Síðan ég tók við embætti forseta BÍL hef ég iðulega staldrað við þá einföldu spurningu sem varpað er fram hér að ofan. Ég hef satt að segja átt við sífellt meiri efasemdir að stríða um raunverulega virkni Bandalagsins í samfélagi okkar og staðið mig að því að halda mig markvisst til hlés í því sem kalla mætti dæmigerðan eða hefðbundinn vettvang forseta BÍL. Það þýðir m.a. að ég hef átt æ erfiðara með að átta mig að mikilvægi þess að standa upp á endann í kokteilboðum eða sitja á miðendanum á sér í löngum kvöldverðarboðum á vegum gestrisinna yfirvalda.

Á yfirborðinu gæti litið svo út sem fulltrúi listamanna ætti einmitt að vera sem sýnilegastur í fínni lummuboðum og viðhafa þar jafnframt ítrustu kurteisisvenjur, þó ekki væri nema til að leiðrétta þann misskilning að listamenn séu ekki íkja samhvæmishæfir.