Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur):

 

Hóptilfinningaflæði og útrás upplifum við oftast á handbolta eða fótbolta. Stundum á rokktónleikum og svo núna á Austurvelli á þessum athyglisverðu tímum sem við lifum. Ég hef séð til listamanna sem hafa meiri áhuga á því sem gerist á áhorfendapöllum en á fótboltavellinum sjálfum. Mun meiri. Þeir sýna þessum sjálfsprottnu mótmælum á Austurvelli alveg sérstakan áhuga. Bæði er það til þess að geta speglað sögulega atburði og hugsanlega túlkað þá. Annað eins hefur nú gerst. Hins vegar hafi listamenn áhuga á þeim af því að þeir geta tekið virkan þátt og hjálpað til. Það hafa þeir gert, heldur betur! Listamenn þekkja nefnilega kreppur, óreiðu og óöryggi betur en margir aðrir. Þeir vita að þaðan sprettur það.

„Hann barði á framrúðuna, afmyndaður af reiði“ er lýsing fallins forsætisráðherra á skáldinu og myndlistarmanninum Hallgrími Helgasyni. Gunnar Þórðarson, tónlistarmaður, sem engin hafði heyrt segja styggðaryrði opinberlega, ekki einu sinni á hippaárunum, hreytti út úr sér bálreiður í viðtali við mbl/sjónvarp á þingsetningardaginn: „Ég vil ríkisstjórnina burt, seðlabankann og fjármáleftirlitið. Þetta gengur ekki.“ Aðspurður hvers vegna hann kæmi hér í dag til að mótmæla svaraði hann: „Ég er bara brjálaður!“ Og hann heitir Hörður Torfason sá sem farið hefur fremstur við skipulagningu laugardags mótmælanna á Austurvelli. Hann er tónlistarmaður og leikstjóri. Það sást til margra kvikmyndagerðamanna eins og Ara Alexanders, Hjálmtýs Heiðdal o.fl. með vélina á lofti. Þetta eru örfá áberandi dæmi. Mjög margir þekktir og minna þekktir listamenn og listnemar hafa verið fjölmennir í fremstu víglínu.

Hvaða fagstétt er alltaf í kreppu? Fjárhagslegri, tilfinningalegri, veraldlegri og tilvistarlegri. Einmitt! Listamenn nota tilfinningar og innsæi öðrum fremur við iðju sína. Vitsmunir eru hafðir með sem aftursætisbílstjórar – þeir stjórna ekki ferðinni. Vitsmunir skapa ekki. Menn verða listamenn vegna tilfinninganæmni og innsæishæfileika en ekki vegna reglusemi og bókhaldsgetu. Þeir kunna að nota innsæi, hafa radarinn í lagi og skynja betur en margir aðrir þann köllunartíma þegar hafist skal handa við umbreytinguna. En það hafa líka margir fleiri. Margir stóðu álengdar og hugsuðu það sem hinir voru að gera. Enn fleiri sátu við fjölmiðla og hugsuðu líka sitt!

Myndmál og slagorð hafa verið að þróast eftir því sem á veturinn hefur liðið. Það er einmitt það afl sem hreyfir við fólki. Snertir tilfinningarnar, nær sambandi við undirmeðvitundina og ímyndunaraflið. Þegar undirtakturinn og hrynjandin bætist við verður aflið óstöðvandi og leikur lausum hala. Þessi atriði, ímyndunaraflið og tilfinningar, eru sterkust við myndun sögulegara hreyfinga og hafa alltaf verið. Fyrsta myndmálið sem vakti afgerandi athygli og snerti fólk var þegar gulur Bónus fáninn með feita grísnum var dreginn að húni fyrir aftan miðjustykkið á þakbrún Alþingishússins. Þetta miðjustykki sem trónir þarna er tákn nýlenduherrans Kristjáns níunda og ætti að vera búið að fjarlægja fyrir löngu. Fyrsta slagorðið sem allir skildu var „Helvítis Fokking Fokk“ er eftir myndlistarmannin Gunnar Má Pétursson. Síðan komu þau nokkur í viðbót. Slagorð eins og „Vanhæf ríkisstjórn!“ Fáninn með fjórum hnefum í miðjunni er eftir Guðmund Hallgrímsson myndlistarmann. Þetta er fáninn sem vörubílstjórararnir höfðu fremstan þegar ein mótmælagangan endaði með stórkostlegu reykspóli mótorhjólatöffara. Mjög myndrænt.

Myndlistarmaðurinn Sara Riel skartaði kraftmiklu ópi sem stóð upp úr þvögunni á Austurvelli. Einhverjir sem ég kann ekki að nefna fótósjoppuðu svo ríkisstjórnarmeðlimina þannig að þeir urðu að dýrum. Það myndbreytingarbragð er þekkt í pólitískri myndmálssögu. Sálfræðilega gerir það að verkum að auðveldara er að fella þá ef þú sérð þá svona. Það var gamli gjörningalistamaðurinn og teiknarinn Halldóra Ísleifsdóttir sem kom mynd á „Neyðarstjórn kvenna“. Á gamlársdag var það svo teiknarinn Þorvaldur Óttar Guðlaugsson sem hefur skipulagt hina árlegu „Afturgöngu“ sem hvatti fólk til að koma niður á Hótel Borg og reka tunguna út úr sér á gluggann og ulla á liðið sem sat við kryddsíldina. Viðsnúningsauglýsingar eða það sem kallað er „detourment“ sáust við Lækjartorg þegar settur var verðmiði á barnaljósmyndirnar sem hangið hafa þar eftir brunann. „Detourment“ auglýsingar eru raktar til danska Cobra listamannsins Asgers Jorn. Þær voru mikið notaðar við stúdentauppreisnirnar 1968. Svona má lengi telja upp. Þetta eru aðferðir listamanna við að hita upp ástand. Þeir hafa til þess sérstaka þekkingu og hefð. Hér á landi alla leið til Fjölnismanna.

Það var svo miðvikudaginn 21. janúar þegar þing kom saman eftir jólaleyfi þegar suðupunkturinn varð og svo fimmtudaginn 22. janúar fyrir utan Þjóðleikhúsið. Skilaboðin voru skýr. Fólk vildi ríkisstjórnina burt og að boðað yrði til kosninga. Heilu tromusettunum var stillt upp á Austurvelli. Trommur voru barðar, lúðrar voru þeyttir, sprengdar púðurkerlingar og barið með sleifum á potta og pönnur. Búsáhaldabyltingin var hafinn. Þegar líða tók á kvöldið hitnaði enn meir í kolunum. Eldar voru kveiktir. Oslóarjólatréð var fellt og sett á eldinn. Nýjar fánatillögur voru settar fram fyrir nýtt lýðveldi. Sá séríslenski siður að sletta skyri var í hávegum hafður. Skyrið var einkar grafískt á svartstökkum valdsins. Sú athöfn er virðingavottur við mótmælanda Íslands númer eitt, Helga Hóseason.

Eggjum var kastað og litabombur, grænar og rauðar fylltar og varpað í tugatali yfir Alþingishúsið og krosslagða hamra á skjöldum óeirðalögreglunnar. Þetta eru aðferðir abstrakt expressjónista. Þetta er þekkt úr heimi nýja málverksins. Eggin eru þekkt bindiefni úr heimi málaralistarinnar. Daginn eftir við Þjóðmenningarhúsið og Þjóðleikhúsið voru eldar kveiktir. Rauðir og svartir fánar dregnir að húni Þjóðmenningarhússins. Stemmingin var æðisleg. Reyklyktin og ylurinn. Taktfastur ryðþminn bergmálaði um húsasund. Fólk var farið að dansa. Bros lék um varir og allir fundu að aflið var vaknað.

Ný ríkisstjórn Íslands getur þakkað listamönnum og vinnuaðferðum þeirra fyrir tímabundin sæti sín. Þetta er ekki búið. Þetta er að byrja.