FUNDARGERÐ FYRIR BANDALAG ÍSLENSKRA LISTAMANNA
Ráðstefna haldin dagana 9. og 10. júní 2004 í Reykjavík með þátttakendum frá Norðurlöndunum, yfirskriftin fundarins var:
,,Að efna til umræðna”
Ráðstefnan var vel sótt og samkvæmt viðveruskrá sem látin var ganga manna í millum fyrri daginn, má sjá að ráðstefnugestir voru 34 talsins.
Ráðstefnan hófst á tilsettum tíma í Iðnó klukkan 16:00 með ávarpi Tinnu Gunnlaugsdóttur, forseta Bandalags íslenskra listamanna, hún bauð gesti velkomna, þakkaði þátttökuna og tíundaði mikilvægi öflugs samstarfs listamanna á Norðurlöndunum. Tinna sagði í stuttu máli frá aðdraganda og tilurð fundarins. Síðan sagði Tinna, að á tyllidögum segðu menn menningu og listir hornsteina norræns samstarfs. Hún nefndi að í opinberri stefnu norrænu ráðherranefndarinnar frá 1998 ,,Norrænt menningarsamstarf við aldamót” megi lesa að meginmarkmið ráðsins sé að; halda við, þróa og styrkja hið samnorræna menningarstarf með því að skipuleggja, samhæfa og vinna saman á markvissan hátt að brýnum verkefnum svo efla megi sameiginleg áhugasvið þjóðanna og skapa norrænt umfang á evrópskum og alþjóðlegum grunni. Markmiðið sé að varpa ljósi á afurðir í norrænu listalífi, m.a. gegnum hinar faglegu nefndir: NIFCA, NORDBOK, NOMUE og Teater og dans i Norden.
Tinna sagði augljóst að orðin vantaði ekki, en það virtist skorta pólitískan vilja í samstarfi Norðurlandanna. En bætti því við að orðin og viljinn góði væru ekki nóg, verkin þyrftu einnig að tala.
Nú kynnti Tinna fyrirlesara, þá Peter Duelund, Svein Einarsson og Garry Neil. Þá kynnti hún til leiks Einar Kárason stjórnanda umræðna, Eddu Þórarinsdóttur ráðstefnustjóra og ráðstefnuritara Kristján Hreinsson.
Eftir ræðu Tinnu Gunnlausdóttur, tók til máls Peter Duelund.
Í inngangi fyrirlestrar síns velti Peter Duelund fyrst fyrir sér hvar þræðir norrænna þjóða liggja saman á sviði menningarinnar, hverjir geti talist sameiginlegir snertifletir þjóðanna og þá velti hann upp þeirri spurningu, hvers virði norræn menning er, á tímum örra þjóðfélagsbreytinga. Hann velti því einnig fyrir sér hvaða tilgangi fjölþætt menningartengsl Norðurlandanna geti þjónað á tímum alþjóðavæðingar. Ennfremur spurði Duelund þeirrar spurningar hvert stefnir í menningu Norðurlanda og spurði: -Hvernig tryggjum við menningarlegt frelsi í heimi sem er ataður einsleitni, markaðshyggju og menningariðju um leið og krafan um arð og pólitíska stjórnun menningar og lista verður æ háværari? –Hvernig tryggjum við listamönnum laun til viðurværis í stafrænni alþjóðavæðingu?
Þegar kom að eiginlegum fyrirlestri, fjallaði Duelund um norræna menningarmódelið frá öllum hliðum, skýrði söguleg tengsl stjórnmála og menningar frá árunum eftir seinna stríð og fram til vorra daga – frá dögum styrkja án afskipta, til tíma þar sem styrkjum fylgja kvaðir og stjórnun frá hinu opinbera, um leið og peningavald nær æ sterkari tökum á menningu og listum.
Duelund vitnaði tíðum í bók sína The Nordic Cultural Model og skýrði þá þróun sem orðið. Hann byrjaði söguskýringar sínar með því að benda á það hvernig stjórnvöld á Norðurlöndunum tóku höndum saman á sjötta áratugi síðustu aldar um að gera lýðræðislegar kröfur til menningarinnar og höfðu það að markmiði að miðla menningu og listum til allra þjóðfélagshópa og á alla hugsanlega, landfræðilega afkima. Þessi þróun leiddi svo til þess sem kalla má menningarlegt lýðræði, en samkvæmt því sem Duelund segir, virðist sú þróun hafa verið markviss af hálfu stjórnmálamanna á Norðurlöndunum, að fara frá því ferli að stjórnvöld styðji hugtök einsog ,,menning fyrir alla” og til þess sem má kalla menning studd af einkaframtaki.
Duelund segir að við upphaf sjöunda áratugar síðustu aldar hafi allar Norðurlandaþjóðirnar lagt á það áherslu að virkja hinn lýðræðislega þátt menningarinnar með því að gefa menningunni vægi á lýðræðislegum grunni, list alvinnumanna skyldi ná til almenninga með því að miðlun menningar átti að hafa fjölbreytni að leiðarljósi og miðlunin átti einnig að verða sem allra víðtækust.
Næsti áratugur opnaði svo fyrir nokkuð sem kalla má menningarlegt lýðræði, sem þýddi þó ekki að list dregið væri úr miðlun listar á fagmannlegum grunni. Um leið og menningarpólitíkin náði mannúðlegri reisn fengu hinn félagslegi þáttur menningarinnar og sá mannfræðilegi að spila æ stærri rullu. Í brennidepli varð margbreytileiki hversdagsins sem sterkur og dýrmætur þáttur.
Menningarhugtakið að baki hinni ríkisreknu menningarpólitík var útskýrt sem ,,verkefni sem við tökum öll þátt í”. Mikil áhersla var lögð á þátttöku almennings, t.d. áhugamannauppákomur o.s.frv. Menningin skyldi eiga rætur í lífshlaupi og hvers og eins, í hverju samfélagi fyrir sig.
Í stórum dráttum og án veigamikilla undantekninga, má skipta þróun í menningarpólitík á Norðurlöndunum frá sjöunda áratugi síðustu aldar og til dagsins í dag í fjögur þrep sem hvert um sig er litað sérstöku markmiðum og ólíkum leiðum að markmiðunum:
Fyrsta þrepið er einkum bundið við árin frá 1960 – 1975, þó má finna fyrstu fleti þeirrar þróunar sem hér um ræðir allt frá átunum eftir seinna stríð. Hér er fyrst um það að ræða að ríkisrekin menningardreifing fær fótfestu, með markvissum aðgerðum og með að gera menninguna lýðræðislega, þ.e.a.s. menning fyrir alla. Lögbundinni ríkisrekinni menningardreifingu var ætlað að deyfa áhrifamátt og yfirráð einsleitni markaðslegrar iðnvæðingar hverskonar menningar. Eins var ætlunin að varðveita og lengja lífdaga alls sem kalla má menningu og listir. Hér eru gildi mannúðar í menningunni í hávegum höfð.
Annað þrepið, árin frá 1975 – 1985, geymir viðleitni manna til að örva staðbundið frumkvæði, einkum gegnum menningarlegt lýðræði. Áfram eru lögbundnar nýjar hliðar á ríkisreknu aðgengi að menningu til þess að vernda menninguna fyrir áhrifum frá markaðsvæðingu og menningu sem útþynntri söluvöru. Mannfræðilegar kennisetningar halda menningarpólitíkinni lifandi.
Í þriðja þrepinu sem tilheyrir árunum frá 1985 – 1995 eru það félagsleg og efnahagsleg lögmál sem setja mark á menningu, hér er markvisst farið að draga úr stuðningi hins opinbera við ýmsa þætti sem snúa að því að bæta aðgengi almennings að menningu og listum. Hér þykir ekki eins nauðsynlegt að ríkið sem slíkt sé að halda öllu til haga. Þessu er fylgt frekar eftir með því að ríki felur í æ ríkari mæli t.d. sveitarfélögum að sjá um fjármögnun. menningar og lista. Hin listræna réttindavernd færist í mörgum tilvikum yfir á hendur tækni, fjöldaframleiðslu og markaðslögmála.
Fjórða og síðasta þrepið, sem tilheyrir árunum frá 1995 og eitthvað áfram inní eilífðina, ber með sér þann boðskap að mikil áhersla er lögð á að einskonar samhjálparástand ríki milli lista og atvinnulífs og að þetta ástand sé samofið skattaívilnunum og styrkjakerfi, en kostun fyrirtækja og einkaaðila skipar þó æ stærri sess við listsköpun og sölu listaverka. Hér fara útgefendur, umboðsmenn, forleggjarar og ýmsir aðrir að eignast hlut í tekjum ef höfundarrétti. Mikill samdráttur verður í opinberum stuðningi og framkvæmdum í þágu menningar og lista. Frekar en að ríki og bær standi vörð um menningu og listir, má segja að hið opinbera gangi í lið með einkaaðilum með það að markmiði að gera menningu og listir að sjálfbærum vaxtarbroddum og í mörgum tilvikum arðbærum atvinnugreinum.
Niðurstaðan verður þá sú, að framþróuninni megi lýsa með hugtökum félagsvísinda á þann hátt, að ríki og fjármagnseigendur hafi sett í gang ,,nýlendustefnu” í öllu sem lýtur að innri verðmætum menningar og lista. Í stað þess að halda í heiðri því sem á árunum eftir stríð og fram undir lok síðustu aldar þótti við hæfi, þ.e.a.s. að hin norrænu velferðarsamfélög litu á það sem heilaga skyldu sína að ráða fjárstreyminu þannig að listrænu frelsi og menningarlegri fjölbreytni væru tryggðir fjármunir, leitast ríki, sveitafélög og minni einingar samfélagsins við það í dag að lifa í samhjálparreglu með fjármagnseigendum, með það helst að leiðarljósi að forgangsraða þegar kemur að fjárþörf menningar og lista. Hugsun um upplifun og veltu kemur meir og minna í stað grunnmarkmiðanna sem fólust í almennri þátttöku, upplýsingum og menntagildi.
Einar Kárason stýrði nú umræðum og spurði fyrst spurninga sem voru hugsaðar sem leiðandi inngangur umræðnanna: -Eru norræn gildi í menningarstjórnun á undanhaldi og önnur öfl að verða yfirsterkari? -Er líklegt að aukin markaðsvæðing og vaxandi frjálshyggja í norrænum samfélögum, komi til með að hafa neikvæð áhrif á fjölbreytt framboð, aðgengi eða almenna afstöðu fólks til menningar og lista?
Ýmsir tóku til máls og beindu spurnum til Duelunds, sem þurfti í nokkrum tilvikum að útskýra nánar þær meiningar sem hann hefur sett fram um þróun mála á Norðurlöndunum núna síðustu hálfu öldina eða svo. Ein spurning var svo hljóðandi: -Er til stuðningur án stjórnunar og á að styðja listamenn og menningu án þess að krafa um nákvæma stjórnun athafna fylgi?
Duelund svaraði og sagði að auðvitað mætti alltaf gera ráð fyrir því að þeir sem héldu um peningana vildu fá að ráða í hvað þeir eru notaðir. En hann vildi meina að peningarnir gætu hindrað listamenn og heft þá ef afskiptin verða of mikil – listrænt frelsi kann að bíða hnekki.
Áfram héldu umræður, menn ræddu um almenningsbókasöfn, einkareknar stofnanir, samspil einkageira og hins opinbera. Tinna Gunnlaugsdóttir sagði það ákveðið áhyggmuefni í hve ríkum mæli ráðamenn væru farnir að miða við mælanlegan árangur, þegar peningar til listalífsins eru annars vegar, Árangursstjórnunarsamningar við listastofnanir væru angi af þessari þróun. Ráðamenn ættu hinsvgar að hafa það hugfast að það er hvorki á þeitta færi, né á þeirra verksviði að hafa áhrif á það hvað listamenn framkvæma fyrir það fjármagn sem þeim er úthlutað. Torben Glarbo ræddi um útvarp, sjónvarp, skyldur ríkisrekinna fjölmiðla og öryggisnet sem ríkið á að sjá um að reka. Pia Raug ræddi um þá stefnu einkarekinna fjölmiðla að fara alltaf auðveldustu og ódýrustu leiðina og treysta í æ ríkari mæli á alþjóðavæðingu og streymi efnis milli landamæra, frekar en að kosta einhverju til á heimavelli.
Ýmsir tóku til máls um framangreind umræðuefni og má segja að menn hafi frekar verið uggandi um sinn hag en síður en svo útblásnir af bjartsýni. Þó má segja að norræn samstaða hafi verið það sem fundarmönnum töldu viturlegast að stóla á.
Eftir stutt hlé, var umræðum svo haldið áfram. Spurt var um aðstöðu og starfsskilyrði listamanna á Norðurlöndum. -Þurfa Norðurlöndin að breyta menningaráherslum sínum vegna Evrópusamrunans eða stækkunar Evrópusambandsins? -Hvernig má stuðla að bættum starfsskilyrðum listamanna á Norðurlöndum?
Aftur mátti heyra á fundarmönnum að samstaða Norðurlendanna ætti vel að duga, hvort sem þau eru innan eða utan bandalaga.
Svörin við þeim spurningum sem upp voru bornar koma fram í þeim setningum sem Duelund lét hljóma áður en hann þakkaði fyrir gott spjall:
-Allt sem viðkemur list í dag virðist hafa eitthvað með stjórnmál að gera þegar spurt er um styrki, en þegar spurt er um útkomu og túlkun, þá mega stjórnmálin ekki koma nærri. Við verðum fyrir alla muni að tryggja listamönnum listrænt sjálfstæði.
-Ef peningarnir koma ekki, þá deyr listin, segja vinstrimenn. -Þá má hún bara deyja segja hægrimenn. En öll viljum við list hvort sem við erum til hægri eða vinstri.
-Við getum ekki einvörðungu skoðað list með glersugum peningaveldisins, jafnvel þótt línur milli listar sem ber sig og listar sem ber sig ekki séu stöðugt að skýrast. List verður að fá að njóta sín sem frumorka um leið og hún þarf líka að þjóna því hlutverki að vera eitthvað sem er staðlað og háð lögmálum markaðarins um framboð og eftirspurn.
Þegar markaðsöflin ein ráða listsköpuninni þá er lýðræðið í hættu. Og þegar það er skoðað að stjórnmálamenn, verndarar lýðræðisins eru háðir fjölmiðlum, fjölmiðlarnir eru háðir stjórnendum sínum, stjórnendurnir háðir neytendum, þá verða neytendur að grandskoða það sem í glerhöllunum er gert. Og það sem meira er, neytendur þurfa að láta stjórnmálamenn átta sig á því hverjum þeir eru í raun og veru háðir.
-Við þurfum í fyrstalagi öflugt norrænt samstarf, því ef við gerum ekkert þá munu stjórnmálamenn styrkja til að stjórna. Norrænar þjóðir verða að standa vörð um sameiginlega menningu sína og þá menningu sem hvert svæði um sig ber ábyrgð á.
-Þjóð án menningar er ekki þjóð.
Nú reis Bernt Lindberg úr sæti og leyfði okkur að heyra það sem kalla má samantekt og niðurstöðu. Hann sagðist sjá hættumerkin víða og slæmt til þess að hugsa að menning og listir þurfi að hengja sig á klafa ólíkra stjórnmálaflokka. Ef vinstrimenn ráða för, þá lifir menningin og listin fær næði til að anda en ef hægrimenn ráða för þá blómstrar framleiðslan. Lindberg sagði sjálfsagt að skoða þessa einföldun grandgæfilega, þótt í henni felist alhæfingar sem þurfa ekki endilega að standast hörðustu kröfur. Hann sagðist sjá það sem slæman blett á listsköpun og listiðnaði ef einsleitni og markaðshyggja tækju öll völd af listamönnunum og fjármagnseigendur stýrðu því hvað listamenn aðhefðust, auk þess vildi hann meina að það væri fullkomlega óforsvaranlegt ef réttur höfunda væri að hluta til að færast til framleiðenda.
Þá sagði Bengt að herkænska listamanna yrði að byggjast á öðru og meiru en því sem við sjáum neikvætt í framvindunni á Norðurlöndum. Með jákvæðu hugarfari er auðveldara að koma greina vandann og saman geta þjóðir Norðurlandanna spyrnt við fótum af krafti. Listamenn verða að hafa meira að segja um hvernig styrkveitingum er háttað. Norðurlandaþjóðirnar verða að festa í sessi umræðugrundvöll sem leiðir til þess að áhrifa listamanna ger í ríkum mæli að gæta.
Með þessum orðum lauk Bengt Lindberg máli sínu og Edda Þórarinsdóttir sagði fundarmönnum frá því að kvöldverður hæfist á annarri hæð í Iðnó klukkan 19:30. Þar með lauk eiginlegum fundi þennan daginn.
Að kveldi miðvikudagsins 9. júní var svo kvöldverður í Iðnó. Halldór Guðmundsson, bókmenntafræðingur og fyrrverandi útgefandi flutti gestum langt og bráðskemmtilegt erindi um útrás íslenskar bókmennta. Hann rakti í góðlátlegu gríni og með alvarlegum brag sögu útrásarinnar og tíundaði dæmi um velgengni sagnaritunar frá upphafi vega og allt til vorra daga.
Fimmtudagur 10 Júní
Tinna setti fund og kynnti til leiks Peter Curman sem síðan kynnti fyrir fundinum drög að markmiðum sem KLYS, samtök sænskra listamanna, hafa sett sér að fara eftir. Peter sagði m.a. að markmið KLYS skyldu vera:
-Að fylgja beri þeim lýðræðislegu vinnubrögðum sem UNESCO byggir á, með áherslu á einstaklinginn í heimahögum.
-Að til að tryggja menningarlega fjölbreytni verði allir sem að málum koma að taka afstöðu til menningar.
-Að stuðla að því að UNESCO takist að fá sem flestar þjóðir til samninga um mikilvægi menningalegrar fjölbreytni.
-Að tryggja beri með reglum og samþykktum að fyrirtæki virði þörf manna fyrir menningu og menningarlega framþróun.
-Að stjórnmálamenn verði að öllum tiltæmum ráðum að tryggja að jafnvægi ríki á fjölmiðlamarkaði, með því t.d. að skylda fyrirtækin til að sinna innlendri menning.
-Að tryggja hlutskipti listamanna og nauðsynlega virkni þeirra í hverju samfélagi. Auka ber skilning manna á hlutverki listamanna.
Til að undirstrika mikilvægi listamanna í hverju samfélagi gerir KLYS þá kröfu að stjórnmálamenn stuðli að eftirfarandi:
-Að ,,handarlengdarlögmálið” (the principle of arms lenght’s distance) verði látið ríkja milli stjórnmálamanna og listamenna. En það felur í sér að stjórnvöld styrki listamenn, án þess að stýra framkvæmdum listamannanna.
-Að tryggja beri að menningarleg samskipti og viðskipti milli landa verði hnökralaus og án illinda.
Að auðvelda aðgang listamanna að ákvarðanatöku varðandi framþróun menningar, þannig að samtök listamanna komi með beinum hætti að ákvarðanatöku um listir á innanlands- og alheimsmarkaði.
Nokkrar umræður spunnust vegna orða Peters. Meðal þeirra sem til máls tóku var Pia Raug, frá Danmörku. Henni varð tíðrætt um menningartolla og vildi einnig koma á framfæri stuðningi við ,,handarlengdarlögmálið” og sagðist já það bæði í sínu heimalandi og á öðrum Norðurlöndum að í vöxt hafi færst að yfir völd styrki listamenn vart nema þau hafi bein afskipti af því hvað þeir listamenn aðhafast sem styrkina hljóta.
Þeir hinir sem til máls tóku voru sammála Piu Raug og lofuðu framtak KLYS.
Sveinn Einarsson, fulltrúi í stjórnarnefnd UNESCO, sté á stokk og sagði okkur sitthvað af sögu UNESCO. Hann lýsti aðkomu UNESCO að samþykktum um menningarlega fjölbreytni og tíundaði undirbúning að sáttmála sem ætlað er að tryggja sérstöðu menningar og menningarafurða. Þá ræddi Sveinn um ólæsi í heiminum og markmið UNESCO sem lúta að því að útrýma þeirri skelfilegu hindrun sem ólæsi er, þegar um framþróun og varðveislu menningar er að ræða. Hann lét fundinum þó í té upplýsingar um að takmörk þau sem menn hafa sett sér muni að öllum líkindum ekki nást. En eitt af æðstu markmiðum stjórnarnefndarinnar hafði á sínum tíma verið að útrýma ólæsi fyrir árið 2016.
Næstur sté í ræðustól Garry Neil, talsmaður INCD, alþjóðasamtaka um menningarlega fjölbreytni. Hann spurði fyrst -Hvað gera viðskipti og alþjóðavæðing fyrir menningu? Og án þess að reyna að svara, spurði hann aftur: -Hvernig geta viðskipti og alþjóðavæðing skaðað menningu ólíkra þjóða – menningararf og þróun menningar? Í þessu sambandi minntist hann á stafrænu tæknina og Netið sem nýjustu dæmi um áhrif viðskipta og miðlunar á framþróun og varðveislu menningar, þar sem flaumurinn verður ekki haminn, menningarstraumar og flóðbylgjur fara um, breyta því sem breytt verður, bæta það sem bætt verður og eyða öllu sem unnt er að eyða. Garry sagði brýnt að menn næðu að átta sig á því hvernig er hægt að breyta Netinu og kæmust að sáttum um leiðir sem farnar verða til að reyna að stemma stigu við óreiðu í Netheimi, ekki síst í þeim tilvikum þegar um hreinan stuld á höfundarrétti er að ræða. Þá reifaði hann hugmyndir um að frumkvæði verði að koma frá heimssamtökum menningarmálaráðherra og annarra svo tryggja megi sérstöðu menningar gagnvart alþjóðavæðingu, fríverslunarsamningum og samkeppnislögum. Þá ræddi Garry um Alþjóðaviðskiptastofnunin og stöðu mála eftir að Cancun-fundurinn 2003 fór út um þúfur. Hann ræddi um menningu, alþjóðavæðingin og alþjóðlegar aðgerðir í þágu menningarlegri fjölbreytni.
Í fyrstu rakti hann aðdraganda umræðna um menningalega fjölbreytni og
sagði að árið 1998 hefði á fundum samtaka um menningu í Ottawa og í Stokkhólmi fyrst komið fram áhugi manna um að kanna í þaula og kortleggja áhrif alþjóðavæðingar á menningu ólíkra þjóða. Hann kynnti fyrir fundarmönnum drög að sáttmála UNESCO og sagði afar mikilvægt að listamenn, stjórnmálamenn og aðrir sem málið snertir á Norðurlöndum gerðu sér grein fyrir sérstöðusinni og að á þann þátt yrði lögð sérstök áhersla þegar að því kæmi að fulltrúar Norðurlandanna hefðu eitthvað um framvindu og endanlegan sáttmála að segja.
Þá nefndi hann að 1999 hafi stýrihópur tekið ákvörðun um að stofna INCD, sem hélt sinn fyrsta fund árið 2000 í Santorini á Grykklandi. 2001 var svo haldinn fundur í Lucerne í Sviss, þar sem drög voru lögð að samþykktum. Þá hittust menn í Höfðaborg í Suður-Afríku, þar ræddu menn mikilvægi þess að styðja við framþróun menningarlegrar iðni og sköpunargleði svo tryggja megi jafnvægi í samskiptum milli ólíkra menningarsvæða. 2003 var fjórði fundurinn haldinn í Króatíu og þar var rætt um menningalega fjölbreytni á alþjóðamarkaði og tengsl hennar við borgaralegar hreyfingar, þar sem tryggja skal lagalegan grundvöll INCD.
INCD sýnir frumkvæði með heimssamtökum menningarmálaráðherra þegar kemur að alþjóðasamningum og stefnumörkun í menningarmálum.
Um þátt Norðurlandanna í alþjóðlegu samhengi, hafði Garry margt að segja. Fyrst nefndi hann, að heimsbyggðin ætti Norðurlöndum margt að þakka þegar kemur að undirstöðuatriðum við framsetningu samninga um menningarlega fjölbreytni. Í því sambandi minntist hann á sérstöðu þá sem samtök listamanna hafa skapað sér með samheldni sem á sér langa sögu. Hann sagði norræna menn hafa verið einna fyrsta til að gera sér grein fyrir neikvæðum áhrifum alþjóðavæðingar, og fulltrúar Norðurlandanna gegndu lykilhlutverki þegar INCD var að fæðast. Þá höfðu þessar þjóðir afgerandi áhrif á umræður um alþjóðavæðinguna og lögðu til ómælda og ómetanlega aðstoð til ýmissa þjóða við að auka áhrifamátt menningar í hverju landi. Neil vildi meina að bæði listamenn og stjórnmálamenn á Norðurlöndum hefðu sýnt gott fordæmi, eins sagði hann að norrænir ráðherrar hefðu gengt veigamiklu hlutverki í INCP og UNESCO, og átt stærstan þátt í fjárhagslegum stuðningi við uppbyggingu INCD.
Í framhaldi af mikilli lofræðu um ágæti norrænna listamanna, lét Garry þess getið að menn mættu ekki ofmetnast af velgengninni og sofna á verðinum, því mikilvægt er að leita allra leiða svo sáttmáli um menningarlega fjölbreytni hafi sem víðtækust áhrif. Listamenn á Norðurlöndum geta haldið sínu frumkvæði ef þeir gef ekkert eftir í þeirri viðleitni að hughreysta þá listamenn sem ekki hafa náð jafn langt í því að varðveita staðbundna menningu og arfleifð sem einungis samstillt átak kann að bjarga.
Nú stýrði Perer Curman stuttum og snörpum umræðum um fyrirlestur Garry Neil. Eftir nokkur hlý orð í garð fyrirlesarans og skemmtilegar útskýringar á útvöldum hugtökum, sagði Curman það ekki vera stefnu INCD að endurskapa þá heimsmynd sem ólík menning byggir á, heldur breyta og bæta, öllum þjóðum og öllum menningarsamfélögum í hag.
Til máls tók Peter Duelund og sagði að menn mættu ekki vera alltof bjartsýnir á árangur, því við svo marga og ólíka heima væri að eiga. Þá bað hann Garry Neil að segja frekar frá hugsanlegum núningsflötum þeirrar maskínu sem INCD er og hverjir gætu talist hugsanlegir árekstrar.
Garry Neil svaraði og sagði að ef þetta væri einungis spurning um menningu þá væri málið auðleyst, en þar eð pólitík og viðskipti koma inní myndina, þá má reikna með langri röð árekstra.
Pia Raug spurði um menningarkvóta, samspil innflutts menningarefnis og framleiðslu innlends efnis. Hún vildi meina ef menn sinntu ekki framleiðslu á heimamarkaði, myndi ódýrt, innflutt efni ná undirtökum.
Garry sagði menningarkvóta þurfa að virka á báða bóga, þjóðir yrðu neyddar til að taka við efni frá öðrum þjóðum eftir kúnstarinnar reglum, um leið og öll menningarsamfélög yrðu að hafa visst hlutfall að t.d. sjónvarpsefni, ef innlendum meiði.
Curmann sagðist ekki geta annað en bíða spenntur eftir þeirri framvindu sem INCD ætlaði að ýta af stað. Og lauk þar með þessum ágætu umræðum.
Hótel Nordica
Fulltrúa listamanna og ráðherra menningarmála hittast.
Fundur undir stjórn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra .
Fundurinn með ráðherrum menningarmála hófst með því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir bauð gesti velkomna. Hún bauð kynnti ráðherrum að kynna sig, sem þeir og gerðu. Þá bauð Þorgerður Katrín þeim sem til máls skyldu taka af hálfu listamanna að kynna sig. Fulltrúar listamanna kynntu sig hver á fætur öðrum og svo kom að því að bera upp erindi við ráðherrana.
Þeir sem töluðu af hálfu listamanna voru: Tinna Gunnlaugsdóttir sem talaði fyrir íslenska listamenn, Harri Wessman frá Finnlandi, Franz Ernst frá Danmörku, Súsanna Holm frá Færeyjum, Ingrid Kindem frá Noregi, Peter Curman frá Svíþjóð, Lena Pastenic frá Gotlandi og Garry Neil frá Kanada.
Spurnir fulltrúa listamanna voru af ýmsum toga og margar settar fram af festu, en báru þú með sér margar hverjar að í þeim fólust vangaveltur sem einkum mátti eyrnamerkja þeirri þjóð sem fyrirspyrjandi kom frá. Þó lutu þær nokkrar að framtíðarsýn ráðherranna, vangaveltur um styrkja- og launamál listamanna og svo einstök stórverkefni á grundvelli norrænnar samvinnu of á alþjóðavettvangi.
Tinna Gunnlaugsdóttir vildi fá að vita um stefnu ráðherra í því sem áður hafði komið fram á fundum listamanna og lýtur að menningarstjórnun og samnorrænni samvinnu. Hvernig sjá ráðherrarnir að styrkveitingum til listamanna verði háttað í framtíðinni og hvaða áhrifum vilja stjórnvöld ná fram: –Er verið að styrkja til að stjórna?
Fulltrúi Dana vildi fá að vita hvort handarlengdarlögmálið ætti ekki lengur við þegar tal berst að styrkjum til listamanna og bað um að stjórnvöld reyndu að tryggja listamönnum frelsi, því frelsið eitt gæti ýtt undir sköpunargleði.
Færeyski fulltrúinn lagði áherslu á vandamál smærri þjóða sem þurfa að sækja nám til stærri þjóða, ræddi um skattamál færeyskra listamanna, tungumálaörðugleika og margbreytilega aðstöðu listamanna sem neyðast til að sækja sér menntin á erlendri grundu.
Fulltrúi Norðmanna nefndi að regnhlífasamtök norskra listamanna eru ekki til, sagði það til baga og bað ráðherra sinn um að sinna málinu. Þá vildi fulltrúi norskra ræða um skiptingu tekna af tónlistarflutningi í norsku útvarpi og ræddi um sjóð sem norskir hljóðfæraleikarar hafa getað sítt í, sjóð sem til er vegna þess að stefgjöld af amerískri tónlist verða eftir í Noregi. Fulltrúinn bað ráðherrann að festa þennan sjóð enn frekar í sessi og standa vörð um málið.
Sá sænski þakkaði fyrir fundinn nefndi að Norðmenn ættu að sjálfsögðu að vera með regnhlífasamtök listamanna og hvatti norska ráðherrann til að koma slíkum samtökum á kopp. Hann sagði nauðsynlegt að halda slíka fundi sem þennan a.m.k. á tveggja ára fresti. Þá ræddi hann um þýðingar og málefni þýðenda, sagði að Norðurlöndin mættu gera enn betur í málefnum þýðenda. Þá talaði hann um norræn setur og vinnustofur, sagði nauðsynlegt fyrir ráðherrana að beita sér fyrir því að tryggja þjóðunum öflug menningarsetur og gera norrænum listamönnum kleift að ferðast milli Norðurlandanna á ódýran átt til að efla samstarf þjóðanna á sviði menningar og lista. Þá ræddi Peter Curman um gildi höfundaréttar og sagði ráðherrana geta gert margt til að tryggja höfundum sinn rétt, hann nefndi t.d. skattamál og taldi að festa mætti höfundarétt frekar í sessi með lagasetningum.
Fulltrúinn frá Gotlandi ræddi um sjálfstæði listamanna og bað ráðherra Norðurlandanna að tryggja listamönnum frelsi til athafna.
Garry Neil tók næstur til máls og bað menn að það að hann talaði ensku yfir þessum virðulega fundi. Hann minntist á það og þakkaði ráðherrunum fyrir þann stuðning og það brautryðjendastarf sem fulltrúar Norðurlandanna hafa sýnt þegar rætt hefur verið um að koma sáttmála INCD í framkvæmd. Hann sagði þjóðir Norðurlanda hafa verið á undan sinni samtíð þegar að því kom að varpa ljósi á neikvæðar hliðar alþjóðavæðingarinnar.
Nú var komið að ráðherrum að svara, og verður vart annað sagt en hógværð og látleysi hafi prýtt þann fríða flokk. Loforð voru engin gefin og eiginleg svör við spurningum voru ekki fyrirferðamikil, en þess í stað var norrænum listamönnum hælt í hvívetna fyrir framúrskarandi dugnað og fundinum sem slíkum var lýst sem hreinni himnasendingu. Margt gott mátti heyra frá ráðherrum og fulltrúum þjóða á Norðurlöndum. Gunilla Thorgren, ritari menningarmálaráðherra Svía kom hingað í stað Marita Ulvskog ráðherra, hún ræddi um alþjóðavæðinguna, sagði menn ekki mega gleyma því að ný tækifæri kunna að felast í opnum alþjóðlegum viðskiptum, þótt einnig megi finna að því t.d. í Evrópubandalaginu hversu menningarsvæðin eru ólík og hversu dýrt getur verið að halda utanum alla þá margbreytilegu menningu sem þar þrífst. Þá sagði sú sænsk að menning sem verslunarvara gæti verið afar hentug í vöruskiptum, án þess að útskýra þá fullyrðingu neitt frekar. Þá sagði hún að án sterkra samtaka listamanna myndu stjórnvöld vera illa á vegi stödd.
Frá Grænlandi kom Henriette Rasmussen og sagði hún samstöðu Norðurlandanna í málefnum menningar og lista vera það afl sem best getur staðið vörð um sérkenni hverrar þjóðar um leið og samstaðan getur styrkt sameiginlega þræði þjóðanna. Hún sagði að Norðurlönd yrðu að tryggja fjölbreytni í menningu og listum.
Lars Selander, talsmaður stjórnvalda á Álandseyjum sagðist spyrja sig að því hvort segja megi að tengsl séu svo sterk milli listrænna athafna ólíkra þjóða á Norðurlöndum og hvort ólík menning þjóðanna eigi endilega svo mikið sameiginlegt, hann sagði grundvallaratriðið vera það að samstarf þjóðanna ætti að byggjast á grasrótinni, hvetja þarf unga listamenn til dáða og gera þeim auðvelt að sækja fróðleik og efnivið í norræna menningu. Þá sagði hann að samstarf stjórnvalda og listamanna verði að byggja á gagnkvæmu trausti og listamenn verða að fá olnbogarými til athafna.
Finnski ráðherrann, Tanja Karpela, sagði ekki til neinar töfralausnir þegar vandamál alþjóðavæðingar liggja fyrir. Ekki er hægt að heimta að ríkin dæli peningum í verkefni sem eru til einskis. Við verðum að standa vörð um menningu og kosta ýmsu til en við verðum að gaumgæfa hvað við erum að gera, því mistök geta orðið okkur afar dýrkeypt. Menningu og listir verður að skoða í samhengi við þann fjölda starfa sem greinarnar skapa. Við á Norðurlöndunum getum staðið stolt og sagt að við höfum veitt listamönnum brautargengi gegnum tíðina og þess vegna verðum við að reyna að halda haus – við getum ekki bæði minnkað styrki og gert stærri kröfur til menningar og lista.
Frá Færeyjum mætti Jógvan á Lakjuni og sagði að sjálfstæði listamanna í Færeyjum byggðist t.d. á því að þeir hafa sitt eigið tungumál – um leið og sérkennin eru sérkenni gefa þau mönnum sjálfstæði, sérstaklega þegar listin byggir á traustum grunni menningar. Þá ræddi hann um amerísk áhrif, sérstaklega áhrif enskrar tungu, sem hann taldi tröllríða öllu í Evrópu og á Norðurlöndunum. Þótt færeyskir listamenn sæki menntun til útlanda þá verða þeir að standa vörð um færeysk gildi og leggja allt kapp á að þýpa erlent efni fyrir útvarp, sjónvarp og aðra miðla. Og þá sagði hann að fámenn málsvæði verði að hafa það hugfast að þau eiga ekki einvörðungu að vera þiggjendur, því þau hafa svo margt að gefa.
Valgerd Svarstad Haugland, menningarmálaráðherra Noregs byrjaði mál sitt á því að segja brandara af tveimur erlendum ferðamönnum sem komu til Noregs og hittu fyrir tvo gamla bændur. Ferðalangarnir reyndu að spyrja til vegar á ýmsum tungumálum, en þeir norsku skildu ekki hvað mennirnir voru að meina. Þegar túrhestarnir gáfust upp og gengu burt sagði annar bóndinn við hinn: -Við verðum að læra einhver önnur tungumál en norsku til að geta vísað fólki til vega. Hinn svaraði og sagði: -Ekki held ég að það geri neitt gott, ferðamennirnir sem voru hér rétt áðan töluðu mörg tungumál en ekki hjálpaði það þeim á nokkurn hátt. Þessi dæmisaga vakti almenna kátínu, en nánari útskýringar fylgdu ekki. Þess í stað upplýsti ráðherrann að Norðmenn hyggist á næstunni eyða miklum peningum í það að styrkja framleiðslu á innlendu menningarefni. Þá sagði sú norska að Norðurlöndin ættu að efla enn frekar samstarf á sviði sjónvarpsmála, svo norrænir ríkisfjölmiðlar nái að skapa sér ný sóknarfæri. Hún sagðist vilja að Norðurlöndin hugsuðu sem svo, að í stað þess að vera stöðugt að óttast erlend áhrif, ættu þau að sækja fram og gera hina sterku norrænu menningu sýnilega um veröld víða. Hlutverk Norðurlandanna verður mikilvægara með hverjum deginum sem líður, og þá er ekki nóg að einblína á menningu hverrar þjóðar fyrir sig, heldur þurfa þjóðirnar að standa saman til að tryggja það að norræn menning verði áberandi. Þá nefndi hún að ráð á vegum norrænna ráðherra væri að vinna að stefnumótun um sameiginlega menningaráætlun Norðurlandanna. Hún minntist á að mikið væri rætt um að koma á fót norrænum kvikmyndaverðlaunum. Og undir lokin sagði sú norska: -Samstarf á sviði menningar og lista er það mikilvægasta sem Norðurlöndin vinna að.
Danski ráðherrann, Brian Mikkelsen, svaraði spurningum um handarlengdarlögmálið og sagði Dani vera að skoða það hvernig þeir gætu komið til móts við kröfur listamanna, hann sagði að ekki væri nóg að tryggja listamönnum fjármagn því gagnvart kjósendum bæru stjórnmálamenn líka þá ábyrgð að svara því í hvaða verkefni peningarnir fara. Hann sagði yngri listamenn líta fyrst og fremst til útlanda í leit að frægð og frama, á meðan þeir eldri sinna innanlandsmarkaði. Hann taldi mikilvægt að norrænar þjóðir reyndu að auðvelda námsmönnum það að nema á Norðurlöndunum, að þeir fari frekar milli Norðurlandanna í námi en sæki útfyrir þau. Þá minnrist Brian lítillega á Söngvakeppni norrænna sjónvarpsstöðva, sagði hugmyndir í vinnslu, hann lofaði þessa hugmyndavinnu og sagði menn alltaf geta bætt listamönnum stökkpalla útí hinn stóra heim.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra Íslands tók næst til máls. Hún taldi fulltrúa listamanna hafa fengið svör við spurningum sínum og bætti því við að stöðugt væri verið að leita nýrra leiða, alltaf væri verið að skilgreina norðurlandasamstarfið á sviði menningar og lista. Hún sagðist sjá það að á næstu árum ættu listamenn eftir að upplifa ótal spennandi tækifæri sem stjórnmálamenn myndu ýta af stað. Þá sagðist Þorgerður Katrín vonast til þess að slíkir fundir sem þessi yrðu oftar, sagði þá fyllilega eiga tilverrétt, vonaði að þessi fundur hefði verið öllum jafn ánægjulegur og henni sjálfri. Við svo búið bauð hún gestum að snæða hádegisverð, þá þakkaði hún öllum komuna og sagði fundi slitið.
Eftir velheppnaðan fund með ráðherrum og talsmönnum stjórnvalda og eftir glæsilegt hádegisverðarboð Þorgerðar Katrínar, var aftur haldið í Iðnó.
Á þeim fundi sem nú fór í hönd tóku ýmsir til máls. Fyrst sté á stokk Lena Pasternac, stjórnandi Baltneska rithöfundasetursins á Gotlandi, ræddi hún lítillega um norræn setur. En mest af öllu ræddi hún um ánægjulegan fund með ráðherrum og tjáði sig um margt sem borið hafði á góma á þeim ágæta fundi.
Þá tók til máls Torben Heron frá Danmörku, hann ræddi um Norðurlöndin og Evrópu – Evrópuráð listamanna ECA. Hann sagði m.a. að ef hugmyndir Norðurlandaþjóða eiga að fá hljómgrunn í Evrópu og ef menningarleg áhrif þjóðanna eiga að verða merkjanleg innan Evrópubandalagsins, þá verði það að gerast gegnum ECA. Torben notaði tækifærið og hældi BÍL fyrir það merka framtak sem hann sagði fund þennan vera.
Næstur Talaði Peter Curman frá Svíþjóð. Hann sagði þá hlið sem snýr að höfundum og listamönnum almennt vera aðalatriðið. Hann sagði að listamenn verði að hafa hæfilega fjarlægð milli sín og stjórnvalda og eins yrði handarlengdarlögmálið að ríkja milli höfunda og útgefenda. Þá sagði hann það að vísu vera akkilesarhæl listamenna, hve illa þeir halda utanum eigin hagsmuni. Þá lofaði Peter fundinn og allt seg gerst hafði þessa tvo merku daga.
Tinna Gunnlaugsdóttir spurði fundarmenn um álit þeirra á fundinum með ráðherrunum. Ýmsir tóku til máls, og yfirleitt lofuðu allir framtakið sem slíkt en flestir voru á því að inntak orðræða ráðherranna hafi verið frekar rýrt í roði. Menn sögðust hafa trú á markvissum umræðum og vildu meina að þannig mætti kannski koma framkvæmdagleði stjórnvalda í gang. Þó má segja að almennta hafi fundarmenn verið ánægðir með fundinn með því ágæta fólki sem menningarmálaráðherrar Norðurlandanna eru.
Garry Neil sagði að þótt menn hefðu jafnvel talað í kross á þessum fyrsta fundi mættu menn ekki gefast upp, markviss stefnumótun yrði nú þegar að fara í gang svo setja megi aðalatriði á oddinn fyrir næsta fund. Hann sagði mikilvægt að formlegi hluti svona funda byggði á fyrirfram ákveðinni samþykkt.
Edda Þórarinsdóttir sagði fundin hafa heppnast með ágætum og sagði listamenn hafa borið mikið úr býtum, því allajafna væru ráðamenn afar hræddir við listamenn og þyrðu vart að opna munninn í návist þeirra, þeir væru svo hræddir við að gefa loforð sem auðveldara væri að svíkja en standa við.
Tiina Valpola frá Finnlandi sagði brýnt að halda áfram markvissu samstarfi norrænna listamanna, vonaði að þessi fundur yrði fyrstur í langri röð og sagðist viss um að þetta samstarf ætti eftir að skila miklu, ekki einvörðungu til listamanna, heldur einnig til stjórnvalda og alls almennings.
Pia Raug frá Danmörku sagði að fyrir næsta fund yrðu talsmenn listamanna að hugleiða samhljóminn svo þeim tækist að tala sem ein rödd. Hún sagði þá samstöðu sem ríkt hafði í Iðnó hafa mátt skila sér inná fundinn með ráðamönnum. Hún sagði fyrirspurnir til ráðherranna þurfa að skila klárri niðurstöðu, í formi framkvæmdaáætlunar eða ályktunar.
Peter Curman sagði að þótt ráðherrarnir hefðu í mörgum tilvikum fengið aðrar spurningar á fundinum en þær sem þeir fengu skriflega fyrir fundinn, þá hefðu svörin verið stöðluð og á köflum ekki í samræmi við spurningarnar þeir fengu á fundinum.
Pia spurði að því hvort ekki væri hægt að stofna aftur samtök listamanna í Noregi. Hún kvaðði Norðmenn til dáða og sagði þá eiga allan stuðning vísan frá örðum listamannasamtökum á Norðurlöndum. Þá sagði Pia að þótt danski ráðherrann hafi sagt á fundinum að handarlengdarlögmálið ætti að ríkja meðal listamanna og stjórnvalda, vildi hann nú samt hafa öll völd hjá stjórnarherrum. Þá spurði Pia hvort fundurinn ætti ekki að senda frá sér ályktun eða fréttatilkynningu.
Ýmsir ræddu þessa tillögu, en niðurstaðan varð sú að gera ekkert slíkt.
Lena Pastenac nefndi það að hvort ekki væri kominn tími til að láta samstarf Norðurlandanna ná lengra og styrkja innviðina með því að fá fulltrúa Sama, Grænlendinga, Eista, Letta og Litháa.
Tinna Gunnlaugsdóttir sagði undirbúningsnefndina bæði hafa reynt að fá fullrtúa frá Grænlandi og Samalandi, en ekki hafi það gengið. Um samstarf við Eistland, Lettland og Litháen sagði hún að auðvitað mætti skoða allt slíkt, t.d. að bjóða þessum þjóðum að senda fulltrúa á næsta fund. Þá sagði Tinna þennan fund hafa verið afar sterkan og í fram haldi af þeim orðum bauð hún Einari Kárasyni að flytja fundinum samantekt og niðurstöður.
Einar Kárason sagði sína upplifun á samstarfi norrænna þjóða gegnum tíðina hafa birst sem skipulögð óreiða, þar sem allir þykjast skilja alla en í rauninni hafi menn hver talað í sína áttina útfrá ólíkum og óskyldum forsendum. En samt sagði hann yndislegt að sjá hvernig þessar frændþjóðir ættu það alltaf sameiginlegt að vera ólíkar en þykjast líkar. Einar tók nokkur dæmi um brauðfótagöngu í norrænu samstarfi, sagði haltan leiða blindan og lofaði um leið þá elju og þann dugnað sem norðurlandaþjóðir sýna við að klappa hver hinni á bakið, um leið og baktal er aldrei langt undan. Hann sagði þessa tvo daga, þá fundi og þær umræður sem listamenn hefðu tekið þátt í, vera til hreinnar fyrirmyndar og að þessir tveir dagar með stífum fundahöldum sýndu okkur að sameinuð munum við vinna öll vígi.
Nú kom það í hlut Tinnu Gunnlaugsdóttur, forseta Bandalags íslenskra listamanna, að þakka ráðstefnugestum þátttökuna og sagðist vona að ekki liði langur tími þar til boðað verður til næsta fundar. Með þeim orðum sagði Tinna fundi slitið.
Nú var farið til Höfða í boði borgarstjórans í Reykjavík.
Að kveldi dags var svo samkoma í Iðnó með tónlistaruppákomu og léttum veitingum. Þar með lauk ágætri ráðstefnu á formlegan hátt.
Kristján Hreinsson