Fulltrúar stjórnar BÍL voru boðaðir á fund utanríkismálanefndar í morgun vegna frumvarps til laga um Íslandsstofu. Nefndin spurði út í sjónarmið BÍL og virtist áhugasöm um að skoða þær lagfæringar sem stjórnin hefur bent á. Umsögnina má lesa hér:

Umsögn um frumvarp til laga um Íslandsstofu

Í ljósi áhuga stjórnar Bandalags Íslenskra Listamanna (BÍL) á því hvernig staðið er að kynningu íslenskra lista á erlendri grund, var ákveðið að bjóða upp á sérstaka kynningu á frumvarpinu um Íslandsstofu á nýafstöðnum aðalfundi BÍL. Einar Karl Haraldsson upplýsingafulltrúi forsætis-ráðuneytisins var fenginn til að skýra frá hugmyndunum að baki frumvarpinu. Að þessari kynningu lokinni ákvað stjórn BÍL að senda til utanríkismálanefndar eftirfarandi athugasemdir, sem verða þá viðbót við umsögn þá sem BÍL sendi nefndinni 4. desember sl. Nokkur aðildarfélaga BÍL hafa þegar sent utanríkismálanefnd umsögn um frumvarpið, sem stjórnin hefur kynnt sér og haft til hliðsjónar við gerð meðfylgjandi athugasemda.

Segja má að núgildandi lög um útflutningsaðstoð séu um margt skýrari en fyrirliggjandi frumvarp um Íslandsstofu, enda er gildissvið frumvarpsins nokkuð víðara en gildandi laga. Ætlun stjórnvalda með frumvarpinu er að móta heildstæða stefnu um ímyndar- og kynningarmál þjóðarinnar, en jafnframt að flétta þá stefnumótun saman við útflutning, ferðaþjónustu og erlendar fjárfestingar. Slíkt verkefni er gríðarlega viðamikið og ljóst að samræma þarf sjónarmið fjölmargra aðila á ólíkum sviðum, eigi vel að takast. Útflutningsviðskipti eru nokkuð þekkt stærð og talsverð kunnátta í markaðs- og kynningarstarfi til staðar hjá þjóðinni. Það sama má segja um ferðaþjónustu og erlendar fjárfestingar, en þegar kemur að samþættingu við lista- og menningarstarfsemi þá flækist málið, enda er sá þáttur lítið útskýrður í þingmálinu. Í greinargerð frumvarpsins er engin tilraun gerð til að lýsa því með hvaða hætti skapandi atvinnugreinum er ætlað að koma að stefnumótun eða rekstri Íslandsstofu.

Nauðsynlegt er að stjórnvöld viðurkenni að íslensk menningarstarfsemi stendur undir umtalsverðum hluta af íslensku atvinnulífi; innan listanna eru fullgildar atvinnugreinar á borð við myndlist, tónlist, ritlist, leiklist, dans, kvikmyndir, arkitektúr og hönnun að ógleymdum greinum sem starfa á grundvelli menningararfsins við ýmis konar safna- og sýningarstarfsemi. Listamenn og aðrir innan þessara skapandi greina hafa gegnum tíðina komið sér upp ýmsum miðstöðvum sem hafa stutt við útflutning verka þeirra. Þar er um að ræða ólíkar einingar að stærð og umfangi, nefna má: Kvikmyndamiðstöð (KMÍ), Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN), Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (KÍM), Íslenska tónverkamiðstöð, Hönnunarmiðstöð Íslands, Bókmenntasjóð, Sjálfstæðu leikhúsin og Icelandic Gaming Industry. Verður að teljast eðlilegt að til þessara aðila sé leitað þegar lagður er grunnur að Íslandsstofu, enda standa miðstöðvarnar í skipulegum útflutningi nú þegar og hafa verið að auka samstarf sín í milli upp á síðkastið.

Stjórn BÍL telur að frumvarp um Íslandsstofu þurfi talsverðrar vinnu við áður en það geti talist fullburða:

o Stjórn Íslandsstofu, eins og henni er lýst í 3. grein frumvarpsins, verður þung í vöfum og nauðsynlegt að skoða hvort ekki sé skynsamlegra að fækka stjórnarmönnum, en auka þess í stað hlutverk og vægi verkefnisstjórnanna sem kveðið er á um í greininni. Hvernig sem skipan stjórnar verður á endanum er ljóst að tryggja verður aðkomu listgreinanna að henni, sem verður best gert með því að BÍL eigi þar fulltrúa.

o Í 4. grein er lýst einhvers konar ríkisrekinni markaðsþjónustu, sem óljóst er hvort fallið getur undir verksvið ríkisins. Einnig er óljóst hvort þjónustukaup séu forsenda samstarfs við Íslandsstofu.

o Í skýringum við 5. grein kemur ekki fram hvort opinberar stofnanir sem stunda útflutning á menningu og listum muni falla undir 4. tölulið; Sinfóníuhljómsveit Íslands, Þjóðleikhús, Íslenski dansflokkurinn, Listasafn Íslands, Þjóðminjasafn etc. Ef svo verður þá er spurning hvort það verði gegn þjónustugjaldi sbr. 4.gr. Sé það ætlunin verður það að teljast ámælisvert, þar sem einungis yrði um tilflutning á opinberu fé að ræða.

o Hlutverk aðalfundar skv. 7. grein þarf að skýra nánar í texta greinarinnar sjálfrar. Nauðsynlegt er að fram komi hvaða vald aðalfundi er falið og á hvern hátt stjórn er bundin af ákvörðunum aðalfundar. Efast má um gildi aðalfundar ef hann verður einungis óljós samráðsvettvangur eins og skilja má af því sem segir í frumvarpinu um 7. grein.

o Umsögn fjárlagaskrifstofu Fjármálaráðuneytisins bendir til að draga megi í efa að þær hástemmdu hugmyndir sem liggja að baki frumvarpinu séu til þess fallnar að ná fram mikilli fjárhagslegri hagræðingu, eins og virðist ætlunin.

Stjórn BÍL er reiðubúin að fylgja sjónarmiðum þessarar umsagnar eftir við utanríkismálanefnd Alþingis sé þess kostur.

 

f.h. stjórnar Bandalags íslenskra listamanna (BÍL) Kolbrún Halldórsdóttir, forseti