Umsögn BÍL um þingsályktunartillögu um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu um vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis.

16. júní 2010 samþykkti Alþingi svohljóðandi þingsályktunartrillögu:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verði tryggð.
Í þessu skyni verði:
a. gerð úttekt á lagaumhverfinu svo að hægt sé að afmarka viðfangsefnið og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf,
b. litið til löggjafar annarra ríkja með það að markmiði að sameina það besta til að skapa Íslandi sérstöðu á sviði tjáningar- og upplýsingafrelsis,
c. kannaðir möguleikar þess að koma á fót fyrstu alþjóðaverðlaununum sem kennd yrðu við Ísland, Íslensku tjáningarfrelsisverðlaununum,
d. gerð úttekt á viðbúnaði ríkisins, einkum á sviði öryggismála, vegna starfrækslu alþjóðlegra gagnavera hér á landi,
e. haldin alþjóðleg ráðstefna á Íslandi um breytingar á lagasetningu og netnotendaumhverfi með tilkomu gagnavera og hvaða réttarreglur gilda um netið.
Við starfið verði leitað aðstoðar sérfróðra erlendra aðila.
Markmiðið verði lýðræðisumbætur þar sem traustum stoðum verði komið undir útgáfustarfsemi og ásýnd landsins í alþjóðasamfélaginu efld.
Mennta- og menningarmálaráðherra upplýsi Alþingi um framfylgd verkefna innan Stjórnarráðsins skv. 1.–4. mgr. á þriggja mánaða fresti frá samþykkt ályktunarinnar

Nýverið óskaði starfshópur mennta- og menningarmálaráðherra eftir umsögn BÍL tillöguna. Umsögn BÍL fer hér á eftir:

BÍL – Bandalag íslenskra listamanna er samstarfsvettvangur fagfélaga íslenskra listamanna. Í því felst að gæta hagsmuna listamanna, verja frelsi þeirra til orðs og athafna og leggja lið baráttunni gegn hvers kyns ofsóknum á hendur listafólki og hindrunum í starfi þeirra. BÍL á í virku samstarfi við alþjóðleg baráttusamtök listamanna úr öllum listgreina sem berjarst fyrir tjáningarfrelsi, má þar nefna samtökin PEN international http://www.pen-international.org/ og Freemuse – The World Forum on Music and Censonship http://www.freemuse.org/sw305.asp

Þó áhersla þingsályktunartillögunnar, sem hér er til umfjöllunar, sé styrking lýðræðisins með rétti almennings til óhlutrægrar fjölmiðlunar og rétti fjölmiðla til miðlunar óhlutdrægra frétta, þá lítur BÍL svo á að einn og sami grundvöllur sé undir tjáningafrelsi listamanna, almennings og fjölmiðla.

BÍL styður megininntak ályktunarinnar, að Ísland taki forystu í að innleiða afgerandi lagaramma um vernd tjáningarfrelsis, málfrelsis, upplýsingafrelsis og útgáfufrelsis og leggur áherslu á eftirfarandi þætti í því sambandi:

Horft verði til ákvæða mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og til fyrirmynda í löggjöf annarra landa, t.d. er stutt síðan norska þingið samþykkti að taka ákvæði um tjáningarfrelsi út úr hegningarlögum.

Fylgt verði fast eftir kröfunni um heimildamannavernd og vernd afhjúpenda.

Skýrð verði krafan um opna stjórnsýslu, þannig að ekki séu óeðlilegar hömlur á tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna um málefni tengd stjórnsýslunni.

Innleiðing ákvæða Árósasamningsins verði endanlega leidd í íslensk lög og tryggt að andi samningsins verði hafður að leiðarljósi við framkvæmd ákvæðanna.

Ryðja þarf úr vegi þeim hindrunum sem nú eru til staðar í starfsumhverfi skapandi atvinnugreina, en þær eru alla jafna leiddar af starfi listafólks. Starfshópur á vegum mennta- og menningarmálaráðherra er um það bil að skila skýrslu með tillögum um úrbætur í þeim efnum, sem gætu verið gagnlegar í vinnunni við að tryggja vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis.