Bandalag íslenskra listamanna eru heildarsamtök fagfélaga listafólks og hafa sem slík samstarfssamning við stjórnvöld um samstarf í málefnum lista og menningar. Stjórn BÍL hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að styrkja stjórnsýslu málaflokksins og hvatt til þess að stofnað verði sjálfstætt ráðuneyti menningarmála að norrænni fyrirmynd í stað þess að dreifa stjórnsýslulegri ábyrgð á fjögur ólík ráðuneyti eins og nú er gert. Þau sjónarmið hafa ekki hlotið hljómgrunn stjórnmálanna, svo stjórn BÍL hefur undanfarið lagt kapp á að funda með öllum ráðherrum sem hafa skilgreint hlutverk gagnvart listum og menningu og fagnar því þessum fyrsta fundi með utanríkisráðherra. Þau málefni lista og menningar sem varða utanríkismál tengjast hvers kyns markaðssetningu landsins á erlendum mörkuðum, kynningarmál lista og menningar á alþjóðlegum vettvangi með sérstakri áherslu á samstarf Norðurlandaþjóða, málefni Íslandsstofu sem fagfélög listamanna hafa tekið virkan þátt í að móta og stjórnvöld hafa nú áform um að breyta.

Svo sem kunnugt er vega listir og menning þungt í mótun ímyndar Íslands og eiga, ásamt mikilfenglegri náttúrunni, stærstan þátt í draga erlenda ferðamenn til landsins og vekja athygli á landi og þjóð á alþjóðlegum vettvangi. Kynningarmiðstöðvar lista og menningar eru lykilstofnanir í þessu starfi og hafa tekið virkan þátt í uppbyggingu Íslandsstofu. Þar hefur fagráð í listum og skapandi greinum skipt sköpum, enda koma þar saman þeir aðilar sem skipuleggja þátttöku íslenskra listamanna og hönnuða í hátíðum, messum og kaupstefnum lista- og menningargeirans, innan lands sem utan. Einnig sitja í fagráðinu fulltrúar þriggja ráðuneyta sem koma að málefnum lista og menningar (utn, mrn og anr). Þannig hefur fagráðið um átta ára skeið greitt fyrir samstarfi listageirans og opinberra aðila, enda fundar það reglulega og er upplýst um starfsáætlanir kynningar-miðstöðvanna, sem tryggir að stuðningur Íslandsstofu við kynningu lista og menningar á erlendri grund er á forsendum miðstöðanna, sem enda búa yfir sérfræðikunnáttu og fagþekkingu geirans.

Það er mat stjórnar BÍL að uppbygging fagráða Íslandssofu sé enn í mótun og þurfi lengri tíma til að festast í sessi, t.a.m. þarf að efla samtalið milli einstakra fagráða með það að markmiði að auka samlegð og tryggja heildarsýn. Stjórnin varar þ.a.l. við áformum um að leggja fagráðin niður. Nær væri að efla enn frekar samtal list- og menningargeirans við fulltrúa stjórnvalda, t.d. með því að ráða sérfræðing í listum og menningu til að sinna starfi menningarfulltrúa utanríkisráðuneytisins. Slíkur fulltrúi sæti í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum, auk þess sem hann annaðist tengsl lista og menningar, fyrir milligöngu kynningarmiðstöðvanna, við sendiskrifstofur Íslands og viðskiptafulltrúa utanríkisþjónustunnar. Þá mætti hugsa sér að menningarfulltrúi ráðuneytisins hefði hlutverki að gegna í tengslum við starf Norðurlandaskrifstofu ráðuneytisins og væri tengiliður við mennta- og menningarmálaráðuneytið, en mikil þörf er á að byggja brú milli þessara tveggja ráðuneyta um málefni lista og menningar.

BÍL eru grasrótarsamtök 15 fagfélaga listamanna, sem öll eiga beina aðild að kynningarmiðstöðvum sinna listgreina. Samstarfsnet fagfélaganna og mistöðvanna er lifandi og skilvirkt. Það eina sem vantar er styrkari fjárhagsgrundvöllur, skilgreind tenging við stjórnvöld ásamt viðurkenningu stjórnkerfisins á mikilvægu hlutverki mistöðva listgreina og hönnunar. Stjórn BÍL hvetur utanríkisráðherra til að treysta hlutverk miðstöðvanna í framkvæmd utanríkisstefnu stjórnvalda.