Mannabreytingar í stjórn Bandalagsins á árinu urðu þær að Kristín Mjöll Jakobsdóttir kom í stað Margrétar Bóasdóttur hjá Félagi íslenskra tónlistarmanna og Steinunn Knútsdóttir tók við af Ingólfi Níels Árnasyni í Félagi leikstjóra á Íslandi.Við bjóðum þær innilega velkomnar í hópinn.

Þá er þess einnig að geta að fyrrum forseti bandalagsins, Brynja Benediktsdóttir, lést á árinu. Hún var einungis tvö ár í embætti, en einmitt þá náðist góður árangur í launamálum listamanna. Hún kom því einnig á að formenn félaganna væru fulltrúar þeirra í stjórn, en ekki sérstaklega kjörnir menn.

Þetta ár hefur verið tími brostinna vona hjá Bandalaginu eins og hjá svo mörgum. Árið hófst svo sem nógu vel, en bankahrunið hefur vissulega komið illa við listamenn, e t v í meira mæli en við flestar aðrar starfsstéttir, og á það bæði við um listamenn sem einstaklinga og um stofnanir og fyrirtæki sem tengjast okkur og hafa veitt okkur stuðning.

Það er reyndar athyglisvert hve stóran hlut íslenskir listamenn áttu í þeim skipulögðu og óskipulögðu mótmælum sem spunnu mikilvæga þræði í örlagavef frárarandi ríkisstjórnar. Þar ber hæst rithöfundana sem töluðu á fundum og skrifuðu í blöðin, en einnig má nefna söngvaskáld og leikstjóra sem stóðu fyrir fundunum, auk þeirra fjölmörgu sem létu sjá sig og stigu fram í fréttaviðtölum.

Hefðbundnir samráðsfundir voru haldnir snemma á árinu með borgarstjóra, sem þá var Ólafur F Magnússon, og menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Menntamálaráðherra lýsti því yfir að hún teldi fjölgun listamannalauna næsta mál á dagskrá ráðuneytisins. Forseti kallaði nokkrum sinnum eftir efndum og var loks boðaður á fund um miðjan júní til að sjá drög að lagabreytingum. Því miður var honum einnig uppálagt að segja engum frá því sem þar stóð, sem batt hendur hans í málinu allt þar til fundað var um það 14. nóvember og drögin sýnd stjórn BÍL. Í framhaldinu bauð ráðuneytið upp á umræðunefnd um listamannalaunin, og tilnefndi BÍL fimm í hana, þau Áslaugu Thorlacius, Jakob Frímann Magnússon, Karen Maríu Jónsdóttur, Kjartan Ólafsson og Pétur Gunnarsson. Störf nefndarinnar gengu vonum framar og lá niðurstaða fyrir eftir maraþonfund 7. janúar síðastliðinn. Sú niðurstaða var síðan kynnt ráðherra. Það gerðist svo einmitt þann dag sem forseti átti fund í ráðuneytinu til að kalla eftir því að frumvarpið verði lagt fyrir alþingi að ríkisstjórnin sprakk. Hvað um frumvarpið verður veit enginn á þessari stundu, en mikilvægt er að kalla eftir skjótum viðbrögðum nýs ráðherra menntamála.

Það verða aldrei allir glaðir þegar fé er skipt á milli listgreina, en eimitt þess vegna er góð ástæða til að hrósa nefndinni fyrir að komast að niðurstöðu. Þetta er mikilvægur áfangi í þessu sameiginlega baráttumáli listamanna, og því er rétt að þakka fulltrúum BÍL í umræðuhópnum fyrir vel unnin störf. Allar umræðurnar um málið í stjórn BÍL hafa án efa fleytt því áleiðis, enda tel ég affarasælast að listamenn fái sjálfir að fjalla sem mest um það hvernig þessum málum skuli hagað, geti þeir á annað borð komið sér saman um það.

Menntamálaráðuneytið setti einnig á stofn samráðshóp um menningu og listir í kreppunni, tveir fulltrúar völdust í hópinn úr BÍL, þeir Ágúst Guðmundsson og Björn Th Árnason. Tveir fundir hafa verið haldnir, en raunar er enn ekki vitað hver áhrif umræður eða niðurstöður þar kunna að hafa á gang mála.

Við í stjórn BÍL funduðum með fréttastjóra Ríkisútvarpsins, ennfremur, undir lok ársins, með dagskrárstjóra sjónvarps og útvarpsstjóra. Einkum var síðari fundurinn gagnlegur, en stjórnin hafði þá nýverið samþykkt ályktun þar sem hún lýsti m.a. áhyggjum sínum af innlendri dagskrárgerð.

Bandalagið varð áttrætt síðastliðið haust. Af því tilefni var efnt til samkomu í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu. Lauslega áætlað voru gestir milli 2 – 300 talsins. Þetta afmælisár hefur farið á annan veg en við ætluðum í upphafi þess. Afmælið bar upp á 6. september, nákvæmlega einum mánuði áður en fyrst bankinn sprakk. Þá vorum við í sókn, nú erum við komin í vörn, eins og flest önnur samtök. En kannski sókn sé besta vörnin – ætli það sannist ekki áður en yfir lýkur? Að minnsta kosti er vert að missa ekki sjónar af langtímamarkmiðum okkar, þó að illa ári um þessar mundir.

Litróf listanna fór af stað nú í haust og gekk vel undir verkefnisstjórn Irmu Gunnarsdóttur. Tvö pör listamanna fóru í skólana, annars vegar Ragnar Kjartansson, myndlistarmaður, og Davíð Þór Jónsson, tónlistarmaður, og hins vegar Edda Björg Eyjólfsdóttir, leikari, og Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, dansari. Þessi atriði hafa nýlega verið boðin aftur í skólum á höfuðborgarsvæðinu, enda afar vel tekið þar sem þau sáust í haust.

Í fyrra fögnuðum við byggingu tónlistarhúss. Nú hafa allar framkvæmdir verið stöðvaðar. Á aðalfundi Listahátíðar í Reykjavík kom fram eindregin yfirlýsing frá borgarstjóra og menntamálaráðherra um að framkvæmdum við húsið verði haldið áfram. Á þessu stigi málsins er ómögulegt að spá um hvað ný ríkisstjórn gerir, að ég tali nú ekki um þá stjórn sem tekur við eftir kosningar í vor. Það er hins vegar eindreginn vilji Bandalagsins að stuðla að því að bygging hússins haldi áfram sem fyrst.

10. mars síðastliðinn stofnuðum við Kjarafélag BÍL, en þátttaka í því skal vera frjáls öllum listamönnum. Til Kjarafélagsins var stofnað svo að það gæti síðan gengið í Bandalag háskólamanna og notið þar þeirra réttinda sem felast í sjúkrasjóði og orlofssjóði BHM. Aðalfundur BHM reyndist hins vegar mikill hitafundur, sem steypti þeirri stjórn sem stóð að samningum við forseta BÍL, og því varð ekkert úr því að Kjarafélagið yrði virkt. Til þess eru þó góðar líkur nú, eftir endurnýjaðar viðræður við BHM. Formaður Kjarafélags BÍL er Björn Th. Árnason, en með honum í stjórn eru Áslaug Thorlacius, Pétur Gunnarsson, Hjálmtýr Heiðdal og Karen María Jónsdóttir..

Ég hef verið áheyrnarfulltrúi Bandalagsins í menningar- og ferðamálaráði ásamt Áslaugu Thorlacius. Ró komst á borgarstörfin eftir umrót og hallarbyltingar, jafnvel svo að smám saman hefur meirihlutinn hætt að láta reyna á atkvæðavægið og lagt áherslu á að ná þverpólitísku samkomulagi um svo að segja öll mál. Nýlega tókst að koma fram mikilvægum breytingum á samþykkt um Listasafn Reykjavíkur, þar sem SÍM fær að tilnefna einn mann af þrem í innkaupanefnd

Að venju tilnefndum við 15 manna hóp sem úr voru valin fimm í fagnefnd Menningar- og ferðamálaráðs. Þessi urðu fyrir valinu:

Sigrún Sigurðardóttir, menningarfræðingur

Ívar Valgarðsson, myndlistarmaður

Hulda Björk Garðarsdóttir, söngkona

Ólafur J. Engilbertsson, hönnuður og gagnrýnandi

Sigrún Valbergsdóttir, leikstjóri, en hún var jafnframt kjörin formaður nefndarinnar.

Eftir að nefndin hafði lagt fram niðurstöður sínar var ákveðið að skera niður framlög til málaflokksins. Að tillögu minni var nefndin sjálf fengin til að endurskoða niðurstöður sínar, raunar í tvígang – en það vinnulag sá ég svo ástæðu til að gagnrýna á síðasta fundi Menningar- og ferðamálaráðs. Allt á þetta þó skýringu í viðkvæmu efnahagsástandi þjóðarinnar og er raunar ein birtingarmynd þess af mörgum sorglegum. Úthlutun ráðsins hefur nú í vikunni verið gerð opinber, sem er óvenju seint – venjulega er það gert fyrir áramót.

Innan ráðsins hefur náðst samstaða um að vinna að því að rammi menningar- og ferðamála verði ekki minnkaður jafnmikið og aðrir, einkum í ljósi þess hve vel stuðningur við listir og menningu nýtist – og er þá einkum til þess litið hve störf þar kalla á hlutfallslega litið fjármagn miðað við t.d. vegalagningu og byggingaframkvæmdir. Þetta eru röksemdir sem vert er að halda einnig á loft á öðrum vetvangi.

Þó að nú sé víða dregið saman skulum við ekki gleyma því langtímaverkefni að fá það fjármagn aukið sem ætlað er í listir og menningarlíf Reykjavíkur. Ég trúi að það muni takast með seiglunni – einkum ef allt gengur eftir sem lagt er til í nýrri menningarstefnu Reykjavíkurborgar, en endurskoðun hennar fór fram á árinu með umtalsverðri þátttöku listamanna, bæði stjórnarmanna BÍL og annarra

Í haust gerði ég óvanalega víðreist á vegum Bandalagsins. Fundur var haldinn í Kaupmannahöfn með norrænum listamannaráðum, undir forystu Dana sem einkum hafa sýnt samstarfi þessu áhuga. Norræna listamannaráðið eða norrænt samband listamannaráða er ekki til formlega séð, og var rætt um það á fundinum hvort áhugi væri fyrir því að til þess yrði stofnað. Ég lét í ljós þá skoðun að slíkt væri heppilegt frá íslenskum sjónarhóli séð og hafði þá einkum tvennt í huga: í fyrsta lagi hafa Íslendingar alltaf haft gagn af norrænu samstarfi, ekki síst á sviði menningarmála. Í öðru lagi er líklegt að formlegt samband geti náð eyrum áhrifafólks, ekki síst hjá samnorrænum nefndum og ráðum sem um listir og menningarmál fjalla.

Nokkrum vikum síðar sat ég fund Evrópska listamannaráðsins, European Council of Artists. Hann var haldinn í Dyflinni á Írlandi. Einnig hér eru Danir í áhrifastöðu, hafa reyndar gert meira til að gæða þessi samtök lífi en aðrar þjóðir og halda skrifstofu fyrir þau nánast án endurgjalds. Fyrir nokkrum árum misstu samtökin styrk frá Evrópusambandinu sem var undirstaða blómlegrar starfsemi, og því eru þau heldur vesaldarleg um þessar mundir, þó að verkefnin séu margvísleg, eins og fram kom á fundinum.

Ég tel að BÍL eigi að vera áfram aðili að ECA, en minni þó á að norræna samstarfið er okkur dýrmætara, jafnvel þó að enn hafi Norræna listamannaráðið ekki verið sett formlega á laggirnar. Því ræður einkum hið margslungna samstarf sem við eigum við aðrar norðurlandaþjóðir um listir og menningu. Fundurinn í Kaupmannahöfn var eins konar fjöldskyldufundur, á meðan fundurinn í Dyflinni líktist meira ættarmóti þar sem maður rakst á talsvert fjarskylda ættingja, sem ekki var ýkja margt að ræða við.

Í síðustu ársskýrslu minni hafði ég á orði að e t v væri vert að huga að því að setja á stofn Útflutningsmiðstöð lista, taldi það eðlilegt framhald á umræðufundum sem við höfum átt samvinnu um með Útflutningsráði, en einn slíkur var haldinn nú í vor að viðstöddu fjölmenni. Ég held að ekki væri svo vitlaust að taka þessa hugmynd til skoðunar og þá í samráði við Útflutningsráð.

Í þeirri þröngu stöðu sem upp er komin í þjóðfélaginu er vert að huga að þeim tækifærum sem etv finnast í samskiptum við útlönd. Ferðamönnum á vafalaust eftir að fjölga á næstunni, í ljósi þess hve krónan hefur fallið. Kastljósi erlendra fjölmiðla hefur verið beint að Íslandi, og eins þótt ástæðan sé sorgleg, getur illt umtal stundum verið betra en ekkert. Þó að fjármálaheimurinn hafi fallið saman, hefur enginn skuggi fallið á íslenskt listalíf. Það er ekki í síðri blóma nú en fyrir ári.

Kannski er loks kominn tími á útrás listanna.

Og þá er rétt á minna á það í lokin að árið 2009 er “European year of creativity and innovation”. Í tilkynningu frá stjórn Evrópusambandsins í Brussel, segir, eftir að rætt hefur verið um þörf á nýsköpun á fjölmörgum sviðum: “Artistic creation and new approaches in culture should also receive due attention, as important means of communication between people in Europe and in the follow-up to the ongoing European Year of Intercultural Dialogue (2008).”

Ég veit við eigum þá von sameiginlega að ár sköpunar og nýbreytni geti opnað íslenskum listamönnum tækifæri sem hingað til hafa verið hulin.