Friðrík Rafnsson ritstjóri og stjórnarmaður í stjórn Ríkisútvarpsins skrifar grein í Fréttablaðið í dag um mikilvægi þess að Ríkisútvarpið fái útvarpsgjaldið óskipt svo stofnunin nái að halda sjó í rekstrarlegu tilliti, auk þess sem það er heiðarlegra gagnvart skattgreiðendum:

Allt frá stofnun RÚV árið 1930 hafa skoðanir verið skiptar meðal þjóðarinnar um hlutverk þess og stöðu. Það er bara eðlilegt í heilbrigðu lýðræðissamfélagi, ekkert væri verra en þögn og skeytingarleysi. Íslenska þjóðin, eigandi RÚV, gerir miklar kröfur til þess að vel sé farið með það fé sem til þess rennur og það skili sér í sem allra bestri þjónustu, góðri og vandaðri dagskrá í útvarpi, sjónvarpi og á vefnum. Það er og verður síðan alltaf mats- og smekksatriði, en mestu skiptir að þjóðin treysti Ríkisútvarpinu og líti á það sem einn af burðarásum íslensks nútímasamfélags.

Traustið grundvallaratriði
Hlustenda- og notendakannanir eru bestu mælikvarðarnir á það traust sem fólk ber til fjölmiðla. Hér eru nokkrar beinharðar staðreyndir: Segja má að nánast allir landsmenn njóti dagskrár RÚV á einn eða annan hátt í viku hverri. 87% landsmanna horfa á RÚV að meðaltali í hverri viku, 30% hlusta á Rás 1 og 62% á Rás 2 í viku hverri. Vefurinn ruv.is er í 5. sæti í vefmælingu Modernus með 212 þúsund notendur í viku 41 (6. til 10. október s.l). Í viðhorfskönnun sem Capacent gerði september 2013 sögðust 70,5% landsmanna telja RÚV vera mikilvægasta fjölmiðilinn fyrir þjóðina og þrátt fyrir stöðugar umkvartanir stjórnmálamanna nýtur fréttastofa RÚV meira trausts en nokkur annar fjölmiðill. Í könnun sem MMR gerði í desember 2013 sögðust 76,5% þeirra sem tóku afstöðu bera mikið traust til Fréttastofu RÚV. Þetta sýnir glögglega að enda þótt RÚV eigi sér nokkra háværa og áhrifamikla óvildarmenn og -konur treystir íslenska þjóðin mjög vel þeim upplýsinga- og mannræktarmiðli sem RÚV er.

Brugðist við vandanum
Ég hef setið í stjórn RÚV frá því í byrjun þessa árs og þekki því nokkuð vel til mála þar. Magnús Geir Þórðarson tók við starfi útvarpsstjóra um miðjan mars, kynnti breytingar í rekstrinum sem hann taldi nauðsynlegar og hlaut til þess fullt umboð stjórnar RÚV. Meðal þess var að stokka upp í framkvæmdastjórn, minnka yfirbyggingu og einfalda allar boðleiðir. Með öðrum orðum, minna bákn og meiri skilvirkni í rekstrinum og starfseminni, allt í þágu betri þjónustu við þjóðina.

Útvarpsstjóri og framkvæmdastjórn hafa síðan unnið sleitulaust að því undanfarna fimm mánuði að hagræða í rekstri RÚV og fá skýrari mynd af fjárhagnum. Eins og fram hefur komið hjá útvarpsstjóra og formanni stjórnar RÚV er nú unnið hörðum höndum í að koma skikk á fjármál RÚV, leigja út hluta hússins, selja lóð og/eða húsnæði, en ekki síst að fá Alþingi til að samþykkja þá eðlilegu beiðni að RÚV fái þann markaða tekjustofn sem því er ætlað, útvarpsgjaldið, óskert. Hluta af útvarpsgjaldinu hefur ríkið notað í önnur verkefni. Þessar skertu tekjur duga ekki fyrir óbreyttri starfsemi, en verði það látið renna óskert til RÚV, sem er líka heiðarlegra gagnvart skattgreiðendum, ætti það að duga til að koma rekstrinum í jafnvægi.

Stöðugt ræktarstarf
Staðan er sannarlega ekki góð, það hefur verið vitað lengi, og á m.a. rætur sínar að rekja til þess að RÚV var gert að opinberu hlutafélagi árið 2007 og látið taka á sig óheyrilegar skuldbindingar. En nú er loks verið að gera eitthvað í málinu. Þess vegna er hann heldur hjárænulegur, sá heilagi vandlætingartónn sem nokkrir fjölmiðla- og stjórnmálamenn hafa sent RÚV undanfarið. Þeir minna einna helst á foreldri sem hundskammar unglinginn á heimilinu fyrir að drattast loks til að taka til í herberginu sínu.
„RÚV á að rækta mann,“ segir góð kona stundum í mín eyru. Það er hárrétt, en þá þurfum við líka að rækta RÚV, hlúa að því og efla það til að geta tekist á við ýmis verkefni sem markaðsfyrirtæki ræður ekki við. Þá munum við öll, íslenska þjóðin, uppskera ríkulega í enn fjölbreyttara, umburðarlyndara og betra mannlífi.