landinu; heiðursnafnbætur eru hluti af þessu, enda fylgja slíkum upphefðum fjármunir og eftirsóknarverð athygli. Um allt þetta þarf að standa vörð, ekki síst á samdráttartímum.

Málið var tekið fyrir á stjórnarfundi BÍL, og niðurstaðan var stutt yfirlýsing sem allir viðstaddir samþykktu. Þarna lagði ég til að við óskuðum borgarlistamanni til hamingju, ég sendi Steinunni Sigurðardóttur, fatahönnuði, síðan blómvönd með þeim hamingjuóskum.

Hvað hönnuðina snertir vil ég taka það skýrt fram að BÍL er ekki andstætt þeim. Ég vil benda á tvennt þessu til sönnunar: þegar kom fram tillaga frá minnihlutanum í menningar- og ferðamálaráði um að stofna sérstök hönnunarverðlaun borgarinnar studdum við BÍL-fulltrúar það eindregið, en meirihlutinn vildi ekki fara þá leið. Í öðru lagi hófum við í stjórn BÍL árið á því að samþykkja að stofnaður yrði nýr sjóður fyrir hönnunina í lögunum um starfslaun listamanna. Þar eru þó hönnuðir taldir meðal listamanna, enda ekkert því til fyrirstöðu.

Raunar tel ég gleðilegt hve ýmiskonar hönnun hefur fleygt fram undanfarið – og tala ég þar væntanlega fyrir munn flestra hér inni. Ég get vel séð fram til þess tíma að hönnuðir gangi í okkar raðir, en tel óhjákvæmilegt að það gerist í góðu samstarfi við myndlistarfólk, sem hljóta að teljast hönnuðunum skyldastir.

Reyndar hafði Fatahönnunarfélagið samband við mig í haust, fyrst í tölvubréfi og síðan í símtali, og ræddi um að senda inn umsókn. Ég hvatti formanninn til að gera það, umsóknin yrði síðan tekin fyrir á stjórnarfundi. Hvað síðan gerðist veit ég ekki – aldrei barst umsóknin.

Svo sem kunnugt er eru fulltrúar BÍL í menningar- og ferðamálaráði tveir. Á síðasta ári sat ég í öðru sætinu, en Áslaug Thorlacius í hinu fyrri hluta ársins og Þuríður Sigurðardóttir frá septemberbyrjun. Við í stjórn BÍL höfum stundum rætt um að breyta fyrirkomulaginu og gefa fleiri fulltrúum kost á að sitja fundi ráðsins. Á það hefur ekki verið knúið undanfarið, og á meðan svo er munum við Þuríður sækja þessa fundi fyrir hönd BÍL.

Nokkrum sinnum hafa hinir pólitísku fulltrúar í ráðinu haft á orði að í staðinn fyrir að hafa tvo fulltrúa frá listunum ætti einn að vera þaðan, en hinn væri fulltrúi ferðamálanna. Hér er því komið enn eitt dæmið um stöðu sem þarf að gæta vel að og sjá til að verði ekki frá okkur tekin.

Vert er að geta þess að í menningar- og ferðamálaráði hefur ríkt nokkuð góður andi. Mun meira samstarf er á milli flokkanna en ég hef áður séð, og er það guðsþakkarvert, ekki síst þegar draga þarf úr útgjöldum. Ýmsar aðhaldsaðgerðir hafa lent á listamönnum. T.d. voru fastir samningar teknir til endurskoðunar og óumbreytanleg og heilög atriði eins og vísitölubindingar voru þurrkuð út. Tekið var fyrir ókeypis húsnæði, sem bitnaði illa á myndlistarmönnum, í höfðustöðvum þeirra í Hafnarstræti sem og aðstöðu myndhöggvara, auk þess sem hærri leigu var krafist á Korpúlfsstöðum og víðar. Rithöfundar þurftu að byrja að borga fyrir Dyngjuveginn og svo framvegis. Dregið var stórlega úr samningsbundinni hækkun til Leikfélags Reykjavíkur – og það eftir að leikárið hófst, sem allir viðurkenna að hafi verið einkar óheppilegt. Þetta eru svo sannarlega óvenjulegir tímar.

Annars hófu borgaryfirvöld aðhalds- og hagræðingaraðgerðir sínar yfirleitt fyrr en ríkið. Samdrátturinn í borginni var að mestu unninn í sátt, þetta var einfaldlega verk sem þurfti að vinna, auðvitað varð niðurstaðan minni þjónusta við borgarana, en þeir sem best þekktu til virtust þó oftast með í ráðum. Ríkið tók frekar þá stefnu að hliðra til málum og gera listgreinum mishátt undir höfði og fórst það að mínu viti heldur óhönduglega, auk þess sem allt of seint var farið út í þá vinnu og án ráðslags við sjálfa fagaðilana.

Ríkið ákvað að draga mun meira úr framlögum til sjóða en til stofnana. Hér er fram komið stórmál sem við þurfum að bregaðst við. Ráðamönnum finnst þeir vera með þessu að varðveita störf – sem vissulega má til sanns vegar færa. Á hitt hef ég svo haft margvíslega ástæðu til að benda, bæði hjá ríki og borg, að stuðningur við listastarfsemi er ekki síður atvinnuskapandi. Að lækka framlög til sjóða getur raunar gert mun fleiri atvinnulausa en að lækka framlög til stofnana. Ríkið gekk miklu lengra í þessu en borgin, starfslaun listamanna eru í rauninni eina undantekningin. Framlög til sjóða voru almennt lækkuð hjá ríkinu um 15–20 % frá tölum síðasta árs.

Við erum í vörn. Á ársfundi Listahátíðar hafði borgarstjóri á orði yfir kveðjuskálinni að lagt hefði verið að henni að skera menningarframlög niður um 50%. Svo var þó ekki gert. Þvert á móti fór borgin í samvinnu við ríkið til að ljúka byggingu tónlistarhúss, og niðurskurður í menningar- og ferðamálaráði var ekki meiri en annars staðar í borgarkerfinu. Það er vonandi að ekki verði breyting á þeirri stefnu hjá Reykjavíkurborg, en fyrir því er hreint ekki nein trygging, einkum í ljósi þess að sveitarstjórnakosningar verða í vor og engin leið að spá um hvaða stefna verði ríkjandi næsta sumar.

Á fundi hjá Reykjavíkurakademíunni sl. vor auglýsti ég eftir menningarstefnu ríkisins. Katrín Júlíusdóttir, menningarmálaráðherra, var á staðnum og stakk upp á þvi að við listamenn byrjuðum að skrifa slíka stefnu. Við í stjórn BÍL brugðumst skjótt við, og mikið starf var unnið í sumar og fram á haust. Við réðum Njörð Sigurjónsson frá Háskólanum á Bifröst til að stjórna verkinu, og að hans ráði var lögð áhersla á listirnar og verkefnið kallað listastefna. Unnið var í fimm hópum eftir listgreinum. Um þær mundir sem hóparnir skiluðu af sér, komu fram upplýsingar um yfirvofandi niðurskurð, og þá þótti stjórn BÍL rétt að fresta frekari vinnu fram yfir áramót.

Í sumar var svo ráðinn maður til að ritstýra menningarstefnu ráðuneytisins, Haukur F. Hannesson, sem okkur er að góðu kunnur frá síðasta aðalfundi. Á fundi með ráðuneytinu í sumar kom skýrt fram að litið er á listastefnu BÍL sem mikilvægt framlag til menningarstefnunnar. Hins vegar er svolítið merkilegt að við skyldum hvött til að móta stefnuna – og gerum það án þess að nokkur fjárhagslegur stuðningur komi fyrir – en maður síðan ráðinn í sams konar vinnu án nokkurs samráðs við okkur.

Barátta haustsins hefur einkum snúist um fjárlög alþingis. Fundir voru haldnir með menntamálanefnd og fjárlaganefnd. Þetta voru upplýsandi fundir. Engum dylst að ríkið þarf að draga úr útgjöldum, og við sem störfum í menningargeiranum verðum að horfast í augu við þá staðreynd að ákaflega mörgum þykir upplagt að byrja hjá okkur. Það er hreint ótrúlegt að sjá hve margir líta á störf listamanna sem eitthvað sem hægt sé að leggja niður með ofureinföldum hætti, framlag okkar til þjóðfélagsins í heild er stórum vanmetið og gildir nánast einu hvar í flokki menn eru, þó að þetta sé kannski greinilegast í Sjálfstæðisflokknum.

Á mikilvægum stjórnarfundi í október síðastliðnum fórum við yfir drög að fjárlögum. Kolbrún Halldórsdóttir var tekin við af Steinunni Knútsdóttur sem fulltrúi leikstjóra í stjórn BÍL, og ég vil sérstaklega taka fram að við nutum góðs af pólitískri reynslu hennar í því sem nú fór í hönd. Við ákváðum að leggja megináherslu í fernt í málflutningi okkar: Kvikmyndamiðstöð, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Sjálfstæðu leikhúsin og safnlið listastarfsemi , en undir hann ganga m.a. Bókmenntasjóður og Tónlistarsjóður. Almennt tel ég að skynsamlegt hafi verið að setja ákveðin mál á oddinn.

Ég dreg þann lærdóm af viðræðum við alþingismenn að erfitt sé að hafa áhrif á mál eftir að þau eru komin í hendur alþingis. Heppilegra sé að reyna að ná samstarfi um þau við mennta- og menningarmálaráðuneytið, meðan þau eru í mótun þar. Þar finnst mér hins vegar oft skorta áhugann. Vitaskuld erum við í grunninn þrýstihópur sem alltaf er að biðja um meiri fjárframlög, og vafalaust fer það í taugarnar á ráðuneytisfólkinu. Ég held þó að einmitt á niðurskurðartímum sé heppilegt að hafa samráð við okkur áður en róttækar ákvarðanir eru teknar, þó ekki væri nema til veita okkur tækifæri til að upplýsa viðkomandi um það sem á spýtunni hangir okkar megin. Ég tók t.d. eftir því að það kom alþingismönnum á óvart að Sjálfstæðu leikhúsin hefðu fengið yfir 30 milljónir úr fjölþjóðlegum sjóðum í verkefni ársins sem nú er að byrja. Tölulegar upplýsingar um kvikmyndagerðina vöktu einnig óskipta athygli alþingismanna, hvar í flokki sem þeir stóðu. Kristján Þór Júlíusson hafði á orði að við mættum vera háværari um hagrænt framlag listamanna til þjóðfélagsins.

Utanríkisráðherra sendi mér tölvuskeyti sem svar við ályktunum okkar. Þar segir:

“Í fljótu bragði sýnist mér að BÍL hafi ekki komið auga á nytsemd tilvonandi Íslandsstofu varðandi listir, og útflutning menningar. Ég tel, að takist vel til með hana, þá gæti þar orðið um drjúga lyftistöng f. íslenska menningu að ræða. Menningariðja sem útlöndum tengist er þar reifuð í frumvarpi um stofuna, sem ein af burðarstoðum í framtíðarverki hennar.” Hvort sem þarna er að finna laust á vanda Sjálfstæðu leikhúsanna og Kynningarmiðstöðvar myndlistar eður ei, þykir mér af þessum sökum við hæfi að fá nokkra vitneskju um Íslandsstofu síðar á þessum fundi.

Undir lok ársins lenti ég í blaðadeilum um lottó. Ég skrifaði fyrst grein þar sem ég benti á að víðast í nágrannalöndum okkar er hagnaður af lottóinu nýttur að verulegu leyti til að styrkja menningarmál. Þó að ég hafi leyft öðrum að hafa síðasta orðið um þetta að sinni, er málinu engan veginn lokið og verður tekið upp aftur í fyllingu tímans.

Aðrar blaðagreinar mínar á árinu voru, í vor, um starfslaun listamanna og, í haust, um niðurskurðinn í menningarmálum með áherslu á kvikmyndagerðina.

Litróf listanna var enn í gangi í vor, kynning í grunnskólum á nokkrum listgreinum, en niðurskurður til skólanna hefur orðið til þess að þeir hafa stórum dregið úr kaupum á þess háttar kynningum. Í þessu felst enn ein birtingarmynd kreppunnar og jafnframt lítið dæmi um það hvernig listamenn verða af tekjuskapandi verkefnum. Það er raunar áhyggjuefni hvað heimsóknum listamanna í skóla hefur fækkað sökum samdráttarins.

Forseti er gjarnan fenginn í ýmis verkefni sem standa utan við venjubundin félagsstörf. Í tvö ár í röð hef ég verið í dómnefnd um styrki Landsbankans við námsmenn, svo dæmi sé tekið.

Ég hóf skýrsluna á kvikmyndagerðinni. Niðurskurðurinn þar var meiri en annars staðar. Hann var í rauninni óskiljanlegur, þó ekki væri nema í ljósi þess hve margt hefur verið gert vel þar á bæ undanfarið. Í tillögum ráðuneytisins til fjárlagagerðarinnar kom fram pólitísk menningarstefna, sem gekk greinilega út á það að gera veg þessarar greinar minni en annarra. Það er ekki flóknara en svo. Þannig er sú menningarstefna sem nú er í gildi.

En ég hef grun um að svipaður niðurskurður sé á teikniborðinu hvað ýmsar aðrar listgreinar varðar, þó að ekkert hafi verið upplýst um það. Og hvernig á að bregðast við þvi? Í kvikmyndagerðinni vorum við þó með nokkuð sannfærandi hagræn rök, og þeim er ekki fyrir að fara í öllum listgreinum. En ég er síður en svo þeirrar skoðanir að list eigi endilega að borga sig. Við hljótum að leggja fram þau rök að listin sé siðuðu þjóðfélagi nauðsyn, að listin sé ein af máttarstoðunum undir sjálfstæði þjóðarinnar, og að listin sé raunar órjúfandi hluti af velferðarkerfinu.

Eitt er að minnsta kosti ljóst, að það verður enn frekar skorið niður á þessu ári. Nú þegar er vitað um hagræðingarkröfu þá sem lögð verður á menningar- og ferðamálaráð: 5,6%. Tilhneigingin er fyrir hendi að skera niður styrkjapottinn svokallaða, en við munum gera okkar besta til að tryggja að hann verði ekki minnkaður til muna og alls ekki um meira en sem nemur þessari prósentutölu.

Gagnvart ríkinu er sjálfsögð krafa okkar að fá að vera meira í ráðum um stefnu dagsins í dag. Það er ekki nóg að bjóða okkur að senda inn skriflegt framlag okkar til menningarstefnu ríkisins, á meðan hún er í reynd keyrð áfram af fólki sem helst vill komast undan því að hlusta á okkur. Á að senda ráðherranum óskalista hinna ýmsu listgreina þegar sá hinn sami ráðherra telur sig stöðugt knúinn til að draga úr virkni listgreinanna með æ minnkandi fjárframlögum? Það er afar erfitt að vera með stórhuga framtíðaráform við slíkar aðstæður.

En framtíðarsýn er þó eitthvað sem við höfum alltaf verið að biðja um, og því álít ég rétt að taka aftur upp vinnuna við listastefnuna og ljúka henni eigi síðar en í vor. Ráðherrar koma og fara. Einhvern tíma á þjóðin eftir að rétta úr kútnum eftir efnahagsslys undanfarinna ára. Örlög ríkisstjórna breyta því ekki að listamenn eiga sína framtíðarsýn, og hana er best að móta sem best og nákvæmast.

Ágúst Guðmundsson