Framhaldsaðalfundur var haldinn hjá Bandalagi íslenskra listamanna 23. apríl sl. Þar var Ágúst Guðmundsson kjörinn nýr forseti Bandalagsins.
Á fundinum flutti Þorvaldur Þorsteinsson, fráfarandi forseti, skýrslu sína. Hafði hann þar nokkur orð um hinn ólíka skilning sem listamenn annars vegar og ráðamenn hins vegar leggja í orðið „samráð“. Benti á nokkur sorgleg dæmi því til sönnunar.
Þorvaldur sagði frá greinarskrifum sínum, m.a. vegna málefna listdansnáms og norræns menningarsamstarfs. Hann greindi frá fundi með útvarpsstjóra og fyrirspurnum til listamanna vegna þátttöku í Listahátíð og um mikilvægi þess að kanna nánar þátttöku listamanna hjá stofnunum og hátíðum, sérstaklega hvað varðar fjármögnun. Annað í starfi Bandalagsins var einnig rakið.
Þorvaldur taldi það stærsta verkefni BÍL að skilgreina bandalagið og endurskipuleggja starfið. Að vera gerendur, en ekki þolendur eða jafnvel píslarvottar!