Aðalfundur BÍL skorar á stjórnvöld að leggjast á sveif með listdansi á Íslandi og taka ákvörðun um uppbyggingu greinarinnar svo hún fái sambærilega stöðu og aðrar listgreinar. Íslenskt danssamfélag er kraftmikið og hugmyndaríkt, innan þess starfar ört vaxandi hópur danslistamanna sem þráir svigrúm til nýsköpunar og vaxtar. Þessu kalli þurfa opinberir aðilar að sinna með því að leggja danslistinni til aukið fjármagn og betri aðstöðu. Það má nefna fjölmörg dæmi eins og að leysa málefni listdansskólanna sem reka grunnnám án fjármagns frá borg – jafnvel þó kennt sé eftir námsskrá mennta- og menningarmálaráðuneytis, málefni Dansverkstæðis sem fær nú ekki þann stuðning frá borg sem vilyrði hafði verið gefið fyrir, verkefnastyrkir sérstakir fyrir dansinn, listamannalaun eyrnamerkt dansinum, húsnæði fyrir Íslenska dansflokkinn, kynningarmiðstöð fyrir dansinn og fagmenntaðan dansara í leiklistarráð. Íslenskur listdans hefur slitið barnsskónum og þarf á auknum stuðningi að halda svo hann geti blómstrað og orðið meðal leiðandi listgreina á Íslandi.

Greinargerð:

Árið 2000 ályktaði BÍL að staða og framtíð listdansins væri síður en svo björt. Í kjölfarið var stofnaður 3ja manna vinnuhópur sem skrifaði greinargerð sem ætluð var stjórnvöldum og hugsuð sem grundvöllur fyrir tillögur að aðgerðum til hagsbóta fyrir dansinn. Bandalagið hafði áður lagst í svipaða vinnu með góðum árangri, t.d. fyrir tónlistina og þá síðast fyrir kvikmyndagerðina, og fannst kominn tími á dansinn.

Á þeim tíu árum sem liðin eru hefur lítil breyting orðið. Félag íslenskra listdasara ákvað því að leggja í mikla vinnu við stefnumótun danslistarinnar og í desember 2010 kom út Dansstefna 10/20 sem unnin er með breiðri þátttöku listdansamfélagsins. Í stefnunni býr baráttuandi þeirra sem vinna að uppbyggingu listgreinarinnar til framtíðar. Þar tala danslistamenn einni röddu, þeir skilgreina brýnustu málefnin og þau úrlausnarefni sem mest eru aðkallandi. Dansstefnan er svar við brýnu kalli danssamfélagsins eftir átaki í uppbyggingu listgreinarinnar.

Danslistamenn hafa unnið sleitulaust að framgangi og uppbyggingu greinarinnar á síðustu árum og náð talsverðum árangri. Núna er hins vegar komið að ákveðnum tímamótum því án aukins fjármagns, betri aðstöðu og aðbúnaðar er hætt við að þróun danslistarinnar lendi í öngstræti. Nú þarf að tryggja áframhaldandi vöxt og í greininni svo hún nái að þroskast og festa sig í sessi.

Dansstefnan byggir á þeim þáttum dansins sem nú þegar hafa sprottið upp og gefið hafa góða raun. Henni er ætlað að treysta undirstöðurnar og skapa grundvöll fyrir nýja möguleika sem stöðugt spretta upp úr grasrótinni. Umfram allt miðar stefnan að því að auka gæði og faglega þróun listdansins.

Íslenskt samfélag býr yfir kraftmiklu danslistafólki sem er tilbúið að takast á við þau fjölþættu verkefni sem fyrir liggja og byggja upp danslist á Íslandi. Frá upphafi hefur leið dansins verið grýtt, en danslistamenn hafa sýnt að þeir geta tekið lítil skref og stór, snúninga, dýfur, sveigjur og stökk og staðið keikir að leikslokum, fullir af tilhlökkun yfir því að draumar dagsins í dag verði að veruleika morgundagsins.