24. júlí birtist í Morgunblaðinu grein eftir Ágúst Guðmundsson, þar sem hann fjallaði um dagskrárgerð, íslenska menningu og málvernd.
Á miðjum níunda áratugnum átti ég leið til Filipseyja. Á hótelherbergi mínu kveikti ég gjarnan á sjónvarpinu og horfði af sérstakri forvitni á þarlendar sápuóperur, vegna þess hve enskuskotið málið var. Innan um óskiljanlegan orðaflaum komu stök orð og stundum heilar setningar á ensku – og oft var skondið að heyra hverju var slett og sagði ýmislegt um þjóðarkarakterinn og þá ekki síður um bandarísk áhrif á íbúana.
En það sem mér þótti framandi fyrir tuttugu árum ætti ekki að vera það lengur. Íslendingar eru farnir að blanda ensku inn í mál sitt í mun ríkara mæli en áður gerðist. Áður fyrr voru öll blótsyrði tengd trúnni, þ.e.a.s. helvíti og húsbónda þess, en nú er bölvað upp á ensku og ýmist vísað til úrgangsefna mannsins eða kynlífs. Þessa nýung er erfitt að þýða á það ylhýra og því er enskan notuð hrá. Nöfn fyrirtækja eru hætt að vera íslensk, sömuleiðis bíómyndir og sjónvarpsþættir. Af hverju kallast Ædol og Baddselor þessum ónefnum – í landi þar sem nýyrðasmíð er vinsæl iðja, raunar svolítil listgrein sem fjölmargir stunda? Hingað til hefur beygingakerfi íslenskunnar hindrað aðgang erlendra orða að henni og neytt menn til að finna upp nýyrði við hæfi, en nú er jafnvel sú vörn að bresta. Almennt stefnir ástandið í álíka faraldur og dönskusletturnar voru fyrir tveim öldum. Komin þörf á að hóa Fjölnismönnum saman á ný!
Áhrifavaldinn má einkum finna í kvikmyndum og sjónvarpsefni. Það heyrir til undantekninga ef kvikmyndir frá öðrum löndum en Bandaríkjunum eru teknar til almennra sýninga í kvikmyndahúsum hér, og mikill meirihluti sjónvarpsefnis kemur úr sömu átt. Það eru einmitt sjónvarpsstöðvarnar sem hafa verið virkastar í þessari óumbeðnu enskukennslu. Sterkasti fjölmiðillinn bregður oftar fyrir sig amerískunni en öðrum tungumálum, að íslenskunni ekki undanskilinni. Það er meira kanasjónvarp á Íslandi nú en á dögum sjálfs Kanasjónvarpsins.
Í Bandaríkjunum er kvikmyndagerð iðnaður, raunar stóriðja, og afþreyingarefni er framleitt þar af meiri fagmennsku en annars staðar. Sölutölur ráða öllu. Efnið er gott ef áhorfið er mikið. Frumleiki eru ekkert keppikefli. Metnaðurinn liggur allur í vinsældunum. Kerfið í heild er magnað og hefur náð heimsyfirráðum. Innan um finnast svo óumdeilanleg listaverk, kvikmyndir sem eru með þeim merkustu í heiminum.
Þar með er ekki sagt að ekki eigi að sýna neitt annað. Þeir sem dreifa bíómyndum hér sýna evrópskri kvikmyndagerð meira áhugaleysi en hægt er að meðtaka. Ég trúi því einfaldlega ekki að áhorfendur fáist ekki til að sjá eina og eina franska, spænska eða þýska mynd, að ég tali nú ekki um gæðamyndir frá Norðurlöndum. Bíógestir flykkjast að þegar haldnar eru hér kvikmyndahátíðir. Lifir sá áhugi bara í hálfan mánuð í senn? Vel má vera að ágóðinn af slíkum sýningum sé minni en af hasarmynd með Tom Cruise. En kvikmyndadreifing er menningarstarf og því fylgja ákveðnar skyldur við neytendurna. Það á ekki að þurfa að lögfesta þær skyldur í formi kvótakerfis. En kannski þess fari að þurfa hér?
Menningarkvóta ber oftar á góma þegar rætt er um sjónvarp. Um alla Evrópu fá sjónvarpsstöðvar leyfi til útsendinga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði geta varðað framleiðslu á innlendu efni, bæði magn og gæði. Þá nægir ekki að telja saman innlenda dagskrá í mínútum, heldur þarf ákveðinn hluti hennar að vera vandað leikið efni eða heimildarmyndir sem mikið er lagt í. Stundum eru einfaldlega sett mörk á það ameríska efni sem stöðvunum leyfist að senda út. – Reyndar er viljinn til þess greinilega fyrir hendi hjá löggjafa vorum. Í Útvarpslögum segir: “Sjónvarpsstöðvar skulu kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu.”
Sjónvarpsrásir eru gæði sem meta má til fjár. Hérlendis hefur gilt sú regla um auðlindir að þær eru gefnar þeim sem fyrstir nýta þær. Í sjávarútvegi hefur þetta fyrirkomulag sætt nokkurri gagnrýni, og nú er rétt að endurskoða það hvað varðar öldur ljósvakans. Víða í Evrópu er innheimt hátt leyfisgjald af þeim sjónvarpsstöðvum sem fá að nota rásirnar. Hér í fámenninu ættum við þó að fara aðra leið. Í stað auðlindagjalds ættum við að gera þá kröfu á hendur sjónvarpsstöðvunum að þær sinni innlendri dagskrá svo sómi sé að.
Fyrirtæki sem fá útsendingarleyfi frá Útvarpsréttarnefnd eignast ekki rásirnar. Leyfin er veitt til ákveðins tíma, 5 ára fyrir hljóðvarp og 7 fyrir sjónvarp. það þarf ekki miklu að breyta í Útvarpslögum til að koma á skilyrðum um innlenda dagskrá. E.t.v nægir lítil reglugerð. Hugmyndin er einföld: til að fá að sjónvarpa á Íslandi þarf að sýna innlent efni – að einhverju marki og kosta til þess ákveðnum fjármunum.
Umræðan um fjölmiðlalög hefur einkum verið um eignarhald á fjölmiðlum. Er ekki kominn tími til að víkka þessa umræðu aðeins og skoða innihaldið um stund, velta því fyrir sér hvort sjónvarpsstöðvar geti stuðlað að bættri íslenskri menningu í stað þess að vera helsti skaðvaldur íslenskrar tungu?