Stjórn BÍL lýsir stuðningi við kröfur samstöðufundar kvikmyndagerðarfólks sem haldinn var að Hótel Borg 25. janúar 2010.Í yfirlýsingu frá útvarpsstjóra frá 22. janúar kemur fram að draga þurfi verulega saman í rekstri stofnunarinnar og til að ná sparnaðarmarkmiðum verði m.a. hætt að kaupa íslenskar bíómyndir til sýninga og dregið stórlega úr sýningum á efni frá sjálfstæðum innlendum framleiðendum.

Það er mat stjórnar BÍL að niðurskurðartillögur útvarpsstjóra stríði gegn lagalegu hlutverki stofnunarinnar. Ríkisútvarpið hefur ríkulegum samfélagslegum skyldum að gegna og er beinlínis ætlað að vera einn af máttarstólpum íslenskrar menningar og listsköpunar. Hlutverk stofnunarinnar er ótvírætt, henni ber að standa vörð um íslenska menningu, miðla henni til landsins alls og næstu miða, standa vörð um lýðræðislegar grundvallarreglur, m.a með því að uppfræða og upplýsa þjóðina um málefni líðandi stundar. Þá er henni ætlað að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.

Sem fyrr lýsir stjórn BÍL yfir skilningi á þeim erfiðleikum sem glímt er við í rekstri hins opinbera, en jafnframt hlýtur hún að gera þá kröfu að málefnanlega sé staðið að niðurskurði útgjalda lykilstofnana á borð við Ríkisútvarpið. Tillögur útvarpsstjóra virðast handahófskenndar og beinast helst að framleiðslu innlendrar dagskrár. Ekki er valin sú leið að stilla upp ólíkum kostum til sparnaðar, heldur ráðist í einhliða aðgerðir sem vega að nokkrum grundvallarskyldum stofnunarinnar.

Það er mat stjórnar BÍL að í rekstrarlegri hagræðingu Ríkisútvarpsins hefði mátt forgangsraða í þágu menningar og lista. Í því augnamiði hefði þurft að skoða gaumgæfilega og reikna út aðra kosti, eins og t.d. að stytta útsendingartíma sjónvarps og segja upp samningum um kaup á erlendu efni, sem hljóta að hafa hækkað umtalsvert upp á síðkastið í ljósi gengishækkana. Það hefði mögulega verið hægt að hlífa Rás 1 við niðurskurði nú í ljósi þess samdráttar sem varð þar 2009. Þess í stað hefði mátt skoða mögulega hagræðingu af því að koma á launajöfnun og aflétta launaleynd innan stofnunarinnar. Það hefði verið hægt að leita eftir áliti starfsmanna stofnunarinnar og óska eftir hagræðingarhugmyndum frá þeim. Með slíkum aðferðum má finna leiðir sem yfirmönnum eru ekki eins vel sýnilegar og almennum starfsmönnum. Þá hefði þurft að skoða mögulegan sparnað af breytingum á launahvetjandi kerfi markaðsdeildar, lækkun launa yfirstjórnenda og niðurskurði á aksturs- og bílakostnaði stofnunarinnar. Stjórn Ríkisútvarpsins hefði svo þurft að vera virkur þátttakandi í endanlegri ákvörðun um niðurskurðinn eftir að hafa skoðað til hlítar ólíka möguleika.

Stjórn BÍL hvetur til þess að yfirstjórn Ríkisútvarpsins hugi að þeirri menningarstefnu, sem birtist í lögum um Ríkisútvarp og samningi stjórnvalda við Ríkisútvarpið og leggur til að fyrirliggjandi niðurskurðartillögur verði endurskoðaðar með það að leiðarljósi að staðið verði við þau fyrirheit og markmið sem þar eru sett fram.