Hildur Bjarnadóttir fréttamaður hjá RÚV var með mjög áhugaverða frétt frá Danmörku í hádegisfréttum útvarpsins 30. janúar sl.:

 

“Danskir fjölmiðlar segja að forystumenn í atvinnulífinu og vísindamenn telji mikilvægara fyrir börn að læra að fá góðar hugmyndir, heldur en að fá háar einkunnir í lestri, skrift og reikningi. Þótt slík færni spilli ekki fyrir, sé meira um vert að læra að spjara sig, og nýta hugmyndaflugið. Það komi að mestu gagni í störfum, bæði í iðnaði og þjónustu.

Stofnun um framtíðarrannsóknir í Danmörku hefur gefið út bók um efnið, þar sem bent er á nauðsyn skapandi hugsunar og skapandi starfa. Gagnlegustu hugtökin í allri atvinnustarfsemi séu samvinna og fagleg þekking. Með breyttri tækni verði hvers kyns myndmál, hljóð og lifandi myndir mikilvægari en skrifaður texti og tölur á blaði.

Ekki eigi að eyða tíma barna í að læra eins og þeir sem nú eru fullorðnir gerðu, heldur kenna þeim þannig að þau verði gjaldgeng í skapandi störfum í framtíðinni.”