Ágúst Guðnundsson:

 

Helgin hófst á leiksýningu: Utan gátta eftir Sigurð Pálsson. Fjórir toppleikarar fóru á kostum í meitluðu leikriti í frumlegri umgjörð undir stefnufastri leikstjórn. Ég hugsaði með mér: ef þetta er ekki útrásarverkefni, þá veit ég ekki hvað er.

Daginn eftir voru hádegistónleikar hjá Hljómeyki. Verk fjögurra íslenskra tónskálda sungin yfir svolítið undrandi, en jafnframt fagnandi hausamótum í Hafnarfirði. Allt unnið af fagmennsku, ég leyfi mér að nota orðið atvinnumennsku, þó að ég gefi mér það að vinnulaun hafi verið takmörkuð og í langflestum tilfellum engin.

Á þriðjudagskvöldið slæddist ég svo inn á bar á Klapparstígnum þar sem leikin var tónlist frá síðustu öld. Allir textar sungnir á íslensku, nema einn. Hæst bar klassík Jóns Múla og Jónasar Árnasona, Undir stórasteini.

Í blöðunum birtust ádrepur rithöfunda, fyrst frá Einari Má, svo frá Kristínu Marju, og fólkið las og sagði: Eins og talað út úr mínu hjarta! Mikið er gott að einhver skuli geta orðað svo nákvæmlega það sem mér finnst!

Svipaða tilfinningu fær fólk fyrir framan verk Gylfa Gíslasonar, sem nú eru sýnd í Ásmundarsal: gamansöm verk með þjóðfélagslegri skírskotun. Ekki ólíkum tilgangi þjónaði allt öðru vísi sýning Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar í Hafnarhúsi um daginn. Áhrifin: hugvekja, í þess orðs eiginlegu merkingu.

Þannig halda listamenn áfram að tala til þjóðarinnar og vekja hana til umhugsunar um sjálfa sig, um mannlegt eðli og innstu rök tilverunnar, raunar um ystu rök hennar líka . Almennt verður niðurstaðan sú að fagna þeirri áráttu listamanna að skrá og kortleggja tilfinningalíf okkar allra, sem þeir gera hver með sínum hætti, í riti, tónum, myndum, dansi, kvikmyndum…

Þessi árátta mun halda listafólki áfram að verki þó að nú harðni í ári. Jafnframt verður ekki hjá því komist að benda á þann skell sem listalífið verður fyrir þessa dagana, kannski fyrr og harðar en flestar aðrar starfsgreinar. Þetta kom m.a. fram á aðalfundi Listahátíðar nú um daginn. Gert er ráð fyrir að framlög úr einkageiranum dragist stórlega saman.

Það hefur vitaskuld verið listaheiminum fagnaðarefni undanfarin ár að geta notið stuðnings frá stórfyrirtækjum í mun ríkara mæli en tíðkaðist áður fyrr. Nú eru þau stórfyrirtæki flest á hausnum, og þá standa eftir dýrmæt framlög frá ríki og bæjarfélögum. Þar er ekki alltaf um háar upphæðir að ræða, en þær skipta sköpum. Þær varða beinlínis tilveru okkar sem þjóðar.

Nú megna stjórnmálaleiðtogarnir ekki lengur að blása í okkur þjóðarstolti, og því síður sem þeir eru hærra settir. Þá kemur berlega í ljós hve mikilvæg sjálfstæð listræn tjáning er þjóðlífinu. Á öðrum umbrotatímum , nánar tiltekið á 4. áratug síðustu aldar, orðaði Jón Leifs þetta svo: “Menntamennirnir og listamennirnir eru landvarnarher vor Íslendinga.”

Útrás, uppáhaldsorð fjármálajöfranna, er orðið skammaryrði – alls staðar nema í listaheiminum. Þegar kemur að kynningu á landi og þjóð á erlendum vetvangi , eru fáir betur til þess fallnir en einmitt listamenn að berja í brestina sem aðrir hafa valdið.

 

Birt í Morgunblaðinu í nóvemberbyrjun 2008