Fundur stjórnar BÍL með Ásbirni Óttarssyni fyrsta þingmanni norð-vesturkjördæmis fór vel fram og skiptust menn á skoðunum um störf í lista- og menningargeiranum. Eftirtaldir stjórnarmenn sátu fundinn: Björn Th. Árnason, Jakob F. Magnússon, Karen María Jónsdóttir, Randver Þorláksson auk forseta.

Ásbjörn kom til fundarins með þær fréttir að hann hefði beðist afsökunar á ummælum sínum í viðtali við Ríksútvarpið þá fyrir stundu. Hann lýsti því með hvaða hætti ummælin féllu, þ.e. í andsvari undir bjölluglym forseta Alþingis og þess vegna ekki verið úthugsuð. Hann viðurkenndi vanþekkingu sína á störfum listafólks og tók vel þeim upplýsingum sem stjórnarmenn BÍL létu honum í té á fundinum.

Röksemdirnar voru af ýmsum toga, en eðlilegt þótti að leggja nokkra áherslu á hið efnahagslega gildi framan af fundi. Það er alkunna að sameiginlegir sjóðir skattborgaranna eru notaðir til að efla atvinnustig þjóðarinnar með því að skapa störf; t.d. í heilbrigðisgreinum, menntakerfinu, iðnaði (m.a. áliðnaði), vegagerð, hafnargerð og listum. Áhersla stjórnvalda til skamms tíma hefur verið að skapa störf í stóriðju, byggingariðnaði og því sem nefnt er verklegar framkvæmdir. Störf í skapandi greinum hafa ekki verið á forgangslista ríkisstjórna þrátt fyrir baráttu samtaka listamanna. Árið 2009 náðist þó samkomulag um nokkra aukningu framlaga til starfslaunasjóða listafólks og mælti núverandi menntamálaráðherra fyrir frumvarpi um listamannalaun, sem samþykkt var á Alþingi á vordögum 2009. Það er lögbundin fjölgun starfslauna sem Ásbjörn Óttarsson fellir sig ekki við. Stjórn BÍL benti Ásbirni á að störf í hinum skapandi greinum kosta lítið, þau ógna hvorki náttúru landsins né auðlindum og þau leiða af sér umtalsverðan fjölda starfa í öðrum greinum. Nýleg norsk rannsókn sýnir að eitt starf í menningargeiranum skilar 10 – 26 afleiddum störfum í verslun og þjónustu. Til samanburðar skilar hvert starf í bílaiðnaði einungis 6 afleiddum störfum. Sömu niðurstöður má sjá í gögnum OECD.

Þá var farið yfir upphæðirnar sem listamenn fá úr launasjóðunum og umsóknarferlið, sem fyrirskrifað er og setur öll verkefni sem um er sótt gegnum smásjá og nálaraugu úthlutunarnefnda. Um þessar mundir eru mánaðarlaun úr sjóðunum 267 þúsund krónur. Litið er á greiðsluna sem verktakagreiðslu, svo listamaðurinn greiðir af henni skatta, tryggingargjöld og önnur launatengd gjöld, sem gefur innan við 180 þúsund krónur í reiknað endurgjald til listamannsins. Þetta lítur skatturinn á sem hlutastarf, því hjá Ríkisskattstjóra er listamanni gert að telja mánaðarlega fram 414 þúsund krónur í reiknað endurgjald ef hann telur sig vera í fullu starfi. Það ber að hafa í huga að félagslegur stuðningur, t.d. atvinnuleysisbætur miðast við að fólk hafi gegnt fullu starfi.

Ásbjörn hafði greinilega kynnt sér skýrslu kvikmyndagerðarmanna, sem gefin var út fyrr á þessu ári og sýnir fram á að hver einasta króna sem ríkið ver til kvikmyndagerðar skilar sér aftur í ríkiskassann og meira til, því innlendur stuðningur við kvikmyndagerð er forsenda fyrir erlendum stuðningi við kvikmyndaverkefnin. Það sama gildir um aðrar listgreinar sem í auknum mæli leita á erlenda markaði.

Varðandi ummæli Ásbjarnar um tónlistarhúsið þá var farið yfir þá forgangsröðun sem stjórnvöld hneigjast til þegar opinberum fjármunum er umyrðalaust varið í hvert íþróttamannvirkið á fætur öðru en mun meiri tregðu gætir þegar fjármagna á hús undir menningarstarfsemi. Einnig var rifjað upp með hvaða hætti stjórnvöld í Reykjavíkurborg, undir forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur flokkssystur Ásbjarnar, tóku höndum saman við vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur um að skynsamlegra væri (m.a. frá atvinnusjónarmiðum) að klára tónlistarhúsið en að láta það standa sem argandi minnismerki um hrunið til langrar framtíðar.

Að lokum var Ásbirni Óttarssyni afhent grein eftir Pétur Gunnarsson fyrrv. formann Rithöfundasambands Íslands, sem skrifuð var fyrir ári síðan við svipaðar aðstæður, því umræður af þessu tagi um réttmæti listamannalauna er árviss og kemur alltaf upp í tengslum við fjárlagaumræðuna. Greinin ber heitið „Hinn árlegi héraðsbrestur“ og má lesa hana undir hatti „greina“ hér á síðunni. Það er mat þeirra stjórnarmanna sem sátu fundinn að hann hafi verið gagnlegur og ekki var annað að sjá á þingmanninum en að hann hafi haft gagn af þeim upplýsingum sem honum voru kynntar. Umræðum um eðli þeirra starfa sem unnin eru innan skapandi greina verður haldið áfram og áformar stjórn BÍL að hitta fjárlaganefnd Alþingis á næstunni þar sem áfram verður skipst á skoðunum um gildi menningarinnar og hlutverk skapandi greina í endurreisninni.