Félag leikstjóra á Íslandi telur í dag 92 félaga. Í stjórn félagsins sitja Kolbrún Halldórsdóttir, ritari, Gunnar Gunnsteinsson gjaldkeri og Jón Páll Eyjólfsson formaður. Varastjórn skipa Una Þorleifsdóttir, Rúnar Guðbrandsson og Eva Rún Snorradóttir en varastjórn er boðuð á stjórnarfundi

Samninganefnd FLÍ lauk samningum við Þjóðleikhúsið og Leikfélag Reykjavíkur á síðasta ári. Þar með er nokkrum áfanga náð í kjara og réttindabaráttu félagsins. Viðræður við RÚV standa yfir en ennþá á eftir að ljúka samningum við nokkra samningsaðila.

FlÍ hafði á síðasta ári víðtækt samráð við önnur fagfélög innan sviðslistanna. Meðal annars um nýtt frumvarp MMR til sviðslistalaga. Enda er starfandi samráðsnefnd allra fagfélaganna sem hyggur á meiri samræðu um sameiginleg baráttu og hagsmunamál fagfélaga í sviðslistum. Samráðsnefndinn í samfloti við SL skilaði inn athugasemdum til Allsherjar og menntamálanefndar um frumvarp til sviðslistalaga.

Stjórn FLÍ vann að bestu getu að framkvæmd starfsáætlunar FLÍ sem var samþykkt á aðalfundi félagsins 2012. Þetta er fyrsta árið sem félagið starfar eftir slíkri starfsáætlun sem allir félagar hafa tækifæri á að móta. Hún verður eflaust brýnd og enduskoðuð á komandi aðalfundi félagssins.

FLÍ er aðili að NSIR Sambandi Norrænna leikstjórafélaga. Þróunin á norðurlöndum hefur verið í þá átt að erlendum leikstjórum er boðin vinna undir töxtum og meðvitund félagsmanna hefur minnkað um rétt sinn á hinum norðurlöndum. Samningar eru mjög ólíkir og því þarf að efla meðvitund sviðsleikstjóra um að hafa samband við viðkomandi fagfélög í því landi sem þeir eru að starfa í. Einnig hefur orðið þróun á menningarpólitík á norðurlöndunum. Aðal breytingarnar eru þær að armlengdarreglan er minna í hávegum höfð, meira um verkefna styrki í stað þess að gera langtíma samninga við minni leikhús, samstarfssýningar eru að tröllríða stofnunum án aðkomu fagfélaga, meiri harka í yfirstjórn sviðslistastofnanna sem skilar sér í einangrun leikstjóra þar sem þeim er hótað því að missa vinnuna ef þeir hafa samband við fagfélögin, afrit af samningum eru ekki að skila sér til stéttarfélaga o.s.frv. Það er óhætt að fullyrða að FLÍ kannast vel við þær aðstæður sem kollegar okkar á norðurlöndunum eru að fást við. Eitt af því sem unnið verður að á þessu ári er að kanna vilja leikstjórafélaga í Baltnesku löndunum til þáttöku í samtökunum ásamt því að efla tengslanet almennra félagsmanna og meðvitund þeirra um systurfélögin á hinum norðurlöndunum.

Það hefur verið metnaður stjórnar FLÍ að efla fagvitund félaga okkar og að vera leiðandi í umræðunni um sviðslistir og hagsmuni okkar sem starfa við sköpun sviðslista.

Veitt var úr menningarsjóði tvisvar á árinu og hlutu alls 4 félagar styrk úr sjóðnum.

Reykjavík febrúar 2013
Jón Páll Eyjólfsson