Nú er sumri tekið að halla og flestir komnir til starfa að loknu sumarleyfi tilbúnir að takast á við verkefnin framundan. Það gildir einnig um stjórn BÍL, en hún heldur fyrsta stjórnarfund haustsins nk. mánudag 15. ágúst í Iðnó. Á fundinum verður yfirfarin fyrirliggjandi starfsáætlunin, sem samþykkt var á aðalfundi BÍL í janúar sl. Verkefnin sem hæst ber tengjast starfskjörum listafólks; svo sem skattalegri meðferð höfundalauna og réttindagreiðslna hvers konar, fyrirkomulagi fjárveitinga til lista og menningar, menningarhlutverki Ríkisútvarpsins auk þess sem unnið er að útfærslu hugmynda um akademíu listamanna. Ályktanir aðalfundar og starfsáætlun BÍL má sjá á fréttasíðu heimasíðunnar dags. 5. feb. 2011.
Á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins fer nú fram vinna við að meta starfsumhverfi skapandi greina, en það verkefni var sett á laggirnar í framhaldi af kortlagningu hagrænna áhrifa skapandi greina, sem birt var í áföngum síðastliðinn vetur. Á vordögum skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp, sem gert er ráð fyrir að skili niðurstöðum fyrir lok ágústmánaðar. Forseti BÍL á sæti í starfshópnum. Starf hópsins felst í því að leggja mat á hvernig bæta megi starfsumhverfi skapandi greina og nýta sem best þau tækifæri sem til staðar eru í þágu öflugra atvinnulífs. Reynt er að skoða samspil kraftmikillar grasrótar í listum og þeirra atvinnugreina sem flokkaðar hafa verið sem „vaxtagreinar“. Þar er ekki síst litið til hönnunargreina hvers konar, arkitektúrs, útgáfustarfsemi, auglýsingageirans, hugbúnaðar- og hugvitsgreina en einnig til atvinnulífsins almennt sem sækist í auknum mæli eftir skapandi einstaklingum til að starfa.
Það er mikilvægt að skrásett verði með hvaða hætti ríki og sveitarfélög hafa mótað stefnu á sviði menningar og lista, slík skrásetning auðveldar umræðu og frekari stefnumótun varðandi þær atvinnugreinar sem byggja að hluta eða öllu leyti á fólki með list- eða hönnunarmenntun. Einnig er mikilvægt að skoða með hvaða hætti stjórnvöld styðja við þessar atvinnugreinar. Í því augnamiði leggur hópurinn ríka áherslu á að greina fjárlög íslenska ríkisins 2011 með tilliti til þarfa skapandi greina. Menntun og rannsóknir í geiranum eru einnig til skoðunar, fjárfestingar og samlegð við aðrar atvinnugreinar, auk þess sem leitast er við að greina stöðu skapandi greina í stjórnkerfinu.
Það er mat starfshópsins að vinnan auðveldi til muna þann ásetning, sem lýst er í sóknaráætlun fyrir Ísland 20/20; að skapandi greinar gegni lykilhlutverki í að endurnýja kraftinn í atvinnulífi þjóðarinnar til framtíðar. Sá ásetningur rímar vel við áform þau sem staðfest hafa verið á vettvangi norrænnar samvinnu, t.d. í nýsamþykktri stefnu KreaNord sem aðgengileg er að vefnum http://www.kreanord.org/. Þar leggja atvinnu- og menningarmálaráðherrar Norðurlandanna áherslu á að í skapandi greinum geti verið fólgin leið til aukinnar verðmætasköpunar og nýsköpunar, að skapandi greinar geti gegnt hlutverki við að bæta aðgang norrænna afurða að alþjóðamörkuðum, fjármögnun og aðkomu óskyldra fjárfesta að fyrirtækjum sem byggja á skapandi greinum. Auk þess sem ráðherrarnir eru sammála um að efla beri menningu og sköpun á öllum sviðum menntunar á Norðurlöndum og auka vægi frumkvöðlastarfs og starfshæfni í öllum námsleiðum á sviði menningar og lista.