Í dag sendi BÍL eftirfarandi fréttatilkynningu til íslenskra fjölmiðla:

Fyrir hönd norrænna listamannasamtaka* sendir Bandalag íslenskra listamanna íslenskum fjölmiðlum hjálagða ályktun. Ályktunin hefur verið send yfirmanni viðskiptamála í framkvæmdastjórn ESB, Ceciliu Malmström. Efni ályktunarinnar varðar möguleg áhrif fríverslunarsamninga Evrópusambandsins og Bandaríkjanna (TTIP) á menningarmál, sérstaklega hljóð- og myndmiðlunargeirann (audiovisual sector). Ályktunin er samin í framhaldi af fundi sem norrænu listamannasamtökin héldu 2. september sl. í Kaupmannahöfn, en þar fjölluðu sérfræðingar um ýmsa þætti yfirstandandi viðræðna og það sem vitað var um samningsmarkmið samninganefndar ESB. Meðal þess sem listamannasamtökin hafa gagnrýnt er leyndin sem hvílt hefur yfir samningaviðræðunum. Nokkrum dögum áður en hjálögð ályktun átti að birtast voru samningsmarkmið samninganefndar ESB gerð opinber, svo segja má að áhrif þessarar vinnu séu þegar farin að skila sér. Ályktunin er send fjölmiðlum á íslensku og ensku:

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins**
Stjórnarsvið viðskiptamála
Cecilia Malmström
TTIP-samninganefndir
Brussel, Belgíu

Áhrif TTIP á menningarmál og hljóð- og myndmiðlunargeirann
Við – samtök norrænna listamanna*, fulltrúar meira en 90.000 atvinnumanna í ólíkum listgreinum á Norðurlöndum – lýsum yfir þungum áhyggjum af þeim viðræðum um fríverslunarsamning sem nú fara fram á milli Evrópusambandsins (ESB) og Bandaríkjanna um TTIP – Transatlantic Trade and Investment Partnership[1].

Samtök norrænna listamanna hvetja samninganefnd framkvæmdastjórnar ESB** til að hafa í huga skyldurnar sem felast í UNESCO-samningnum frá 2005 um að vernda og styðja við fjölbreytileg menningarleg tjáningarform (UNESCO-samningurinn) sem ESB hefur fullgilt og tryggja að markmið samningsins verði að fullu virt í TTIP-samningaviðræðunum.

Við krefjumst þess að samninganefndir TTIP:

  • gæti þess að markmið og skyldur UNESCO-samningsins um menningarlega fjölbreytni verði að fullu virt í TTIP-samningaviðræðunum;
  • tryggi að ekki verði gengist undir neinar skuldbindingar í menningargeiranum – sem er ekki undanskilinn skýrum orðum í samningaviðræðunum – um lokagerð samningsins;
  • sýni hljóð- og myndmiðlunarundanþáguna á fullnægjandi hátt með því að tryggja víðtæka og ótímabundna undanþágu hljóð- og myndmiðlunarþjónustu óháð tækni og verkvangi þar sem netþjónusta er talin með; og
  • auki gagnsæki í samningaferlinu með því að gera samningaviðræðugögnin aðgengileg evrópskum borgurum í meira mæli.

Menningarleg fjölbreytni
Markmið UNESCO-samningsins er að vernda og styðja við fjölbreytileika menningarlegra tjáningarforma, eins og lýst er yfir í grein 1(a) og grein 4.1 í samningnum. Í grein 5.1 (Almenn regla um réttindi og skyldur) árétta samningsaðilar rétt sinn sem fullvalda þjóða til að móta og framkvæma eigin stefnu í menningarmálum og til að gera ráðstafanir í því skyni að vernda og styðja við fjölbreytileika menningarlegra tjáningarforma. Í 6. grein (Réttur samningsaðila á innlendum vettvangi) er tilgreint hvað kann að falla undir slíka menningarmálastefnu og ráðstafanir.

Samtök norrænna listamanna hvetja samninganefndir TTIP til að virða þau markmið og skyldur sem felast í UNESCO-samningnum og ekki síst að taka tillit til 20. greinar samningsins, þar sem samningsaðilar gangast undir að uppfylla í góðri trú skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum og öllum öðrum sáttmálum sem þeir eiga aðild að. Af því leiðir að þjóðríkin eiga ekki að setja UNESCO-samninginn skör lægra en nokkurn annan samning við túlkun og framfylgd annarra sáttmála sem þau eiga aðild að eða þegar þau taka á sig aðrar alþjóðlegar skuldbindingar, heldur taka fullt tillit til þeirra ákvæða samningsins sem málið varða.

Þar sem megintilgangur fríverslunarsamninga (þar á meðal TTIP), til dæmis ákvæða um frjálst aðgengi að mörkuðum, landsbundna meðferð og bestu kjör, er að draga úr allri mismunun í reglugerðum og innlendum styrkjakerfum aðildarríkja samninganna, er augljós hætta á að menningarleg fjölbreytni Evrópu sé í húfi í TTIP-viðræðunum.

Ef ofangreind áhyggjuefni eru ekki tekin alvarlega gæti TTIP haft áhrif á lands- og svæðisbundna styrki og styrkjakerfi, skaðað innlend og svæðisbundin störf innan menningargeirans og spillt evrópsku höfundarréttarkerfi. Allar þessar mögulegu afleiðingar af TTIP vinna gegn því að styrkja aðstæður og vinnuskilyrði listamanna og menningargeirans í Evrópu.

Menningarmál og hljóð- og myndmiðlunargeirinn
Upphafleg áform TTIP um aukið frjálsræði, jafnt af hálfu evrópsku og bandarísku aðilanna, fólust í víðtæku fríverslunarsamkomulagi sem ætlað var að ná til allra þátta samfélagsins, þar á meðal menningar- og hljóð- og myndmiðlunarþjónustu. Þessi fyrirætlan vakti efasemdir menningarmálaráðherra 14 aðildarríkja ESB og Evrópuþingsins, þar sem mikill meirihluti vildi að menningar- og hljóð- og myndmiðlunarþjónusta yrði afdráttarlaust útilokuð frá samningsumboðinu. Eftir langar viðræður á fundi ráðherranefndarinnar í júní 2013 samþykkti nefndin loks að hljóð- og myndmiðlunarþjónusta yrði fyrst um sinn undanskilin.

9. atriði í umboðinu sem ráðherranefndin veitti TTIP-samninganefndinni í júní 2013 (en trúnaði var létt af því í október 2014) er skref í rétta átt. Með þessari samnorrænu yfirlýsingu viljum við tryggja að framkvæmdastjórnin virði 9. striði í samningsumboðinu og taki það til greina í TTIP-samingaviðræðunum í samræmi við kröfur okkar.

Að mati samtaka norrænna listamanna þarf undanþágan um hljóð- og myndmiðlun að endurspeglast á fullnægjandi hátt í samningnum sjálfum í því skyni að vernda og styðja við menningarlega fjölbreytni og fjölhyggju fjölmiðla í Evrópu. Því viljum við leggja áherslu á mikilvægi víðtækrar og ótímabundinnar undanþágu hljóð- og myndmiðlunarþjónustu, óháð tækni og verkvangi, sem nær til helstu hljóð- og myndmiðlunarþjónustu sem stendur til boða á Internetinu. Hljóð- og myndmiðlunarþjónusta sem er boðin sem hluti af pakkalausnum ætti einnig að falla undir það.

Við viljum ennfremur hvetja samninganefndirnar til að tryggja að í lokagerð TTIP-samningsins verði engar skuldbindingar settar á menningargeirann, sem ekki er skýrt undanskilinn í viðræðununum. Til að svo megi verða þarf að taka það skýlaust fram í samningnum að menningarþjónusta sé undanskilin honum og við hvetjum samninganefndirnar því til að nota breiðari skírskotun UNESCO-samningsins. Tilvísun í skyldurnar sem fylgja UNESCO-samningnum þarf einnig að koma fram í formála TTIP.

Gagnsæi
Skortur á gagnsæi er mikið lýðræðislegt vandamál í TTIP-viðræðunum. Leyndin sem hvílir á samningaviðræðunum stangast einnig á við 11. grein UNESCO-samningsins sem kveður á um að samningsaðilar hans viðurkenni mikilvægi borgaralegs samfélags við að vernda og styðja við fjölbreytileg menningarleg tjáningarform. Samningsaðilar ættu því að hvetja til virkrar þátttöku borgaralegs samfélags í viðleitni sinni til að ná fram markmiðum samningsins.

Norrænu listamannasamtökin hvetja því samninganefndir TTIP til að leggja sitt af mörkum til að samningstextinn verði aðgengilegri í meira mæli og til að bæta upplýsingastreymi til borgaralegs samfélags um framgang samningaviðræðnanna í því skyni að borgarar og listamenn í Evrópu hafi aðgang að þeim málum sem eru rædd í TTIP-samningaviðræðunum. Opið og lýðræðislegt samningaferli skiptir meginmáli ef TTIP á yfirleitt að komast á.

28. október 2014
Fyrir hönd samtaka norrænna listamanna*

Mats Söderlund, KLYS – the Swedish Council of Artists

Lena Brostrøm Dideriksen, Council of Danish Artists

Ilkka Niemeläinen, Forum Artis – the Joint Organization of Associations of Finnish Artists

Kolbrún Halldórsdóttir, BIL – Federation of Icelandic Artists

Anders Hovind, Kunstnernetverket – Norwegian Artist Network

Leif Saandvig Immanuelsen, EPI – Greenland Organization of Creative and Performing Artists

Bárður Dam, LISA – Faroese Council of Artists,

Brita Kåven, Sami Artists Council

* Bandalag íslenskra listamanna, Bandalag norskra listamanna, Bandalag sænskra listamanna og rithöfunda, Danska listamannaráðið, Forum Artis – bandalag finnskra listamannasamtaka, Færeyska listamannaráðið, Listamannaráð Sama og Samband grænlenskra listamanna.

* Þessi útgáfa er ætluð Stjórnarsviði viðskiptamála framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Svipuð yfirlýsing verður send Evrópuþinginu, Stjórnarsviði mennta- og menningarmála framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og ríkisstjórna og þjóðþinga Norðurlandanna.

[1] Samstarf um viðskipti og fjárfestingar yfir Atlantsála